15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

11. mál, launajöfnunarbætur

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hóf mál sitt með því að telja öll þingstörf mótast af ringulreið. Ég hygg að hér sé ekki um annað að ræða að þessu sinni en verið hefur þegar dregur nær þingslitum, þá er oft á tíðum hröð afgreiðsla á málum. Ég get vel tekið undir það að það væri æskilegt að betur væri unnið að sumum málum fyrr á þingtímanum, en þrátt fyrir allan góðan ásetning allra ríkisstjórna, hverjar sem þær eru, þá hefur reynslan orðið sú að það hefur verið óhjákvæmilegt að hafa þessa hröðu málsmeðferð á síðustu dögum þingsins. Ég held að þarna sé ekki eingöngu við ríkisstjórnir að sakast á hverjum tíma, heldur og þm. almennt og þn., að menn haga afgreiðslu mála og fara e. t. v. ekki fyrir alvöru að beita sér fyrir afgreiðslu úr nefndum fyrr en dregur að þingslitum. Í þessu efni er auðvitað sjálfsagt að reyna að bæta þingstörfin og ég heiti samvinnu af hálfu ríkisstj. að því leyti við þingforseta, þn., þingflokka og einstaka þm.

Ég vil svo aðeins víkja að þeim kafla ræðu þm. þar sem hann taldi ríkisstj. vera í styrjöld við launafólk og þar sem hann lét svo ummælt að margir hópar launafólks hefðu gert uppreisn.

Ríkisstj. er ekki í styrjöld við launafólk. Ríkisstj. hefur aðeins gert óhjákvæmilegar ráðstafanir í efnahagsmálum. Þær ráðstafanir hafa í sjálfu sér ekki í för með sér kjaraskerðingu fyrir allan almenning í landinu. Það er annað sem veldur því að draga verður úr eyðslu þjóðarinnar í heild og einstakra stétta og hvers einstaklings um sig. Það eru versnandi viðskiptakjör út á við og áföll sem við höfum orðið fyrir í efnahagsmálum í kjölfar þess að hafa spennt bogann of hátt þegar vel gekk í utanríkisviðskiptum og aflabrögðum. Það væri furðuleg ríkisstj. sem gerði það af ásettu ráði að markmiði sínu að vera í styrjöld við launafólk. Ég held að engin ríkisstj. vilji standa í slíkri styrjöld og muni því í raun og veru gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir slíka styrjöld. En hitt er rétt sem hv. þm. minntist á, að ýmsir hópar launafólks hafa hafið baráttu fyrir hækkuðu kaupi umfram þá samninga sem heildarsamtök launþega hafa gert um kaup og kjör. Þetta bráðabirgðasamkomulag ásamt launajöfnunarbótum þeim, sem staðfestar eru með þessu frv. sem hér er á dagskrá, eru til þess fallin að jafna þeim byrðum, sem þjóðin í heild verður á sig að taka, réttlátlega niður meðal þjóðfélagsþegnanna. Það ber að harma þegar einstaka launahópar hafa ekki skilning á því að hinir lægst launuðu verða að njóta forgangs í bættum launakjörum og aðrir að bíða um sinn.

Mér dettur ekki í hug annað en viðurkenna það og undirstrika að miðað við þá krónutölu kaups og það verðlag sem gilti eftir kjarasamningana í febr. á síðasta ári er um kaupmáttarskerðingu að ræða, alvarlega kaupmáttarskerðingu. En kaupmáttur, eins og hann mældist eftir kjarasamningana í febr. á síðasta ári, var ekki raunhæfur. Við vitum það allir alþm. Það var falskur kaupmáttur sem þar var um að ræða og hann getur því ekki verið viðmiðun þegar við tölum um kjör eða kjaraskerðingu nú.

Það bar töluvert á því hjá hv. þm. að hann gerði sér far um að etja einum launþegahópnum upp á móti öðrum. Það var eins og hann í sjálfu sér hlakkaði yfir því að geta með þessum hætti skapað óeirð meðal launafólks í þeirri erfiðu stöðu sem launafólkið sjálft er í og í þeirri stöðu sem ríkisstj. landsins er í, til þess að koma höggi á ríkisstj., en þar fyrir hittir hann þjóðarheildina, vegur að þjóðarhagsmunum.

Hv. þm. spurðist fyrir um það hvernig ríkisstj. ætlaði að leysa þær vinnudeilur sem nú væru, og nefndi þar sérstaklega verkfallið á stóru togurunum og verkfallið í þrem verksmiðjum ríkisins, Sementsverksmiðju, Áburðarverksmiðju og Kísilgúrverksmiðju, og loks kjaradeiluna við BSRB.

