15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég stend nú hér upp fyrst og fremst til þess að mæla fyrir till., sem við flytjum, hv. þm. Karvel Pálmason og Helgi F. Seljan, 7. landsk. þm., og ég. Þessi till. hefur enn ekki verið prentuð, að því er mér skilst, og er enn ekki komin á borðin En hún er um það að varið verði 400 millj. kr. til vegagerðar á fjórum fjallvegum landsins sem allir flokkast undir þjóðbrautir.

Við flm. till. hugsum okkur, að skipting þessa fjármagns sé þannig að 100 millj. kr. verði varið til þessara fjallvegaframkvæmda á árinu 1975 og 300 millj. kr. á árinu 1976, hvort tveggja samkv. nánari ákvörðun ráðh. og með samþykki fjvn. Og heiðarvegir þeir, sem till. miðast við, eru Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði, Oddsskarð og einnig sú heiði sem valin verður til tengingar Djúpvegar við aðalvegakerfi landsins, en sú ákvörðun mun enn ekki hafa verið tekin og yrði þá um að ræða, ef sú ákvörðun drægist á langinn, að fjármagni yrði varið til framkvæmda á Djúpvegi, en þar vantar að sjálfsögðu mikið á enn að um sé að ræða fullkomna vegalagningu.

Það er jafnframt till. okkar — vegna þess að við teljum okkur ekki fært að flytja till. um 400 millj. kr. framkvæmdir án þess að benda á hvar þetta fé skuli tekið — að fjármagnið, þessar 400 millj., sé fengið með því að fresta um eitt ár gerð brúar yfir Borgarfjörð.

Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því að á árinu 1975 verði varið til þeirrar framkvæmdar 135 millj. kr., og það er þá okkar till. að á þessu ári verði ekki fé varið til þeirra framkvæmda, en á árinu 1976, þegar verja á samkv. vegáætlun 390 millj. kr. til þessarar brúargerðar, þá verði sú upphæð 100 millj. kr. Þá höfum við í huga að vegáætlun verður til endurskoðunar síðar á þessu ári eða sem sagt á næsta vetri og er þá alltaf möguleiki að athuga betur um þessa vegagerð, hvernig henni verði hagað og hve miklu fjármagni verði til hennar varið á því ári. Hér er sem sagt einungis um að ræða frestun framkvæmdarinnar um eins árs skeið.

Ef litið er yfir þá vegáætlun, sem hér er til umr., held ég að það hljóti að stinga í augu hve litlu fjármagni er hér varið til nýbyggingar vega miðað við þarfirnar og miðað við þau áform sem áður voru uppi. Á árinu 1974 var varið 1706 millj. kr. til nýbyggingar þjóðvega, en upphæðin nú er aðeins 1866 millj. kr. Mun víst láta nærri að fjárveitingar til nýbyggingar vega þyrftu að hækka um 40% til þess að þær gætu haldið verðgildi sínu. Þegar svo er aðkreppt um fjárveitingar til vegamála eins og nú er, er að sjálfsögðu hálfu mikilvægara en ella að það litla fjármagn, sem til reiðu er, sé veitt til allra brýnustu framkvæmda á hverjum tíma. Ef litið er á upphæðir vegáætlunar sjáum við að á árinu 1975 er ætlunin að verja 89 millj. kr. í hraðbrautaframkvæmdir, en til nýbyggingar vega almennt 1866 millj. Upphæðin er sem sagt tæpur helmingur af heildarfjárhæðinni sem fer til nýbyggingar vega. Þetta tel ég vera fráleitt hlutfall og ég er viss um að mjög margir þm. eru mér sammála um það. Við viljum að sjálfsögðu ekki stöðva hraðbrautaframkvæmdir með öllu, en við teljum að hlutfallið, sem hér er um að ræða, sé allt of, allt of hátt, augljóslega of hátt miðað við þau óleystu verkefni sem blasa við víðs vegar um land. Ekki batnar hlutfallið á árinu 1976, en þá er gert ráð fyrir að 1081 millj. kr. verði varið til hraðbrautaframkvæmda af 2114 millj. sem til ráðstöfunar eru.

