15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af upphafi ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. komu mér í hug gömul ummæli. Það hefur verið svo þessa undanfarna daga að ég hef verið hér alla tíma þingfunda fram á nætur og fór héðan úr þinghúsinu milli kl. 1 og 2 s.l. nótt og hafði þá ekki veður af því og hafði einmitt spurt um það hvort nokkuð hefði verið óskað eftir því að ég yrði viðstaddur eða hvort nokkrum spurningum hefði verið beint til mín í sambandi við þetta mál, vegna þess að ég þurfti að fylgjast með umr. í Nd. Þá datt mér í hug að um þennan hv. þm. mætti e.t.v. segja: Enginn frýr þér vits, en meir ertu grunaður um græsku. Það þarf enginn mér að segja að það hafi verið tilviljun, að hv. þm. bar fsp. sínar til mín svo seint fram og honum hafi ekki verið ljóst að ég var úr þingi farinn. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þó að menn hafi sitt eðli til vinnubragða. Hef ég ekkert við það að athuga.

Nú ætla ég ekki tímans vegna að fara út í almennar umr. um vegamál, en verð þó að víkja að nokkru sem fram kom í ræðu hv. þm.

Hv. þm. taldi að hann vildi fyrst tryggja það að upp verði byggðir í landinu vetrarvegir og þá líka vonandi vorvegir í kringum landið allt. Nú hefur það skeð og núna á þessum vordögum hefur það verið svo, að settar hafa verið mjög strangar umferðartakmarkanir, m.a. hefur þetta verið gert nokkur undanfarin úr til þess að verja vegina gegn því að þeir yrðu algerlega eyðilagðir eða stórskemmdir af hinum þungu bifreiðum. Hér er um að ræða aðalvegina. Til mín hafa komið bifreiðastjórar, m.a. úr kjördæmi sem þessi hv. þm. er fulltrúi fyrir hér á hv. Alþ., og beðið mig að ganga í það að þessum takmörkunum yrði aflétt. Þeir hafa talið að það væri óhætt að gera það, en hins vegar ekki haft neina vissu fyrir því. Þessar takmarkanir hafa verið settar víða á landinu og m.a. hér á milli Reykjavíkur og Borgarfjarðar. Þá hafa bilstjórar mjólkurbilanna úr Borgarfirði komið til mín á undanförnum vikum og beðið mig að reyna að hafa áhrif á það að þessar takmarkanir yrðu ekki svo strangar sem þær væru, vegna þess að þeir gætu ekki farið með nema hálft hlass. Og sama sögðu norðanbílstjórarnir. Ég sagði þeim að það væri mitt hlutverk að taka í spotta með Vegagerðinni og verja vegina fyrir stórfelldum skemmdum. Þess vegna er það ljóst að í þessu fyrsta takmarki, sem þessi hv. þm. telur sig þó þurfa að gera að sínu máli, þarf mikið átak til þess að hringvegurinn sé fær. Og það, sem er höfuðtilgangur þessa frv.. er að afla fjár í þetta verk. Ég fæ því ekki skilið af hverju þessi hv. þm. er ekki stuðningsmaður þess að þetta sé gert, fyrst það er áhugamál hans að gera aðalvegi landsins færa. Það er einmitt það sem á að nota þessa og aðra fjármuni Vegagerðarinnar í, að því leyti sem þeir hrökkva til.

Annað verkefni, sem hv. þm. talaði um að hann vildi vinna að, er lagning varanlegs slitlags á vegi í þéttbýlisstöðum landsins. Frv. það, sem afgr. var til hv. Ed. úr Nd. áðan vegna smávægilegrar breytingar, gengur í þá átt að reyna að gera þetta. Það er hins vegar ljóst að þetta fjármagn, eins og annað, er það lítið að okkur verður of lítið ágengt í vegagerðinni. Þess vegna erum við, sem að þessu vinnum og höfum áhuga á málinu, að reyna að gera tilraun til þess að ná í meira fjármagn til vegagerðar í landinu almennt, vegna þess að aukið fjármagn til vegagerðarinnar hefur áhrif á vegagerð í öllu landinu.