Ef við víkjum að togaraverkfallinu, verkfallinu á stóru skuttogurunum, þá hefur ríkisstj. gefið rekstraraðilum þeirra greinilega til kynna, hvað hún treysti sér að ganga langt til þess að styrkja greiðslustöðu og rekstrargrundvöll stóru skuttogaranna: Í fyrsta lagi með því að létta greiðslubyrði þeirra af stofnlánum og lengja lánstímann. Í öðru lagi að taka á ríkissjóð þann reikning sem rekstraraðilar stóru togaranna telja sig hafa á ríkissjóð vegna lagasetningar fyrrv. stjórnar í kjölfar togaraverkfallsins 1973, þar sem kröfur yfirmanna voru viðurkenndar með lögum. Í þriðja lagi með því sérstaklega að aðstoða rekstraraðila togara, koma vanskilaskuldum þeirra við Lífeyrissjóð togarasjómanna á hreint með samningi um greiðslu þeirra vanskilaskulda á ákveðnum tíma. Í fjórða lagi með því að greiða úr sem allra fyrst og best þeirri breytingu á skammtímalánum og lausaskuldum togaraútgerðarinnar með sama hætti og nú er verið að gera almennt gagnvart fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þess vegna hefur ekki staðið á ríkisstj. í þessari deilu. Fulltrúar ríkisstj. hafa haldið fjölda funda með deiluaðilum og reynt að leiða þá til sátta og samninga. Ég tel að það sé fullkomlega grundvöllur fyrir samningum, sérstaklega við undirmenn á togurum, en því miður er bilið langtum lengra milli yfirmanna og rekstraraðila togaranna. Án þess að leggja nokkurn dóm á réttmæti málstaðar hvers aðila um sig, þá segi ég það sem persónulega skoðun að samúð mín er með undirmönnum, að þeir fái sambærileg kjör og sjómenn almennt, og ég tel að rekstrarvandamál stóru skuttogaranna verði ekki leyst nema þeir, sem vinna á þeim og bera ábyrgð á rekstri þeirra, reyni að leita meira samræmis milli kostnaðar við mannahald á stóru skuttogurunum annars vegar og minni skuttogurunum hins vegar, takandi auðvitað tillit til þess hvaða munur er á afkastagetu þessara skipategunda og hvaða munur er á vinnuálagi á þessum skipategundum. Ef við viljum gera stór fiskiskip út frá Íslandi, þá er okkur óhjákvæmileg nauðsyn að horfast í augu við þetta vandamál og ríkisstj. getur ekki verið þekkt fyrir það — og ég held að hv. alþm. ætlist ekki til þess, að ríkisstj. segi: Semjið þið og síðan skulum við borga reikninginn. — Það væri ekki heilbrigð vinnuaðferð í sambandi við kaup- og kjarasamninga. Það verður að vera samræmi þarna með öðrum kaup- og kjarasamningum í landinu. Og við megum ekki stuðla að því að þeir, sem hærri tekjur hafa, geti í krafti ákveðinnar aðstöðu sinnar náð meiri kjarabótum en hinir lægra launuðu.

Varðandi þær þrjár verksmiðjur í eigu ríkisins sem nú standa í vinnudeilum, þá er það að segja að aðilar hafa ræðst við og gert hvor öðrum tilboð. Það ber enn töluvert á milli. Ég skal ekki spá neinu um það, hvort endar náist saman alveg á næstunni eða ekki, en þar gegnir sama máli, að þegar ríkisstj. telur nauðsyn, sem ég held að verði ekki á móti mælt, að draga úr þjóðareyðslunni, þá getur hún ekki stuðlað að kaup- og kjarasamningum á þessum vettvangi sem brjóta í bága við þá heildarstefnu að hinir lægst launuðu skuli sérstaklega og einkum verndaðir.

Í þriðja lagi var svo spurt um afstöðu til samninga BSRB og taldi hv. þm.ríkisstj. hefði ekki viljað samþykkja samskonar samninga við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fælust í bráðabirgðasamkomulaginu milli aðila vinnumarkaðarins. Ég vil mótmæla þessu. Ríkisstj. hefur gert Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja tilboð um sams konar samninga og fólust í bráðabirgðasamkomulaginu. Ef þessi deila leysist ekki og fer fyrir Kjaradóm, þá er það vegna þess að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sættir sig ekki við sams konar bráðabirgðasamkomulag og gert var milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands.

Þegar ég svara almennt, hvernig ríkisstj. ætli að leysa þessar deilur, þá vil ég taka það fram að það gætir nokkurrar mótsagnar hjá þeim mönnum sem krefjast þess af ríkisstj. að leysa vinnudeilur um leið og þeir segja að það komi ekki til greina löggjöf um kaup og kjör manna til lausnar slíkum deilum. Ríkisstj. mun auðvitað beita sér fyrir því og greiða fyrir því eins og unnt er að aðilar nái saman, og þar sem ríkisstj. er annar aðilinn sem vinnuveitandi, þá mun hún leggja sig fram um það í samræmi við þá heildarstefnu sem hún hefur í kaup- og kjaramálum, miðað við getu þjóðarheildarinnar eins og nú horfir við.

