15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4285 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

347. mál, skýrsla um Framkvæmdastofnun ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er varðandi eitt atriði í þessari skýrslu sem hér kemur fram og að gefnu tilefni sem ég vildi leyfa mér að upplýsa samanburð á því hvaða fjármagn Byggðasjóður hefur til útlána á þessu ári, að því er ætla má, og mundi hafa haft ef sömu reglur hefðu gilt um Byggðasjóðinn og gerðu á síðasta ári.

Það liggur fyrir að Byggðasjóður mun hafa um 140 millj. kr. af eigin fé sem hann getur varið til útlána. Í öðru lagi var um það samið í málefnasamningi núv. stjórnarflokka að verja sem svarar 2% af útgjöldum á fjárlagafrv. til Byggðasjóðs. Þessi upphæð mun nema um 880 millj. kr., mig minnir 877 millj. kr., eins og kemur fram á fjárl. Samkv. þessu mun Byggðasjóður hafa til útlána á þessu ári rúmlega 1 milljarð eða 1020 millj. kr. samtals. Ef engar breytingar hefðu verið gerðar og ekkert verið samið milli stjórnarflokkanna um nýja skipan þessara mála, þá hefði Byggðasjóður haft til útlána á þessu ári — og þá miða ég við það að hann hefði ekki tekið lán til sinnar starfsemi — í fyrsta lagi þessar 140 millj. sem hann hefur og getur ráðstafað til útlána af eigin fé, í öðru lagi 100 millj. sem samkv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins á að leggja til Byggðasjóðs úr ríkissjóði á hverju ári og í þriðja lagi álgjaldið eða hluta álgjaldsins sem svarar 70.9% af skattgjaldinu af álverksmiðjunni. Þjóðhagsstofnun áætlar að álgjald muni nema á þessu ári 130 millj. kr. og samkv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins eiga að renna til Byggðasjóðs 70.9% af þessari upphæð eða 92 millj. Þess vegna mundi Byggðasjóður hafa til útlána af eigin fé á þessu ári, ef sömu reglur hefðu gilt og giltu á seinasta ári, 140 millj., 100 millj. og svo 92 millj., eða samtals 332 millj. Samkv. samningi stjórnarflokkanna hefur Byggðasjóður aftur á móti til útlána af eigin fé 1020 millj. kr. eða 700 millj. kr. meira en hann hefði haft ef þær reglur hefðu gilt sem áður giltu í þessum efnum.

Um lántökur af hálfu Byggðasjóðs er það að segja að hann hefur heimild samkv. lögum til þess að taka lán til starfsemi sinnar, sennilega verður sú heimild ekki notuð á þessu ári, en það er hægt að nota hana og ef það væri gert, þá mundi náttúrlega Byggðasjóður hafa til útlána hærri upphæð en ég hef nefnt hér. En mergurinn málsins er þessi, að það er um 700 millj. kr. aukning, sem Byggðasjóður hefur úr að spila af eigin fé á þessu ári samkv. samningi á milli stjórnarflokkanna, frá því sem hann hefði haft ef engar breytingar hefðu verið gerðar á framlögum til Byggðasjóðs úr ríkissjóði.