15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4260 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Nú er svo skammur tími eftir af störfum þingsins að hann verður helst reiknaður í klukkustundum. Öll þingstörf mótast af ringulreið. Hæstv ráðh. beita valdi til þess að koma málum í gegnum þingið án nokkurrar raunverulegrar könnunar og ekki er fært að gera breytingar á augljósustu villum og afglöpum. Þm. stjórnarliðsins eru svo hollir ráðh. sínum að þeir hlýðnast þessum fráleitu fyrirmælum þótt þeir fari sannarlega ekki dult með óánægju sína og reiði í einkaviðræðum.

Ég skal ekki auka á erfiðleika starfsfélaga minna, hv. þm., með því að halda langa ræðu í tilefni af þessu frv. þótt til þess væri vissulega ærin ástæða. En ég vil nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga sem Alþ. og landsmenn eiga heimtingu á að fá skýr svör við áður en alþm. eru reknir heim.

Fyrstu tvær greinar frv. fjalla um upphafið á árás ríkisstj. á verkalýðssamtökin, skömmtun svokallaðra jafnlaunabóta, sem námu örlitlu broti af þeirri óðaverðbólgu sem ruðst hefur eins og snjóflóð yfir heimili almennings. Þessi styrjöld hæstv. ríkisstj. við launafólk hefur að undanförnu leitt til sívaxandi öngþveitis og ástandið á vinnumarkaðnum er nú ískyggilegra en það hefur nokkru sinni verið síðan á verstu árum viðreisnarinnar. Í þessari styrjöld hefur hæstv. ríkisstj. haft forustu sem hefur verið að skýrast mjög einmitt seinustu dagana. Mjög margir starfshópar í þjóðfélaginu hafa að undanförnu gert uppreisn gegn kjaraskerðingu ríkisstj. og krafist hækkunar á kaupi. Ýmsir slíkir hópar hafa þegar náð árangri. Samið hefur verið um ríflega 30% kauphækkun við flugfreyjur og eru þær vissulega vel að þeirri hækkun komnar. Gert hefur verið bráðabirgðasamkomulag við flugstjóra án þess að greint hafi verið frá því opinberlega, hvað í því samkomulagi felst. Gert hefur verið einnig bráðabirgðasamkomulag við flugumferðarstjóra, en yfir því hvílir sama leyndin. Gerðir hafa verið bráðabirgðasamningar við tæknimenn og verkfræðinga hjá ráðgjafarfyrirtækjum og væri vissulega fróðlegt að fá vitneskju um hvaða láglaunabætur verkfræðingar hafa fengið. Það hafa meira að segja verið gerðir samningar milli organleikara og sóknarnefnda fyrir tilstilli hins háæruverðuga sáttasemjara ríkisins. Einkaaðilar hafa þannig samið að undanförnu.

En við hverja er ekki samið? Það hefur ekki verið samið við sjómenn á stóru togurunum, stöðvun þeirra hófst 9. apríl s. l. og hefur því staðið nokkuð á annan mánuð. Afleiðingin er sú að 500–600 sjómenn stunda ekki framleiðslustörf. Beinar afleiðingar bitna á um 1500 manns í landi og óbeint á miklu fleira fólki. Hundruð og aftur hundruð manna hafa bætst á atvinnuleysingjaskrá síðustu vikurnar. Áætlað er að það aflaverðmæti, sem tapast hefur, nemi allt að 300 millj. kr. og útflutningsverðmætið hátt í 700 millj. kr., á sama tíma og gjaldeyrisviðskipti þjóðarbúsins eru framkvæmd með betlilánum. Kaupskipaflotinn er byrjaður að stöðvast vegna samúðarverkfalls vélstjóra á kaupskipunum.

Engar alvarlegar tilraunir hafa verið gerðar til þess að leysa þetta mál, aðeins settar fram fráleitar hugmyndir um að afnema vökulögin í verki og skerða stórlega öryggi áhafnanna. Meginhluti þessara stöðvuðu togara er í félagslegri eign, í eigu sveitarfélaganna, þar sem stjórnarflokkarnir hafa meiri hl. eða Sjálfstfl. einn eins og hér í höfuðborginni. Þeir togarar, sem taldir eru í eign einkaaðila, eru allir fjármagnaðir af almannafé og því í raun eign þjóðarheildarinnar. Það er þannig ríkisstj. og ríkisstj. ein sem ber ábyrgð á því að ekki er samið við togarasjómenn. Einkaaðilar geta samið, eins og ég rakti hér áðan. Hæstv. ríkisstj. neitar að semja.