Þá spurði hv. þm.: Hefur hæstv. ríkisstj. áform uppí um að setja brbl. um réttindi og kjör launafólks? — og krafðist þess að ég lýsti því hér yfir að slíkt kæmi alls ekki til greina. Í tilefni þessarar fsp. vil ég taka það fram að það fyrsta, sem ég hef í raun og veru heyrt alvarlega talað um þann möguleika að setja lög, t. d. um kaup og kjör á togurunum, er uppsláttur í blaði hv. þm., Þjóðviljanum, í dag, þannig að ef einhver á fyrstu hugmynd um slíka lausn þá er það dagblaðið Þjóðviljinn hér í Reykjavík. Ég vil lýsa því hér yfir, að ég tel lagasetningu til lausnar kjaradeilunni á stóru togurunum hreint neyðarúrræði. Ég vil enn fremur segja það hreinskilnislega og ég veit að hv. þm. skilur það, vegna þess að ef hann væri í ríkisstj., þá mundi hann svara alveg nákvæmlega eins: Þessi ríkisstj. mun ekki fremur en aðrar lýsa yfir einu eða neinu sem takmarkar stjórnskipulegan rétt hennar til útgáfu brbl. og mun meta það hverju sinni og á þeirri stundu, sem vandamálin blasa við, hvort brbl. verða gefin út og hvers efnis þau eru. Ég veit að hv. þm. mundi ekki gefa greinarbetri svör, væri hann í ríkisstj., og jafnvel ekki svo skýr svör sem ég hef gefið nú.

Ég hygg að það sé ekki ástæða til þess að fjalla um einstakar greinar þessa frv., sem hér er til umr., umfram það sem gert var við 1. umr. málsins. Ég vil aðeins mótmæla því að 1. og 2. gr. þessa frv. séu ögrun við verkalýðssamtökin. Ég hygg þvert á móti að það sé viðurkenning í þessum greinum á valdi og réttindum heildarsamtaka launþega, og þessar greinar út af fyrir sig skerða ekki samningsrétt einstakra verkalýðsfélaga umfram það að í þessum greinum felst að vísu ábending um að nauðsynlegt sé í sambandi við samninga um tengsl kaupgjalds og verðlags að samræmdar séu reglur á öllu landinu og því sé eðlilegt að heildarsamtökin hafi fyrst og fremst samningsforræði á því sviði. Það er ekkert í þessum greinum sem að öðru leyti takmarkar samningsstöðu einstakra verkalýðsfélaga, t. d. til grunnkaupshækkana. Ég vil leggja á það áherslu og ég vona að við getum verið sammála um, að það væri ákaflega óheppilegt ef hér giltu margvíslegar reglur um verðlagsuppbót á laun, og því sé ástæða til að heildarsamtökin reyni að ná samningum á þessu sviði einkum og sér í lagi. Ég geri mér vonir um að það geti tekist ef báðir aðilar og allir aðilar leggja sig vel fram.

Ástæðan fyrir tilvist þessara greina er ekki síst sú, að þótt bráðabirgðasamkomulag hafi tekist með Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu, þá eru ýmis önnur samtök launþega sem ekki eiga aðild innan þeirra félaga. Og við getum vel talað hreinskilnislega saman um það, sem ég hygg að forsvarsmenn launþegasamtakanna hafi mjög miklar áhyggjur af, og það er hvernig haga skuli skipulagsmálum innan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar, hvort verkalýðshreyfingin sé ekki veikt með því að einstök verkalýðsfélög hafi ótakmarkað samningsforræði. Þessi lög takmarka það ekki. En það getur vel verið að launþegasamtökin sjálf komi sér saman um einhverjar reglur sem skapi ramma um samningsrétt og samningssvið heildarsamtakanna annars vegar og einstakra verkalýðsfélaga hins vegar.

Í tengslum við þetta vildi ég aðeins leggja áherslu á að vinnudeilur, kaup- og kjaradeilur nú á dögum einkennast e. t. v. mun meira af innbyrðis samanburði og deilum milli einstakra launþegahópa heldur en nokkurn tíma deilum milli atvinnurekenda og launþega. Hitt er svo annað mál, að þessi innbyrðis reipdráttur milli einstakra launþegahópa hefur oft spennt bogann svo hátt að atvinnuvegirnir hafa ekki getað staðið undir þeim aukna tilkostnaði innanlands, sem af þessu hefur leitt, og hefur af því orðið sá vítahringur sem við því miður erum ekki enn komin út úr og er ekki síður hagsmunamál launþega og launafólks í landinu að komast út úr heldur en annarra bjóðfélagsborgara. Það eru hagsmunir þjóðarheildarinnar sem bjóða okkur að reyna að komast út úr þessum vitahring. Þess vegna finnst mér mjög miður þegar ábyrgir hv. alþm. reyna að nýta deilur um kaup og kjör til þess að egna hópa launþega upp hvern á móti öðrum og koma með þeim hætti höggi á ríkisstj. í pólitískum tilgangi, með þeim afleiðingum að þjóðarhag er stefnt í voða.