Út af fyrir sig ætla ég ekki að fara að eyða löngum tíma í það að ræða við hv. þm. um brúna yfir Borgarfjörð. Hins vegar hef ég mikla ánægju af ummælum formanns Alþb. þar um og ég mun koma þeim á framfæri á þeim stöðum sem það hentar. (Gripið fram í.) Já, það er ástæða til þess. Hitt vil ég segja þessum hv. þm. að það hentar að koma því á framfæri í Norðurlandi vestra, á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi eystra, vegna þess að hann fer ekki veginn norður yfir Holtavörðuheiði nema fara í gegnum Borgarfjörð. Þar eru nú brýr sem eru orðnar tuga ára gamlar og allir vita, sem vilja vita, að þær munu hrynja fyrr en seinna ef ekki verður af þeim létt. Þessi hv. þm. keyrir ekki norður í sitt kjördæmi nema fara í gegnum Borgarfjörð. Hitt verð ég að segja, að ef hv. þm. eru svo þröngsýnir kjördæmismenn að þeir halda að þeir séu að vinna sínu kjördæmi gagn með því að staglast aðeins á vegum þar, en ekki á heildarlínunni, þá muni seint ganga að koma heildarlínunni á.

Ég hef hér fyrir mér yfirlit yfir fjárveitingar til vega frá og með árinu 1965 til og með þeirri áætlun sem við nú erum að afgreiða fyrir 1976. Ef ég tek hlutfall í fjárveitingum til kjördæma á þessu tímabili, þá er hlutfallið þetta — og þá er komin með fjárveitingin sem vex svo í augum þessa hv. þm., til brúarinnar yfir Borgarfjörð, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa niðurstöðu þessarar athugunar: Reykjaneskjördæmi 28.3% af heildarfjárveitingu til framkvæmda á þessu tímabili, þetta er allt miðað við það. (Gripið fram í: Á hvaða tímabili?) Frá 1965–1975, miðað við till. að vegáætlun nú. — Vesturlandskjördæmi 9.8%, Vestfjarðakjördæmi 10.3%, Norðurlandskjördæmi vestra 10.3%, Norðurlandskjördæmi eystra 11.7%, Austurlandskjördæmi 16.2% og Suðurlandskjördæmi 12.8%. Þetta er metið á verðlagi í júní 1975 allt saman. Hér er því um sambærilegar tölur að ræða og þá sjá hv. þm. hvað um er að ræða og hvort það er nokkur goðgá þó að vegum í Vesturlandskjördæmi væri nú sinnt, ekki síst þegar það er á aðalleiðinni. Hv. þm. Ragnar Arnalds má halda áfram mín vegna að tala um Borgarfjarðarbrúna. Ég mun hvorki blikna né blána fyrir að standa að þeirri framkvæmd. Hér er um það mál að ræða að vegagerðin inn fyrir Borgarfjörð verður ekki látin eiga sig lengur, það er nógu lengi búið að trassa það, og rannsóknir, sem gerðar hafa verið, sýna að þessi leið er heppilegri.

Út af því, sem hv. þm. talaði um Holtavörðuheiði, þá hafa þeir þm. norðlendinga haft sérstaka fjárveitingu sem þeir hafa ráðið meira um en aðrir menn, a.m.k. en alþm. hafa ráðið um og Alþ., í Norðurlandsáætlun. Af hverju hefur þessi hv. þm. ekki beitt sér fyrir því að láta nota af þessu fé í vegagerð á Holtavörðuheiði? Ef ég man tölur rétt, þá held ég að það hafi verið mjög takmarkað. Það, sem hins vegar hefur gerst, er að við Vesturlandsþm. höfum beitt okkur fyrir því að bæta veginn á Holtavörðuheiði og skortir þó mikið á að hann sé sæmilegur, eins og okkur er báðum kunnugt um, það skal fúslega viðurkennt. Ég tel því að þetta frv., sem hér er verið að ræða um, sé einn liðurinn í því að greiða úr og bæta um veginn á Holtavörðuheiðinni, því að enginn tekur hann út úr hringveginum um Norður- og Vesturland. Þess vegna fæ ég ekki skilið samhengið í því að hv. þm. hafi þennan áhuga fyrir Holtavörðuheiðinni og þeim öðrum heiðum sem hann nefndi, en ætli svo að snúast gegn fjáröflun í þessu skyni.

Í sambandi við Oddsskarð vil ég geta þess að það hefur nú meiri fjárveitingu en áður hefur verið og það nýtur þess eins og aðrir vegir í landinu að lánsfjár er aflað til vegagerðar.