Við hverja fleiri má ekki semja en togarasjómenn? Það er hafið verkfall hjá þremur mjög mikilvægum verksmiðjum í eigu ríkisins: Sementsverksmiðjunni, Áburðarverksmiðjunni og Kísiliðjunni. Þessi verkföll eiga sér mjög langan aðdraganda. En samninganefnd hæstv. ríkisstj. hefur haldið að sér höndum allt fram undir síðustu daga. Í þessum samningum átti að ganga frá mjög mikilvægum skipulagsatriðum sem um hafði verið fjallað í fyrra, en þau eru fólgin í sameiginlegri aðild 17 verkalýðsfélaga, sem eiga samningsrétt í verkalýðsfélögunum, að frambúðarsamningum, þ. e. a. s. sameiginlegum samningum allra þessara aðila. Það er ríkið sem hefur stöðvað þessa samninga og afleiðingarnar geta á skömmum tíma orðið mjög geigvænlegar. Stöðvun sementsverksmiðjunnar getur t. d. leitt til algers samdráttar í byggingariðnaði og svipt þúsundir manna atvinnu. — Eins og ég sagði áðan, einkaaðilar geta samið, hæstv. ríkisstj. neitar að semja.

Og við hverja fleiri má ekki semja? Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur eðlilega krafist þess að opinberir starfsmenn fengju hliðstæðar bráðabirgðakauphækkanir og samið var um milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda 26. mars. Þessari sjálfsögðu kröfu hefur verið hafnað til þessa. Enn blasir við sama myndin, einkaaðilar mega semja, hæstv. ríkisstj. neitar að semja.

Hvað er hér að gerast? Ég hef áður borið þær þungu sakir á hæstv. ríkisstj. að hún hafi stöðvað togaraflotann vitandi vits til þess að koma á atvinnuskorti áður en samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á að vera lokið eftir tæpan hálfan mánuð. Með stöðvun ríkisverksmiðjanna hefur sú ákæra hlotið stóraukinn þunga. Haldist það ástand sem nú er, geta atvinnuleysingjar skipt þúsundum um næstu mánaðamót þegar skólafólk hefur einnig bæst á vinnumarkaðinn. Ég ber enn þessar þungu sakir á hæstv. ríkisstj. og óska þess að hæstv. forsrh. svari, ekki með neinum almennum orðum og tilvitnunum í einskisverðan stjórnarsáttmála, heldur með því að hæstv. ríkisstj. geri rökstudda grein fyrir því áður en þingið hættir störfum hvernig hún ætlar að leysa þessar deilur, sem hún er beinn aðili að, og gera sjálfsagða og eðlilega samninga við sjómenn og verkafólk.

Allt er þetta, sem ég hef hér verið að rekja, aðdragandi enn þá stærri vandamála. Eins og ég sagði áðan á fyrir næstu mánaðamót að vera búið að semja við öll verkalýðsfélög landsins, en þau hafa borið fram kröfur sem nema 35% kauphækkun og fela þó eingöngu í sér að samningar þeir, sem síðast voru gerðir, haldi gildi sínu. Að þessu máli hefur verið unnið afar slælega af hálfu ríkisstj. þótt það sé nú komið í algeran eindaga.