Ég lýsti því yfir við umr. sem fram fóru í Ed. í dag um vegamál, en þá voru einnig vegamál á dagskrá og það meira að segja kaflinn frá Reykjavík til Akureyrar, að í vegamálum væru fyrst og fremst þrjú stór verkefni, sem þyrfti að sinna og væri kannske hægt að flokka í þrjá meginþætti. Það er í fyrsta lagi að byggja upp traustan og öruggan veg hringinn í kringum landið veg sem er fær vetur, sumar, vor og haust, og um leið að byggja tengiveg sem tengi allar helstu byggðir landsins við þennan hringveg, þannig að landsmenn allir njóti jafnréttis að því leyti að þeir geti notið vegakerfisins svo til alla daga ársins. Þetta tel ég vera langsamlega brýnasta viðfangsefnið í vegamálum og það sem verður að hafa algeran forgang. Ég lít svo á að varanlegt slitlag á vegi eða framkvæmdir, sem jafna má til þess að verið er að lagfæra vegi sem eru nú í grófum dráttum færir allan ársins hring, framkvæmdir sem eru mjög dýrar, eins og t. d. Borgarfjarðarbrúin er, geysilega dýr miðað við það fjármagn sem til ráðstöfunar er, — framkvæmdir af því tagi verði eitthvað að bíða. Þó er það nú svo að það er að sjálfsögðu ekki hægt að leggja Borgarfjarðarbrúna til jafns við varanlegt slitlag almennt því að ég býst við því að það megi færa býsna mörg rök að því að þessi brú verði að koma fyrr eða síðar.

Það vantar að vísu algerlega að hæstv. samgrh. og forráðamenn vegamála hafi lagt fyrir alþ. einhverjar upplýsingar um þá valkosti sem þarna gæti verið um að ræða. Ég t. d. hef ekki heyrt nein rök fyrir því að ekki geti komið neinar aðrar leiðir til greina á norðurleiðinni heldur en þessi eina sem er greinilega geysilega dýr. En vegna þess að ég hef ekki upplýsingar í höndunum og hef ekki fengið neitt í hendurnar til þess að dæma um það hvort þarna er um rétt vegarstæði að ræða eða ekki, þá ætla ég mér ekki að hætta mér inn á þær brautir. En það er hins vegar alveg ljóst að vegaframkvæmd, sem kastar hvorki meira né minna en yfir 1000 millj., sem er sem sagt meira en helmingur af öllu því fjármagni til vegaframkvæmda sem við höfum á einu ári, miklu meira en helmingur, slík vegaframkvæmd hlýtur að hafa sér til stuðnings geysilega sterkar og magnaðar röksemdir til þess að hún eigi rétt á sér. En nauðsyn hennar vil ég ekki neita, heldur að hún eigi að koma nú og hafa forgang fram yfir aðrar vegaframkvæmdir sem af þeim sökum verða að bíða. Þetta býst ég við að öllum hv. þm. sé ljóst og ég býst við að margir þeirra, fleiri en ég, bíði eftir því að fá hin skýru og augljósu rök fyrir því að þessi framkvæmd megi ekki bíða, t. d. í eitt ár eins og hér er lagt til.

En lítum á hinar framkvæmdirnar sem meginparturinn af hraðbrautafénu rennur til. Það fer sem sagt töluvert af hraðbrautafénu í þessa brú eða um það bil fjórðungur á tveimur árum, en að öðru leyti fer fjármagnið, sem fer til hraðbrautaframkvæmda, að langsamlega mestu leyti í varanlegt slitlag á þjóðvegum. Ég tel að það sé að vísu einnig mjög þarflegt viðfangsefni, en verði miðað við fé sem er núna til ráðstöfunar, að bíða eitthvað. Við verðum að taka hina vegina, fyrir á undan, þá sem ég nefndi áður. Ég tel það sem sagt fráleitt, að þegar það blasir við að við þurfum að eyða tugþúsundum til að byggja upp trausta malarvegi á öllum helstu þjóðbrautum, þá sé svona stórri upphæð varið til annars vegar þessarar brúargerðar og hins vegar varanlegs slitlags.