Það er ekki hægt að koma þessum málum áfram án þess að til þess fáist fé, og það er það sem um er að ræða í þessu sambandi, að fá fé til framkvæmda í vegunum og þá fyrst og fremst í aðalvegunum. Ég held að hv. þm. hafi því mistalað sig eða ég hef þá misskilið hann eða hann er á móti þessari fjáröflun. Hins vegar varðandi það að bæta aðalvegina kringum landið, eins og hann talaði um, það verður ekki gert án fjármagns. Hv. þm. veit að til þessarar vegáætlunar, sem við ætlum nú að fara að framkvæma, verðum við að fá lán, verðum við að nota lánsfé sem er um 900 þús. og höfum heimild til þess samkvæmt samþykkt efnahagsfrv. Þar er gert ráð fyrir happdrættisfé sem nemur 300 millj. kr. Ef þetta væri ekki til staðar, þá hefðum við haft minna til skiptanna í vegamálunum en að öðrum kosti hefði verið.

Út af því, sem hv. þm. spurði um, vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp úr frv., þar sem talað er um að „ríkissjóður gefur út happdrættisskuldabréf að upphæð allt að 2000 millj. til sölu innanlands á næstu fjórum árum.“ — Það er engin ákvörðun í því að þetta þurfi að vera jafnt árlega og það mundi ekki verða það, vegna þess að í efnahagsfrv. er búið að ákveða að gefa út 300 millj. kr. happdrætti og það er m.a. af því að ekki var vitað hvort þetta mál yrði afgr. hér.

Um ráðstöfun á þessum fjármunum þarf hv. þm. ekki að spyrja, um það segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á þskj. 141:

„Fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið að 2/3 hlutum til að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur og að 1/3 hluta til að greiða kostnað við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða, um Suðurland. Kostnaður við framkvæmd þessarar fjáröflunar greiðist af söluandvirði skuldabréfanna.“

Hér er það skýrt tekið fram, hvert þetta fé fer. Það er skýrt tekið fram í vegalögunum að það er Alþ. sem afgreiðir vegáætlun og þar með skiptir því fé sem Vegasjóður hefur til umráða. Það er ekki verið að útvega fé handa samgrh. til ákvörðunar, heldur eru það þm. sem ráða skiptingu þessa fjár og ef ráðh. hefur áhrif á þá, þá kann hann að hafa áhrif á þessi mál í afgreiðslu á Alþ. Þess vegna er ekki verið að rétta honum neinar 2000 millj. til þess að skipta í vegi á landinn, það er Alþ. sem skiptir. Það, sem hér er fyrst og fremst verið að gera, er að verið er að tryggja tekjumöguleika til áframhaldandi starfa í uppbyggingu vega í landinu á næstu árum og þá fyrst og fremst höfuðveganna, vegna þess, eins og kom fram í ræðu hv. þm., að þeir hafa setið frekar á hakanum vegna þeirra áhrifa sem þm. hafa á það og áhuga þeirra á að skipta vegafénu heima á sínum kjördæmum. Þessu held ég að hv. þm. geri sér grein fyrir og það hafi komið fram í hans ræðu og hér er því verið að ræða um það.

Út af því hvort þetta kynni að vera notað á þessu ári, vil ég segja það, að vegáætlunin liggur fyrir og hvernig vegaféð verður notað á þessu ári liggur því fyrir. Hins vegar er ég ekki alveg öruggur um að sú lánsútvegun, sem þarf til vegamálanna á þessu ári, sé fullkomlega tryggð, þó held ég að hún sé það að mestu og mundi því vera hægt að hugsa sér að grípa til einhvers hluta af þessu í því skyni. En auðvitað verður ekki farið að búa til neina áætlun af samgrh., því að það er ekki hans verk. Hins vegar er hér, ef þessi bréf seljast, trygging fyrir fjáröflun til vegagerðar á næstu árum og það er ekkert sem segir að það megi ekki alveg eins selja 700 millj. í happdrætti á næsta ári eins og 500 millj. í ár. Það er ekki um það að ræða. Það er búið að afgreiða það með efnahagsfrv. og það verður ekki farið að gefa út neina nýja vegáætlun í sambandi við þetta mál. Þessu held ég að hv. þm. geti gert sér grein fyrir með því að kynna sér lögin þar um, því að samgrh. hefur ekki þann möguleika að hann geti búið til neina vegáætlun. Hins vegar er þetta trygging gegn fjárvöntun sem kynni að verða á þessu ári og fyrir því að hægt verði að marka stefnu í uppbyggingu á aðalvegum landsins á næstu árum.

Þetta vona ég að nægi hv. þm. sem svar við þeim spurningum sem hann bar hér fram. Út af öðrum atriðum ætla ég ekki fleira að segja.