15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4272 í B-deild Alþingistíðinda. (3506)

11. mál, launajöfnunarbætur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það var einkum af tilefni orða sem féllu í ræðu hæstv. forsrh. hér í dag að ég hafði kvatt mér hljóðs. Hann er náttúrlega ekki við, en engu að síður ætla ég nú að segja hér nokkur orð.

Það frv., sem hér er til meðferðar, er um kaupgjaldsmál, m. a. launajöfnunarbætur, eins og það heitir, en ýmislegt fleira er með og má segja að þetta frv. fjalli um launamál á mjög sérkennilegan hátt sem við höfum ekki átt að venjast áður, enda ákaflega sérkennilegt ástand varðandi launamál í landinu. Ástæða fyrir þessu frv. er einkum sú að á s. l. ári og það sem af er þessu ári urðu hér meiri verðhækkanir en við höfum áður þekkt til, jafnhliða voru kjarasamningar gerðir óvirkir að verulegu leyti og má segja að úr kjarasamningum væru numin þau ákvæði með lagaboði að launafólk fengi þessar verðhækkanir bættar með verðlagsuppbótum á kaupið eins og samningar stóðu til um, þá nýgerðir. Þessar aðgerðir stjórnvalda hafa orðið til þess að meiri kjaraskerðing hefur nú orðið en við þekkjum dæmi til, alveg eins og með verðhækkanirnar. Tvær gengislækkanir hafa verið framkvæmdar og hafa þær að sjálfsögðu haft í för með sér verðhækkanir á aðfluttum vörum og einnig verulega á iðnaðarvörum hér vegna innflutnings hráefna. Með óbreyttu kaupi og öllum þessum gífurlegu verðhækkunum, gengisfellingu og öðru slíku, hafa að sjálfsögðu orðið geysilegir tilflutningar á fjármagni í þjóðfélaginu frá launastéttunum og til atvinnurekenda og eignamanna ýmiss konar. Síðan geta menn sjálfsagt svarað því hver stendur í styrjöld við hvern þegar málin eru skoðuð í þessu ljósi. En það voru einmitt þau orð hæstv. forsrh., að það væri síður en svo að ríkisstj. stæði í styrjöld við launafólkið, sem einkum urðu til þess að ég kvaddi mér hljóðs.

Það er einmitt einkenni á þeim átökum á vinnumarkaðinum sem verið hafa, eru og áreiðanlega eiga eftir að magnast til verulegra muna, að launafólkið er í styrjöld við afleiðingar af gerðum stjórnvalda. Þetta frv. fjallar um launajöfnunarbæturnar eins og ég sagði áðan. En til viðbótar þeim hefur einnig verið samið til bráðabirgða á þessu tímabili, síðast í marsmánuði. Þeir samningar eiga nú aðeins tvær vikur eftir af sinni lífstíð og renna út án sérstakrar uppsagnar 1. n. m. Sú krafa, sem verkalýðshreyfingin setur fram, er að endurheimta gildi samninga sinna sem hafa verið, eins og ég tók fram áðan, skertir eða gerðir óvirkir með lagaboði.

Eins og málum er háttað í dag eða réttara sagt 1. maí, 1. þ. m., þá má gera ráð fyrir því að meðalkaup verkamanns, og er þá gengið út frá töxtum verkamannafélagsins Dagsbrúnar, að meðalkaup þeirra samninga, sem gilda u.m kjör verkamanna, hafi minnkað þannig að kaup þurfi nú að hækka um um það bil 35%. Þetta er ekki hægt að segja nákvæmlega um þar sem ekki er enn búið að birta vísitölu 1. maí. En þarna skeikar áreiðanlega ekki nema örfáum prósentum á annan hvorn veginn. Þetta er það sem við teljum að þurfi að gerast fyrir þá sem hafa fengið allar þær launabætur sem komið hafa núna á kaupið, þ. e. a. s. bæði launajöfnunarbætur í haust, í okt., kauphækkunina 1. des. og einnig samningana núna í marsmánuði. Þrátt fyrir þessar kauphækkanir teljum við að kaup þurfi nú, til þess að halda þeim kaupmætti sem var fyrir 1. mars 1974, að hækka um 35%. Þetta er að sjálfsögðu gífurleg skerðing á kaupmættinum og eins og ég tók fram sú langmesta sem við þekkjum til. En þessi skerðing er hjá þeim sem fengið hafa þær kauphækkanir sem orðið hafa á þessu tímabili.