Ég vil svo aðeins segja það, að það má vel vera að reglur þær, sem í frv. eru varðandi launajöfnunarbætur til bænda, séu allflóknar. En skýringin er að hér er verið að framfylgja því ákvæði laga að launajöfnunarbætur bænda komi bændum til góða með samsvarandi hætti og bæturnar koma hinum lægstlaunuðu launþegum til góða.

Um bætur almannatrygginga vil ég aðeins segja það, að hér er ekki aðeins fylgt fyrri venju í þessum efnum, heldur er tekjutryggingarmark einstaklinga. þegar skattafsláttur er með tekinn, hækkað í krónutölu um 4 900 kr. eða þar um bil og tekjutryggingarmark hjóna er hlutfallslega mun hærra en launþegar fengu með 4 900 kr. grunnkaupshækkun. Hitt er svo annað mál, að auðvitað væri æskilegt í þessum efnum að gera betur við lífeyrisþega. En bætur almannatrygginga og skattakerfið er í heildarendurskoðun og vænti ég þess að það geti leitt til kjarabóta fyrir þá sem helst þurfa á þeim að halda.

Er ég þá kominn að 11. gr. þessa frv. og vildi um þá grein segja það að hún á sér forsögu í ákvæði brbl. frá því í ágúst í fyrra, en samkv. því bráðabirgðaákvæði voru lánskjör fjárfestingarlánasjóðanna ákveðin á síðasta ári. Ríkisstj. hefur í undirbúningi og mun leggja fram frv. til l. um ávöxtun fjárfestingarlánasjóða á næstra þingi, Þessu ákvæði er ætlað að brúa bilið milli þessa ákvæðis í brbl. frá því í ágúst sl. og þar til heildarlöggjöf á þessu sviði er á komin. Segja má að þessi grein viðurkenni þá staðreynd, sem við verðum öll að horfast í augu við, að fjárfestingarlánasjóðir geta ekki lánað út með hagkvæmari kjörum en þeir verða að sæta við fjáröflun sína. Ef við viljum bæta lánskjörin að einhverju leyti, verður það ekki gert með öðru en að afla fjárins með einhvers konar skattlagningu, annaðhvort á viðkomandi stéttir og hópa, er njóta góðs af fjárfestingarlánasjóðunum, eða á allan almenning í landinu. Þetta hygg ég að við gerum okkur grein fyrir, þótt við rekum okkur hvað eftir annað á það að þessir sjóðir verði fjárvana.

Það er spurt, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði. Á hvern hátt ætlar ríkisstj. að nota heimildina? Svarið er: Ríkisstj. ætlar að nota heimildina, eins og ég sagði, til að brúa þetta bil, tengja saman þá ákvörðun, sem tekin var um útlánakjör á síðasta ári, við væntanlegt fyrirkomulag þessara mála. Ég get fullvissað þm. um að það verður fyrst og fremst leitast við að gæta samræmis í útlánakjörum og að þær breytingar, sem verða á útlánakjörum, séu ekki meiri en nauðsynlegt er og eins mildilega sé farið í sakirnar og unnt er, þótt við verðum auðvitað að horfast í augu við fjárhagsgetuna eins og hún blasir við. Á þessu stigi málsins er auðvitað ekki hægt að fullyrða um það hvort vextir eða lánstími muni breytast í einstökum atriðum, en viðmiðunin verður sú, sem ég hef hér gert grein fyrir. (MK: Hæstv. ráðh. svaraði ekki einu atriði í ræðu minni. Ég bar fram þá ósk að það yrði kallað saman aukaþing ef samningamálin kæmust í það öngþveiti að hæstv. ríkisstj. teldi sig ekki geta leyst þau án löggjafar.) Herra forseti. Ef ég má svara þessari fsp. eða þessari ósk nú úr ræðustól, þá taldi ég það koma alveg greinilega fram í svari mínu við fsp. hv. þm., þegar hann spurði hvort ríkisstj. mundi setja brbl. eða ekki, að ríkisstj. vildi ekki gefa neinar yfirlýsingar um það, hvað hún ætli sér að gera, og engar yfirlýsingar sem takmarki stjórnskipulegan rétt hennar til útgáfu brbl., en auðvitað tekur ríkisstj. allar óskir til meðferðar og það kemur þá fram á sínum tíma, hvernig brugðist verður við slíkum óskum.