15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4265 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

11. mál, launajöfnunarbætur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja tímann mikið, en það eru aðeins tvö atriði sem ég mun fyrst og fremst víkja að.

Það kom fram í ræðu hv. frsm., Ólafs G. Einarssonar, að þrátt fyrir það að 5. gr. væri felld úr frv. í Ed., þá væri ætlast til þess að það breytti því ekki að bændur ættu að fá sínar láglaunabætur. Við vorum dálítið órólegir yfir þessu vegna þess að það var búið að vísa þessu máli til yfirnefndar og einn af þeim, sem þar fjalla um þetta mál, var búinn að tjá sig á þá leið að þar sem það væri búið að fella þetta niður úr frv., þá væri ekki hægt að líta öðruvísi á það heldur en svo að Alþ. ætlaðist ekki til þess að bændur fengju þessar bætur. Nú tel ég að formaður nefndarinnar, sem hér talaði fyrir brtt. áðan, hafi lýst yfir á ótvíræðan hátt að Alþ. ætlaðist til þess, þrátt fyrir niðurfellingu 5. gr., að bændur njóti þessara bóta.

Ég verð líka að játa það að þegar ég sá 11. gr. í frv. koma hér inn, á síðustu stundu raunar, kom það ónotalega við mig, ekki síst eins og hún var orðuð í upphafi. Nú hefur verið lögð fram brtt. við þessa grein, en eftir sem áður stendur að fjárfestingarlánasjóðir endurláni það fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, með sambærilegum kjörum og þeir sæta sjálfir. Hæstv. ríkisstj. hefur sem sagt í hendi sinni samkv. þessari grein að breyta þessum kjörum. Það er mjög mismunandi hvernig sjóðirnir eru settir að þessu leyti, t. d. eins og sjóðir landbúnaðarins sem hafa sjálfir lítið eða ekkert ráðstöfunarfé og þurfa þess vegna að fá það með einhverju móti að láni, og eins og þetta fé hefur verið samsett á undanförnum árum, þá hefur mikill hluti af því verið verðtryggður, vísitölutryggður. Og það er komið þannig, að t. d. ef maður ber saman hvernig hlutur þessara sjóða er, þá er Stofnlánadeild landbúnaðarins með 22.2% af því fé, sem hún hefur að láni, með vísitöluklásúlu, en Fiskveiðasjóður t. d. aftur á móti ekki nema með 4.3% og Iðnlánasjóður með 6.4%. Þetta er að vísu öðruvísi með gengistryggt fé, þar hefur landbúnaðurinn ekki nema 8–9%, en t d. Fiskveiðasjóður 40.3% og Iðnlánasjóður um 12%. En ef maður fer að skoða hvernig þessi þróun hefur verið þrátt fyrir allar gengisfellingar á undanförnum 14–15 árum, þá sýnir það sig að þrátt fyrir allt hefur verið helmingi skárra að hafa gengistryggt fé heldur en vísitölutryggt.

Það hefur verið þannig með bændurna að lengi vel voru þeir með frekar lága vexti, en á undanförnum 15 árum hafa þessi vaxtakjör þrefaldast. Og nú er það þannig að þeir borga 12% í vexti og fyrir utan það borga þeir stofnlánasjóðsgjaldið sem er í raun og veru 4.1 % ef miðað er við þær skuldir sem bændur skulda Stofnlánadeildinni utan við íbúðarhúsalánin, þannig að í sjálfu sér borga þeir 16.1 % í vexti af þeim lánum sem þeir hafa hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þegar svona mikil stökk verða og ekki síst ef hluti af lánum, sem bændurnir fá, yrði nú t. d. hvort tveggja með hærri vöxtum og ekki síst ef hluti af þeim, kannske stór hluti yrði með gengisklásúlu eða verðtryggt, þá kemur það þannig út að það verður mikil mismunun hjá bændastéttinni vegna þeirra aðferða sem eru hafðar í verðlagningu þeirra framleiðsluvara, og það er mjög erfitt að jafna þarna með nokkru móti á milli. Sem sagt, ef ætti að hækka vextina frá því sem er og hefði átt að fara eftir greininni eins og hún var, þá gat ég ekki skilið annað en að við hefðum orðið að taka og lána út það fjármagn, sem við fengjum, með sömu kjörum að viðbættum kostnaði, þannig að það var sýnilegt, eins og samsetningin á þessu hefði verið, að Stofnlánadeildin hefði orðið að lána með langverstu kjörum allra sjóða.

Ég fagna þessari breytingu sem kom fram við 11. gr., þótt ég hefði vænst þess að hún hefði verið öðruvísi og hefði gengið raunar lengra. Af þessum ástæðum langar mig til þess að koma fram með eftirfarandi spurningar og beina þeim til hæstv. forsrh. og ef landbrh. hefði verið hér inni, þá hefði ég viljað beina spurningum til hans líka, en spurningarnar eru á þessa leið: Á hvern hátt ætlar hæstv. ríkisstj. að nota þær heimildir sem 11. gr. í þessu frv. felur í sér, verði hún nú lögfest? Er t. d. fyrirhugað að stytta lánstíma lána einhverra lánaflokka fjárfestingarlánasjóðanna frá því sem nú er eða breyta vaxtakjörum? Og í þriðja lagi: Er stefnt að því að koma á verðtryggingu á fjárfestingarlánum til bænda? — Ég tel að þetta væri mjög alvarlegt spor ef þyrfti að stíga það að nokkru marki, einmitt vegna þess hve mikið misrétti slíkt mundi skapa meðal bændastéttarinnar. Það verður auðvitað að finna einhverjar leiðir til þess þá að jafna þennan mun með öðrum hætti og þær leiðir eru til. Hv. alþm. mega ekki gleyma því að hvert vaxtaprósent til hækkunar í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins hækkar grundvöllinn um 0.58% og með óbreyttum niðurgreiðslum mundi það hækka verðlagið í útsölu um rúmlega 1%, þannig að allar slíkar breytingar eru mjög verðbólguhvetjandi. Það eru þessar ástæður sem liggja að baki því að ég leyfi mér að vænta þess að hæstv. forsrh. geti svarað þessum spurningum, ekki síst vegna þess að nú síðustu daga rignir yfir okkur spurningum utan af landsbyggðinni um það, hvort sé rétt að það eigi að stytta lánstímann, hvort sé rétt að það eigi að hækka vextina svo og svo mikið o. s. frv. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti gefið mér einhver svör.