Hæstv. forsrh. hafði á orði að það væri einkenni þeirra átaka sem væru á vinnumarkaðinum að ýmsir launahópar væru að reyna að sækja til sín umfram það sem heildarsamtökin hefðu samið um. Ekki veit ég hvort þetta er fyrst og fremst það sem er einkenni á þeim deilum sem nú stendur yfir. Það má vel vera að einstakir hópar reyni þetta, en við höfum líka spurnir af ýmsum hópum sem núna standa og hafa staðið í launabaráttu og eru með hærri laun en þeir sem ég fjallaði um áðan. Og það eru ýmsar launastéttir sem engar bætur hafa fengið frá því að samningar voru gerðir í febrúar—mars, því tímabili í fyrravetur. Hjá þessum hópum er skerðingin ekki sú að kaupið þurfi að hækka um 35%, heldur um 65%. Það má að sjálfsögðu halda því fram og ég er raunar þeirrar skoðunar að þetta launafólk þoll frekar skerðingu heldur en lægst launaða fólkið, það er ekkert vafamál. En við skulum gera okkur ljóst að kaup, sem er kannske núna röskar 70 þús. eða hefur verið það frá því í fyrravetur og engar bætur fengið, en hefur orðið fyrir þessari gífurlegu skerðingu, má segja að hafi skerðst um allt að því eða hátt upp undir 50%. Það er að sjálfsögðu meiri skerðing en þetta kaup getur þolað, og trúi ég því að hv. alþm. þurfi ekki mikið að brjóta heilann um slíka skerðingu á ekki hærra kaupi en því sem ég nefndi, röskar 70 þús. kr. á mánuði. Það er auðvitað útilokað að slíkt kaup þoli þessa skerðingu. Það er nokkuð áberandi að einmitt ýmsir þessir hópar eru nú að fara af stað.

Það, sem ég vildi fyrst og fremst undirstrika með því að kveðja mér hljóðs, var einmitt að verkalýðshreyfingin og launafólkið í landinu á nú í styrjöld vegna aðgerða stjórnvalda í launamálunum. Það eru að sjálfsögðu ýmsar orsakir — ég ætla ekki að fara að ræða þær hér — til þess að svona hefur farið, Það er svo margrætt hér í þessum sölum. En það held ég að allir verði að gera sér ljóst, að sú óhemjulega skerðing, sem hefur orðið á kaupi þeirra allra lægst launuðu, getur ekki viðgengist eins og nú er. Þetta kaup verður að hækka og það er alveg sama þó að menn ætli að telja sér trú um það og geti sannað það með ýmiss konar hagfræðilegum útreikningum og afkomuútreikningum hinna ýmsu atvinnuvega, að þeir þoli ekki hærri launagreiðslur, það er nákvæmlega sama, þetta kaup verður engu að síður að hækka og það verulega. Hér er um það að ræða að það verður að gera aðrar breytingar í þjóðfélaginu heldur en þær að traðka svo á þessu fólki eins og nú er gert.

Ég ætla ekki að fara að ræða neitt ítarlega hér hinar einstöku deilur sem nú standa yfir og verkföll. Varðandi togarana verð ég að segja það, stóru togarana, að það er alveg fráleitt að þessi stóru og afkastamiklu atvinnutæki skuli bundin við bryggju jafnlangan tíma og nú er orðin staðreynd. Það eru þegar þær afleiðingar komnar í ljós að hundruð manna eru orðin atvinnulaus vegna þess. Það má vera að hæstv. ríkisstj. vilji ekki blanda sér verulega í þá vinnudeilu og aðrar. En það er áreiðanlega krafa, ekki aðeins þeirra sem nú missa atvinnu sína vegna þessa verkfalls, ég vildi segja að það væri krafa allrar þjóðarinnar, að ekkert verði látið ógert til þess að þessu verkfalli ljúki. Það verður að sjálfsögðu ekki gert með öðrum hætti en að kjör sjómannanna, undirmannanna á togurunum, verði bætt verulega. Það er útilokað að það gerist á annan hátt. Og það, sem til þess þarf, er áreiðanlega ekki nema lítill hluti þess sem talað er um að tap þessara veiðiskipa nemi. En tap þjóðarheildarinnar við það, að þau séu bundin við bryggju, er áreiðanlega margfalt meira.

