15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Áður en ég kem að því að mæla hér fyrir brtt., sem ég flyt ásamt fjórum öðrum hv. þm. og ég held nú að gildi sama um og þá till. sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um að það er ekki, að því er ég best veit, búið að útbýta, þá ætla ég að fara aðeins örfáum orðum um það mál sem hér er til umr.

Eins og hv. frsm. og formaður fjvn. gerði grein fyrir og sést á nál. frá fjvn., þá hef ég ásamt tveim öðrum hv. fjvn.-mönnum fyrirvara varðandi þetta mál og sá fyrirvari byggist auðvitað á því að það eru allmörg veigamikil atriði sem við erum óánægðir með í sambandi við afgreiðslu þessa máls, eins og það nú liggur fyrir, en við töldum þó ekki rétt að kljúfa n. Það hefur alltaf verið reynt, a. m. k. síðan ég kom í fjvn. og, að mér er sagt, oftast ef ekki alltaf áður, að menn reyndu a. m. k. að hafa sameiginlegt nál. Þó að það hafi kannske oft og tíðum verið betra að koma slíku að heldur en einmitt nú.

Ég skal ekki orðlengja mikið um þetta. Ég vil aðeins segja örfá orð. Mér finnst að það sé mikið spursmál hvort það er rétt, eins og nú er gert, að auka svo stórlega þá púlíu, sem ætluð er til hraðbrautaframkvæmda, á kostnað þeirra framkvæmda sem ætlaðar eru í annars vegar landsbrautum og hins vegar þjóðbrautum. Með því er verið að meira eða minna leyti að taka það af þm. hinna einstöku kjördæma að ráðstafa því fé sem ætlað er til hinna ýmsu verkefna í kjördæmunum. Ég er a. m. k. þeirrar skoðunar að það beri að skoða það mjög vel að ekki sé gert í of miklum mæli að raska því hlutfalli sem ætti að vera á milli annars vegar hraðbrautaframkvæmda og hins vegar þjóðbrauta og landsbrauta. Eins og fram kemur í brtt. frá fjvn., hefur það fjármagn, sem ætlað er til hraðbrautaframkvæmda t. d. á árinu 1975, vaxið allverulega frá því sem þáltill. gerði ráð fyrir þegar hún var lögð fram og er nú komið upp í um 890 millj. kr. til hraðbrautaframkvæmda á árinu 1975, — hraðbrautaframkvæmda sem eru að langmestu leyti, eins og nú liggur fyrir, hér á suðvesturhorni landsins. Og það er með mig eins og sjálfsagt marga aðra hv. þm. að þeir eru mjög óhressir yfir þeim tiltölulega litlu fjármunum sem allar líkur eru á að verði til ráðstöfunar til framkvæmda í þjóðbrautum og í landsbrautum og í nokkuð mörgum kjördæmum að því er varðar framkvæmdir í hraðbrautum.

Það hefur einnig komið fram, kemur fram í nál. að í raun er um að ræða tæplega 30% niðurskurð miðað við síðustu vegáætlun í framkvæmdamagni. Þetta er stórfelldur niðurskurður og vart hefðu menn nú trúað því að slíkt ætti eftir að eiga sér stað undir forustu þess flokks, sem nú hefur forustu í hæstv. ríkisstj., eftir þau ummæli sem látin voru falla af þeim hv. þm. þess flokks fyrir um ári þegar verið var að ræða hér vegáætlun á Alþ. En í sambandi við þetta verður auðvitað að gæta þess þegar það liggur fyrir að samdráttur er í hinum einstöku landshlutum, misjafnlega mikill, þá verður auðvitað að taka tillit til þess hvaða aðrar framkvæmdir eru í gangi eða koma til með að verða í gangi á þessu sama tímabili sem þessi vegáætlun nær yfir. Það er augljóst mál að ef menn ætla ekki að raska um of þeim hlutföllum sem þarna eru í milli, þá verður einnig að hafa hliðsjón af öðrum framkvæmdum en framkvæmdum á vegum sem eru í hinum ýmsu kjördæmum.

Hv. form. fjvn. og frsm. undraði sig á því hér áðan að nokkrum þm. skyldi detta í hug að það kæmi til greina að fresta um einhvern tiltekinn tíma framkvæmdum við ákveðið mannvirki sem hvað mest er nú um talað, þ. e. a. s. brú yfir Borgarfjörð. Þar er gert ráð fyrir að setja á þessu ári um 135 millj. og strax á næsta ári, árinu 1976, um 400 millj. af um 1100 millj. kr. heildarfjárveitingu sem þá á að fara í hraðbrautir. Þegar talað er um slíkt, þá verða menn einnig að hafa í huga hvað nýlega er búið að gera hér á Alþ. Það er búið að ákveða stórkostlega framkvæmd í þessum landshluta sem nú er verið að tala um, og á ég þar við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga sem hlýtur í öllum tilvikum að hafa áhrif til hins betra á atvinnulíf meðan á uppbyggingunni stendur. Það hefði því ekkert átt að koma á óvart hv. formanni fjvn., a. m. k. ekki að því er mig varðar, sjónarmið af þessu tagi því að ég taldi mig hafa rækilega gert grein fyrir mínum viðhorfum til þessa máls einmitt í fjvn. og ég hef yfirleitt viljað haga svo málum að menn færu ekkert í grafgötur með hver mín skoðun væri og ég var ekki að koma aftan að einum eða neinum í þessum efnum. (Gripið fram í.) Nei, ég held að hæstv. fjmrh. hafi þar rétt fyrir sér þegar hann telur að menn viti yfirleitt hvar þeir hafa mig. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég ætla að bíða þess að till. komi fram og ef ástæða þykir til, þá að fjalla um málið frekar. En ég get sagt hv. þm. Jónasi Árnasyni að ég er annar meðflm. að þessari till.

