15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4257 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

95. mál, vegalög

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af brtt. sem við flytjum nokkrir þm. á þskj. 765, en hún snertir 34. gr. laganna og þá fjármuni sem þar er lagt til að haldið sé eftir og ráðstafað sérstaklega að till. vegamálastjóra. Hingað til hefur þessi upphæð verið 10% af heildarfjármununum, eins og menn vita, en hér er lagt til að hún hækki í 25%, og eins og fram kom við 1. umr. mundi þetta leiða til ákaflega mikilla örðugleika fyrir kaupstaði sem hafa byggt framkvæmdir sínar á þessu ári á þeim lögum sem í gildi hafa verið og mundu lenda í stórfelldum vandræðum ef þessi hlutföll röskuðust nú á þessu ári því að þetta á að taka gildi frá síðustu áramótum.

Í gær var felld till. um að hin gamla skipan héldist. En við flytjum, þessir þm., til málamiðlunar þá till. að þarna verði um 15% að ræða, en ekki 25%. Ég vona að þm. sýni þá sanngirni að fallast á þessa skipan. Ég skil ákaflega vel vanda dreifbýlisþm. og nauðsyn þeirra til að fá bætt úr sínum vandamálum á þessu sviði. En það er ekki hægt að gera það á þennan hátt, það er ekki nokkur kostur.

Í sambandi við þetta vil ég vara ákaflega mikið við því enn einu sinni að við förum að togast á út frá landshlutasjónarmiðum í sambandi við þetta mál. Það verður að vera sameiginlegt átak okkar allra að bæta úr vegamálum eins og við erum menn til á Íslandi.