Varðandi þá deilu, sem nú er risin við ríkisverksmiðjurnar, Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna og Kísiliðjuna, vil ég aðeins segja það að hér er um að ræða deilu sem er að sjálfsögðu launadeila. En markmið hennar og tilgangur og engan veginn að fara að hlaða á þá hæstlaunuðu og þeir lægstlaunuðu eigi að bera minnst úr býtum, eins og mér fannst koma fram hjá hæstv. forsrh. Ef það er misskilningur, þá biðst ég velvirðingar á því. En hér er um það að ræða að reyna að samræma kjör þeirra fjölmörgu aðila sem eiga samningsrétt við þessi fyrirtæki. Það hefur orðið mikið misgengi í kjörum manna í þessum verksmiðjum og eitt og annað komið í ljós þegar farið er að skoða þau mál til botns. Ég ætla ekki að draga úr því að hér er um vandasöm mál að ræða, en ég vil líka undirstrika það að fulltrúar verksmiðjanna, og á ég þar við samninganefnd ríkisvaldsins, þeir hafa alls ekki notað þann tíma, sem hefur verið gefinn til þessara samninga, nándar nærri eins og ég vildi segja að hefði verið sæmilegt. Fyrirvararnir, sem gefnir hafa verið, eru orðnir svo langir, það er komið á annað ár síðan ákveðið var að fara í þessa samninga og er búið að vinna mjög mikið starf að þeim. Það var í febr., fyrri hluta febr., ef ég man rétt, sem verkalýðsfélögin lögðu fram kröfur sínar í þessum efnum. Það er kominn meira en mánuður, það eru komnar einar 6 vikur, síðan samninganefnd ríkisverksmiðjanna vissi upp á dag og klukkustund hvenær verkfall mundi skella á, ef ekki hefði samist fyrir þann tíma. Þannig er ástatt að verkalýðsfélögin þurfa að boða verkfall með nokkuð mismunandi tíma. Einn hópurinn varð að boða með mánaðarfyrirvara verkfallið og félögin, sem hlut eiga að máli, tilkynntu þá um leið að þeirra verkfall skylli á 12. maí og yrði boðað að sjálfsögðu með eðlilegum fyrirvara ef þá yrði ekki búið að ná grundvelli að nýjum samningum. Með þessar verksmiðjur og þá einkum eina þeirra, þ. e. a. s. Sementsverksmiðjuna, háttar svo, að ef hún er stöðvuð lengi, þá hallar mjög undan fæti hvað varðar atvinnu í byggingaiðnaðinum. Áreiðanlega er hægt að haga málum á annan veg ef sérstakur vilji er fyrir hendi. Mér hefur fundist á ýmsum fréttum, sem birtar hafa verið í þessu sambandi, að það væri talið nokkurn veginn öruggt að ef þessi stöðvun yrði einhverja tiltekna daga, þá væru 2–3 þús. manns í byggingaiðnaðinum orðnir atvinnulausir. Það er áreiðanlega ekki eðlilegur gangur mála. En það er mjög auðvelt áreiðanlega að koma málum fyrir á þann hátt, ef atvinnuástandið er þannig að þeir, sem hlut eiga að máli, atvinnurekendur í þessum greinum, eru ekkert smeykir við það þótt þeir sendi mennina heim, þeir muni ekki endurheimta þann vinnukraft aftur, þá er mjög auðvelt að haga málum svo að skollið verði á algert atvinnuleysi í byggingaiðnaðinum innan stutts tíma. Ég legg þess vegna áherslu á að varðandi ríkisverksmiðjurnar verði unnið vel að þeim málum. Það hefur lítið verið gert fram að þessu, fyrr en nú síðustu vikuna, til þess að hér fáist lausn á. Og ég legg áherslu á það að hér eru ekki neinir hópar, eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. í dag, ýmsir hópar sem væru að sækja eitthvað langt umfram það sem samið hefði verið um almennt. Hér er um að ræða samræmingu innbyrðis í hverri einstakri verksmiðju og á milli verksmiðjanna því að samningar hafa verið æðimismunandi.

Ég ætla ekki að fara öllu lengra út í þessi mál, en vil þó aðeins segja varðandi 11. gr. þessa frv., þar sem gert er ráð fyrir að fjárfestingarlánasjóðirnir fari í auknum mæli að verðtryggja útlán sín, að hér er um geysimikið mál að ræða, mál sem ég tel, að þurfi að íhuga miklu betur en gert hefur verið. Það er smátt og smátt, hér og þar í þjóðfélaginu verið að fara inn á þessar brautir án þess að nokkur stefna sé neins staðar mörkuð, og a. m. k. frá mínum bæjardyrum séð, þá álít ég að hér sé um býsna hættulega hluti í ýmsum atriðum að ræða og slíkt stórmál þyrfti að skoða miklu meira og taka þá markvissar ákvarðanir um, en ekki að vera að fálma á þann hátt út í loftið eins og gert er núna, verðtryggja eitt og annað. Ég held, að við verðum að skoða það vel hvaða áhrif þetta hefur, t. d. atvinnuvegina sem manni sýnist nú að stynji undir þeim vöxtum sem þarf að greiða í dag, hvað þá ef mikill hluti af útlánum væri orðinn verðtryggður og væri þá kominn með um það bil 60% ársvexti eins og er núna af fullverðtryggðum skuldabréfum. Þetta er mál, held ég, sem menn verða að skoða meira og miklu nánar. Ég er því þess vegna mjög meðmæltur að þessi grein verði felld niður úr frv. Ég sé ekki að sú breyting, sem kemur fram á þskj. 738, sé í raun og veru breyting í nokkru frá því sem var í frv. og þess vegna sé þrátt fyrir þá breytingu full ástæða til að greinin verði felld niður.