15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3521)

347. mál, skýrsla um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. 5. þm. Norðurl. v. var: Hvað veldur því að endurskoðun laga um Framkvæmdastofnun ríkisins hefur ekki farið fram? Ég vil svara því með því að vitna til þess kafla sem ég las upp úr skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins, en þar er getið um þá annmarka og erfiðleika sem áætlanagerð ætti við að búa hér á landi, bæði á vegum Framkvæmdastofnunarinnar, áætlanadeildar hennar, og annarra aðila í þjóðfélaginu. Hér er um það flókið mál að ræða að ætla hefur þurft meiri tíma til endurskoðunar laganna en ætlað var í upphafi til þess að byggja traustan grundvöll þessarar áætlunargerðar.

Í öðru lagi spurði hv. þm., hvað ylli því að yfirlýsing stjórnarsáttmálans hefði ekki verið efnd. Ég svara því á þann veg að enn er ekki komið í ljós hvort sú yfirlýsing verður efnd eða ekki, vegna þess að ekki var tímasett hvenær endurskoðuninni lyki. Að endurskoðuninni verður unnið og frv. flutt á næsta þingi. Ég vildi mjög gjarnan að yfirstandandi þing hefði fjallað um þetta mál, en ég tel þó miklu meira varða að endurskoðunin sé vel vönduð og þær endurbætur gerðar sem reynslan hefur sýnt að nauðsynlegar eru.

Í þriðja lagi spurði hv. þm., hvaða fyrirkomulagsbreytingar verði gerðar. Um það vil ég ekki ræða fyrr en endurskoðuninni er lokið og tel það rannar ekki hafa þýðingu.

Að lokinni þessari endurskoðun mun frv. verða lagt fyrir Alþ. og alþm. gefst þá kostur á að bera saman ráð sín og þá mun koma í ljós hvort um sinnaskipti sjálfstæðismanna er að ræða. Ég vil hugga hv. 9. þm. Reykv. með því, að ég tel svo ekki vera.