15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4293 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

13. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Fram. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Það er nú leiðinlegt þegar maður ætlar að fara að mæla fyrir stórmerku og ágætu máli að þurfa að byrja á því að gera buslubæn sína. En þannig fór nú að prentvillupúkinn hefur tekið hér af okkur völdin og honum hættir stundum til þess einmitt á síðustu dögum þingsins. Þetta mun hafa komið fyrir í fleiri þskj. og ekki ómerkari, held ég, heldur en kannske því sem hér er sérstaklega til umr. En það, sem mig langar til þess að byrja á að segja frá, er að það hafa fallið niður á heldur dapurlegan hátt þrjú orð í nál. Þau áttu að standa aftast í þessari grein þannig að skjalið, sem ekki er nú langt, skyldi hljóða þannig:

Fjvn. hefur fjallað um till. þessa og er sammála um að áframhaldandi rafvæðing sveitabyggðar í landinu sé afar brýnt verkefni. Hins vegar telur nefndin að efni till, þurfi að ræða betur í einstökum atriðum. Því leggur nefndin til, að till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að áætlunargerð um rafvæðingu sveitanna verði hraðað sem verða má á þessu ári.“

En þessi þrjú orð, sem þarna áttu að standa aftast, „á þessu ári“, hafa fallið niður og þskj. verður því prentað upp. Hins vegar hefur þetta orðið til þess að hv. 1. flm. till. á þskj. nr. 13, sem hér er til umr., hefur brugðið nokkuð harkalega við, eins og hans er von og vísa, og ég sá ekki betur en að hann væri búinn að senda frá sér sérstaka till. um að vísa þessu máli frá með rökst. dagskrá. Það er út af fyrir sig dálítið hæpin aðferð að níðast svo á sínu eigin máli, en ég skal ekki fara út í það. En það sýnir aðeins að hv. þm. sækir mál sitt af miklu kappi og er það yfirleitt mjög gott. En svo vill til að ég, sem hér stend, er líka einn af flm. þessarar till. og ber þess vegna hag hennar talsvert fyrir brjósti og hefði síst viljað að það gengi fram, að henni yrði vísað svo harkalega frá með rökst. dagskrá. En ég held að ég hafi komið við þeirri leiðréttingu sem nauðsynleg var. Sem sagt, prentvillupúkinn hefur þarna tekið völdin af okkur. Ég vona að það verði til þess að hv. 1. flm. till., 2. þm. Vestf., taki aftur till. sína um að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, sem nú er dálítið vafasamt.

Þessi till. var rædd hér í vetur og var vísað til nefndar. Till. er með mjög ítarlegri stefnumörkun af hálfu flm. og að sjálfsögðu þannig úr garði gerð að í henni kunna að vera ýmis atriði sem þarf að ræða betur, eins og fjvn. segir í nál. sínu. Þess vegna var ekki um það að ræða að nefndin gæti orðið sammála um að taka með öllu undir orðalag till. Sú varð því niðurstaðan að n. legði til að till. yrði vísað til ríkisstj. í trausti þess að áætlunargerð um rafvæðingu sveitanna yrði framkvæmd á þessu ári. Þetta er sem sagt sú till. sem fjvn. hefur uppi í málinu.