Sú spurning er nú æ ofar í huga fólks hvort hæstv. ríkisstj. hyggist beita valdi, brbl., nauðungarlöggjöf, til þess að reyna að halda við kjaraskerðingarstefnu sína og tvær fyrstu greinar þess frv., sem hér er til umr., gefa ærna ástæðu til þess að þær spurningar vakni. Því vil ég spyrja alveg beint og óska skýrra svara: Hefur hæstv. ríkisstj. einhver slík áform í huga? Er ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. leggur þvílíkt kapp á að reka Alþ. heim að öll vinnubrögð verði að óskapnaði, sú og sú ein að hæstv. ríkisstj. vilji hafa frið til þess að setja brbl., þvingunarlög um kjör og réttindi launafólks? Ég vil vara hæstv. ríkisstj. mjög alvarlega við öllum slíkum áformum. Af því er löng reynsla, hvað af slíkum málatilbúnaði hlýst. Og ég vil bera fram þá sérstöku kröfu að hæstv. ríkisstj. heiti því nú í þinglok að setja engin brbl. um kjör og réttindi verkafólks. Komi ríkisstj. þeim málum í slíkt öngþveiti að hún telji nauðsyn á lagasetningu, ber ég fram þá kröfu að kallað verði saman aukaþing til þess að fjalla um ástandið. Ég óska skýrra svara hæstv. forsrh. við þessari ósk minni.

Ég skal svo fara fáum orðum um frv. sjálft og þær brtt. sem ég flyt við það ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni.

Við leggjum til að fyrstu tvær greinar frv. falli niður. Þær eru, eins og ég rakti við 1. umr., bein ögrun við verkalýðshreyfinguna. Þar er lagt til að lögfestur verð'i hluti af því bráðabirgðasamkomulagi sem verkalýðshreyfingin gerði við atvinnurekendur 26. mars s. l. Í 1. gr. er raunar komið nýtt og alvarlegt atriði, því að þar er ákveðið að ekki megi greiða almenna verðlagsuppbót á laun framar þar til heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hafa samið um annað. Þetta er miklu víðtækara en fólst í brbl. Þarna er verið að framlengja þessi ákvæði út í einhverja óvissa framtíð og í þessu sambandi er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því sem áður hefur verið gert í þessum umr., að hvert einstakt verkalýðsfélag fer með samningsrétt á Íslandi, en ekki heildarsamtök verkalýðsfélaganna í gegnum Alþýðusamband Ísland. — Við leggjum sem sé til að þessar tvær fyrstu greinar falli niður.

3. og 4. gr. fjalla um fyrirkomulag á greiðslum svokallaðra launajöfnunarbóta til bænda. Þar er um slíka skriffinnsku og slíkt myrkviði að ræða að ég hef aldrei séð neitt þvílíkt. Ég er sannfærður um að það getur enginn maður áttað sig á því hvernig á að framkvæma þessar reglur í verki. Og hugsið ykkur skriffinnskuna sem kemur upp þegar allir bændur landsins eru búnir að senda Framleiðsluráði landbúnaðarins skattaframtöl sín. Hvað þarf marga menn til þess að skoða þetta? Þetta er þvílík endileysa að það er Alþ. til vansæmdar að afgreiða mál á þennan hátt og að sjálfsögðu komast engar eðlilegar bætur til skila til bænda með þessu móti.

5., 6., 7. og 8. gr. frv. fjalla um bætur almannatrygginga. Hv. frsm. meiri hl. gerði aths. við það í ræðu sinni áðan að ég hefði sagt við 1. umr. að núv. ríkisstj. hefði níðst freklegar á öldruðu fólki og öryrkjum en nokkrum landsmönnum öðrum. Ég skal endurtaka þessi ummæli og ég stend enn við þau vegna þess að þau eru sönn. Þessu fólki hefur verið neitað um að fá sams konar bætur og skammtaðar voru með brbl. í fyrra. Þetta fólk var tekið út úr. Það fékk helminginn af þeirri upphæð. Nákvæmlega sama á að gera í sambandi við þá kauphækkun sem um var samið 28. mars. Aldrað fólk og öryrkjar undir vissu tekjumarki eiga ekki að fá þessa upphæð, heldur upphæð sem er helmingi lægri. Það stoðar lítt að tala um að tekjutryggingin út af fyrir sig hækki þarna um myndarlega upphæð vegna þess að hún er aðeins hluti af þeim afar lágu tekjum sem þetta fólk hefur. Prósentan þarf að taka til upphæðarinnar allrar og þar er um að ræða hækkun sem nemur 22.5%. Ég skal engan veginn vanmeta þetta. Ég lít á það sem árangur af þeirri baráttu sem háð hefur verið hér á þinginu í allan vetur fyrir því að rétta dálítið hlut þessa fólks, og mér þykir vænt um að nokkur árangur hefur náðst í því efni. En því fer mjög fjarri að það sé fullur árangur. Þess vegna legg ég til ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni að 6. gr. verði breytt þannig að aldrað fólk og öryrkjar undir vissu tekjumarki fái jafnlaunabæturnar, sem voru í brbl. á síðasta hausti, og þá kauphækkun, sem um var samið 26. mars s. l., í krónum. Í þessari till. eru einnig ákvæði um að aðrar bætur lífeyristrygginga svo og sjúkradagpeningar hækki í sama hlutfalli á þessu tímabili. Inni í þeirri till. er að sjálfsögðu barnalífeyrir sá sem athygli okkar alþm. hefur verið vakin á að undanförnu, en sú upphæð, sem greidd er til einstæðra foreldra vegna barna, er algert hneyksli.

