28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

6. mál, varnir gegn slysahættu á fiskiskipum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur orðið mikil aukning og endurnýjun á fiskiskipaflota okkar Íslendinga, og hafa verið tekin í notkun skip af nýjum gerðum og og með ný tæki, þ. á m. sérstaklega margir skuttogarar. Nú er það svo að þegar keypt eru ný tæki, hvort sem eru flugvélar eða vélar í verksmiðjur eða annað, er venja að þeir starfsmenn, sem við þau eiga að vinna, fái rækilega þjálfun í meðferð þeirra. Hvað fiskiskipin snertir er venjan og sjálfsagt af efnahagslegum ástæðum að reyna að koma þeim sem allra fyrst til veiða. Mikill meiri hluti í áhöfnum þeirra fær því lítinn sem engan umþóttunartíma til að læra á tækin og átta sig á þeim.

Það hefur því miður komið á daginn að margvíslegar slysahættur eru á hinum nýju skipum og hafa orðið á þeim alltíð og oft alvarleg slys. Er ástæða til að gefa þessu máli sérstaklega gaum, því að vafalaust er hægt að gera ýmislegt til að draga úr þessum hættum og forða sjómönnum frá frekari slysum.

Við höfum þegar heyrt fregnir af ýmsum viðbrögðum hér á landi. Menn hafa lagt sig í framkróka til að finna upp eða fullkomna öryggisbelti og önnur tæki og er það mjög lofsvert. Þá er alkunna að hér starfa allmörg samtök og stofnanir að öryggismálum sjómanna og vinna mjög gott verk.

Hugmynd okkar með þessari till. er að fela ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr slysahættu á fiskiskipum, og er ætlunin sú að með einhverju frumkvæði, af hálfu sjútvrn. væntanlega, yrði reynt að sameina krafta þeirra aðila, sem að þessum málum vinna, og e.t.v., ef nauðsynlegt reynist, útvega fé til að gera tilraunir með öryggistæki.

Í grg. með till. höfum við leyft okkur að vísa í ályktanir sem Sjómannasamband Íslands gerði nýlega á þingi sínu um þessi mál. Ég skal ekki fara nákvæmlega út í þessa álitsgerð. Ég vil aðeins benda á hana í grg. vegna þess að þeir sjómenn, sem sátu þessa ráðstefnu, létu ekki nægja að vara almennt við hættunni, heldur telja þeir upp fjöldamargar leiðir sem þeim sýnist að hægt sé að fara til þess að sporna gegn þessari hættu. Þeir benda á tiltekin atriði, sem þeir telja að unnt sé að gera, og eru till. þeirra að því leyti til mjög raunsæjar,

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta mál að sinni, en legg til að till. verði vísað til atvmn.