Ég skal ekki, eins og ég sagði áðan, eyða miklum tíma í að ræða almennt um þetta mál nema þá frekari ástæða gefist til þess, en vil þá snúa mér að því að gera grein fyrir þeirri brtt. sem ég ásamt 4 öðrum hv. þm. flyt á sérstöku þskj., þskj. 797 mun það vera. Hér er um að ræða till. um að tekið skuli upp hið margumtalaða veggjald. Þetta mál hefur áður og oft áður verið til umr. hér á þingi, um það skiptar skoðanir, menn tekið sinnaskiptum sitt á hvað — virðist vera — í afstöðu til málsins og ekkert kannske við það að athuga. En þessi brtt. er um það að upp skuli tekið veggjald á þeim hraðbrautum sem nú eru fyrir hendi, annars vegar Reykjanesbraut og hins vegar Suðurlandsvegi. Á Reykjanesbraut var veggjald innheimt um nokkurra ára bil, en um áramótin 1972–1973, ef ég man rétt, var það afnumið samkv. samþykkt sem hér var gerð á Alþ. Samkv. vegal. hefur ráðh. heimild til þess að innheimta slíkt gjald, en það er skiljanlegt að viðkomandi ráðh. geri það ekki hafi komið fram meirihluta samþykkt á Alþ. þess efnis að það skuli ekki framkvæmt.

Gjald þetta á Reykjanesbrautinni, meðan það var innheimt, var alla tíð óbreytt. Við endurskoðun vegáætlunar 1972 fengum við í hendur áætlun um veggjald á hraðbrautum, annars vegar Suðurlandsvegi og hins vegar Reykjanesbraut frá Vegagerð ríkisins að því er varðaði tekjuhlið þess annars vegar og kostnað eða útgjöld hins vegar. Sú till., sem er á þskj. 797, er byggð á þessari áætlun frá Vegagerð ríkisins með þeirri breytingu að upp er fært bæði tekjur af gjaldinu og annars vegar kostnaður við innheimtu um 100%. Þegar endurskoðun átti sér stað 1972 var talið, að gjaldið þyrfti að hækka um helming til þess að halda í við þær kostnaðarhækkanir sem átt höfðu sér stað á þessu tímabili. Ég tel því að það sé ekki ósanngjarnt að ætla það nú þremur árum síðar að hækka um helming þetta gjald og það sé grundvöllurinn að þeim tekjum sem væntanlega munu koma inn vegna slíkrar innheimtu.

Það kemur í ljós að þessar tekjur mundu verða, ef þessi ákvörðun yrði tekin, fyrir helming ársins 1915 um 42.8 millj., fyrir árið 1976 um 89 millj. og fyrir árið 1977 um 93 millj. Við, sem að þessari brtt. stöndum, teljum að það sé sanngirnismál að þeir sem njóta þeirra forréttinda, skulum við kalla það, að geta ekið á þessum tilteknu vegum með þeim sparnaði sem af því leiðir, það sé ekki ósanngjarnt að þeir séu eitthvað látnir borga fyrir það, þannig að hægt sé að auka framkvæmdir á þeim stöðum sem miklum mun verr eru settir. Þessu til viðbótar hefur það gerst, að nú nýverið er farið að innheimta svokallað flugvallargjald, og a. m. k. mér sýnist að það renni frekar stoðum undir þá réttlætistilfinningu að einnig sé innheimt gjald af þessum tilteknu vegum með hliðsjón af hinu. Við gerum ráð fyrir því, að verði það svo að brtt. þessi verði samþykkt — og ég vona að þm. hinna dreifðu byggða þekki sinn vitjunartíma, taki tillit til réttlætistilfinningar — að þeim tekjum, sem inn muni koma á árinu 1975, verði skipt eftir ákvörðun fjvn., þ. e. a. s. við gerum till. um að upp verði tekið bráðabirgðaákvæði um skiptingu þess fjármagns á árinu 1975. En varðandi þær tekjur, sem koma eftir þann tíma, verður að sjálfsögðu höfð hliðsjón við þá endurskoðun sem lögum samkv. á að fara fram á næsta ári á vegáætlun og þá kemur það gjald einnig til skiptingar á framkvæmdir.

Ég þarf í raun og veru ekki miklu við þetta að bæta, en ég vil ítreka það að okkur finnst það sjálfsagt réttlætismál að þeir, sem njóta þess að hafa þessa góðu vegi og geta hagnýtt þá með þeim mikla sparnaði sem það hefur í för með sér, séu eitthvað látnir fyrir þá miklu þjónustu greiða. Ég a. m. k. er þeirrar skoðunar að ættu menn þess kost í hinum ýmsu landshlutum að aka slíka vegi, þá mundu þeir telja það sjálfsagðan hlut að þeir greiddu eitthvað sérstaklega fyrir það vegna þess að það er margfaldur sparnaður að því að geta nýtt farartæki á slíkum vegum miðað við það sem er á hinum mjög svo slæmu vegum sem dreifbýlisfólk almennt hefur við að búa. Við teljum einnig að það sé sérstök ástæða til þess að nýta alla þá tekjustofna, sem hugsanlegir eru, í því árferði sem nú er, þegar allir tala um hversu lítið fjármagn sé til skipta í sambandi við vegáætlun, og þá sé ástæðulaust að kasta fyrir borð tekjustofnum af þessu tagi sem eru réttlætanlegir, — tekjustofnum sem gefa þó nokkrar upphæðir til þess að vinna fyrir í framkvæmdum. Það er okkar bjargföst sannfæring að þetta sé slíkt réttlætismál að við væntum þess að það nái samþykki nú við afgreiðslu þessarar vegáætlunar.