Við gerum þá brtt. við 7. gr. frv. að tekjutryggingin út af fyrir sig hækki að fullu í samræmi við vísitölu á þessu tímabili, þ. e. a. s. um 46%. Við teljum það einsætt að þessi upphæð, sem á að renna til þeirra sem búa við allra bágust kjör í þjóðfélaginu, hún eigi a. m. k. að halda kaupmætti sínum hvað sem öllu öðru líður, og það er ósæmandi að þykjast vera að leysa einhver efnahagsvandamál með því að níðast á þessu fólki.

Við leggjum enn fremur til að frá 1. júlí breytist fjárhæðir þær sem greindar eru í 19. gr., þ. e. a. s. tekjutrygging og aðrar fjárhæðir sem þar eru greindar, í samræmi við vísitölu vöru og þjónustu.

Að sjálfsögðu fela þessar till, okkar í sér verulega hækkun á heildargreiðslum frá almannatryggingum, og við gerum okkur grein fyrir því að það verður að finna leiðir til þess að standa undir þeim fjármunum. Því leggjum við til að inn í frv. bætist ný gr., svo hljóðandi:

„Við álagningu tekju- og eignarskatts árið 1975 skulu fyrningar reiknaðar samkv. ákvæðum 15. gr. gildandi skattalaga með því fráviki, að engar verðbreytingar eigna skulu leyfðar samkv. verðhækkunarstuðli.“

Eins og hv. þm. vita er þessi verðhækkunarstuðull hagnýttur þannig að það er svo til ekkert fyrirtæki á Íslandi sem borgar tekjuskatt, jafnvel þótt af því sé mjög álitlegur gróði. Þetta eru ákvæði sem gera fyrirtækjum kleift að stinga undan ákaflega miklum fjárhæðum sem gætu og ættu að renna í ríkissjóð. Við leggjum til að þetta lagaákvæði um verðhækkunarstuðul komi ekki til framkvæmda á þessu ári. Þannig mundi fást upphæð sem mundi fyllilega standa undir þeirri hækkun á bótum almannatrygginga sem við gerum till. um.

Enn fremur leggjum við til að mjög annarleg grein sem kom inn í frv. á síðasta stigi, 11. gr., og fjallar um kjör fjárfestingarlánasjóða, verði felld niður. Þar er um að ræða mjög verulegar breytingar á lánakjörum þessara sjóða, aukna gengistryggingu og verðtryggingu þeirra, og þar er um að ræða mál sem er svo nátengt heildarstefnunni í efnahagsmálum og atvinnumálum að ég held að það væri hættulegt að taka slíkar ákvarðanir að lítt athuguðu máli núna. Þessar aðferðir hafa verið reyndar í ýmsum grannlöndum okkar, m. a. í Finnlandi, og þar hafa þær leitt til ákaflega alvarlegs samdráttar og atvinnuleysis. Það er reynsla sem við eigum að skoða og læra af og því tel ég ekki tímabært að sett verði lagaákvæði af þessu tagi nú.

Ég læt svo lokið máli mínu, en ég ítreka það, að ég óska þess mjög eindregið við hæstv. forsrh. að hann svari þeim spurningum, sem ég beindi til hans í upphafi, og geri aths. við þær alvarlegu ásakanir sem ég bar fram á hæstv. ríkisstj.