En áður en ég hverf frá því hvað á að hafa forgang fram yfir annað, þá vildi ég aðeins skjóta að einu viðfangsefni sem alþm. hafa því miður allt of lítið haft til umr. nú í seinni tíð, en er ekki síður mikilvægt og að mínum dómi ætti að hafa margfaldan forgang á við varanlegt slitlag á þjóðvegum, og það er varanlegt slitlag í bæjum og þorpum víðs vegar um land. Við vitum að fólkið, sem býr úti um land, veður eðjuna upp að ökkla meira en helminginn af árinu, og það hafa enn ekki verið gerðar neinar viðhlítandi ráðstafanir til þess að útvega bæjarfélögunum fjármagn til þess að þau geti glímt við þetta verkefni. Sjá ekki allir hugsandi menn að verkefni eins og þetta á augljóslega að hafa forgang umfram það að leggja varanlegt slitlag á þjóðbrautirnar, millibyggðavegina? Er þetta ekki svo ljóst sem verða má? En því miður, sú vegáætlun, sem hér hefur verið lögð fram, ber þess ekki vott að menn hafi skilning á þessu sjónarmiði.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því að Holtavörðuheiðin, sem er langsamlega erfiðasti þröskuldurinn milli Norðurlands og Suðurlands og kemst þar ekkert annað í samjöfnuð, fær á árinu 1975 samkv. vegáætlun 0.00 kr. Það er ekki ein einasta króna í vegáætlun. Á árinu 1976 fær Holtavörðuheiði 0.00 kr., ekki ein einasta króna. Þetta er að sjálfsögðu hneyksli og ekkert annað, að þannig sé staðið að málum. Þetta á sér ýmsar skýringar, eins og ég ræddi um í umr. í dag í Ed. og vil ekki fara að orðlengja allt of mikið hér. Hæstv. ráðh. svaraði mér þá og hafði uppi málflutning sem í raun og veru var í öllum meginatriðum það sama sem ég hafði sagt. Við erum greinilega algerlega sammála um það að ein af ástæðunum fyrir því, að ekki hefur verið lagt fé í Holtavörðuheiðina er að kjördæmissjónarmiðin hafa verið svo sterk að hún hefur orðið að víkja. Menn hafa lagt áherslu á vegina hver í sinu héraði, en vegna þess að Holtavörðuheiðin er á mótum þriggja kjördæma, þjónar mest Norðurlandi, en er alls ekki í Norðurlandskjördæmunum, heldur að hálfu leyti á Vestfjörðum og hálfu leyti á Vesturlandi, þá hefur ekki þm. þeirra kjördæma þótt sérstök ástæða til þess að eyða fjármagni í þann fjallveg. Ég skal að vísu ekki segja um það að hve miklu leyti þetta verður að skrifast á reikning okkar þm. Norðurl. og þm. Vesturl. og Vestf., en við höfum greinilega ekki gætt að sem skyldi og Holtavörðuheiðin hefur orðið út undan og er sem sagt fráleitt. Hið nákvæmlega sama er uppi á teningnum hvað snertir Öxnadalsheiðina sem er að sjálfsögðu langerfiðasti þröskuldurinn á Norðurlandinu, sú heiðin sem oftast er teppt. Hún fær á árinu 1975 9 millj. og á árinu 1976 18 millj. Vita hv. þm. hvað er hægt að leggja langan vegarspotta fyrir þessar upphæðir, samtals 27 millj.? Mér skilst að það megi heita gott ef vegarspotti fyrir 27 millj. nær því að vera 3 km á lengd. Það er ekki miklu meira en það, jafnvel þótt vel standi á um útvegun efnis, og menn sjá að ekki verður mikil breyting á Öxnadalsheiðinni við þessa fjárveitingu.

Eins og ég hef áður sagt, þá er sú afstaða, sem fram kemur í vegáætluninni til þessara fjallvega, fráleit með öllu. Menn verða að gera það upp við sig hvort þeir vilja við svo búið láta standa eða ekki. Menn mega ekki spyrja um það eitt hvort þessi heiðin eða hin sé í þessu kjördæminu eða hinu. Við, sem þessa till. flytjum, segjum: Þetta stenst ekki, þetta er ekki hægt. Og þá erum við tilneyddir, ef við ætlum ekki að vera með einhverja ábyrgðarlausa yfirboðstillögu, að benda á eitthvað annað sem má skera, sem verður að víkja. Það kann að vera að einhverjum finnist erfitt að sjá á bak fjárveitingum til brúargerðar yfir Borgarfjörð. En okkar sjónarmið betur verið að það væri fyrst og fremst hraðbrautakaflinn sem yrði að lækka ef heiðarnar ættu að fá sitt, og þá hefur okkur virst alveg augljóst að þessi frestun á brúargerð yfir Borgarfjörð væri sú frestunin sem beinast lægi við.

Ég fer a. m. k. 15–20 sinnum á ári akandi norður heiðar í gegnum Borgarfjörðinn, yfir Holtavörðuheiði og norður í land. Og ég get fullyrt það af reynslu minni að leiðin yfir Borgarfjörð, þótt hún sé erfið, sérstaklega vegna þess að gamla brúin yfir Hvítá er orðin nokkuð gömul og síkin þar fyrir vestan eru að sjálfsögðu óþægilegur farartálmi þegar miklar rigningar verða, þannig að fyrir hefur komið að vegurinn lokast alveg, þá verða menn að fara aðra leið, dálítið lengri leið upp Borgarfjörðinn, en ég verð hins vegar að segja það að sá farartálmi, sem við vitum af í Borgarfirðinum, er lítill hjá þeim farartálma sem Holtavörðuheiðin er. Það er alls ekki með nokkrum hætti sambærilegt. Og ég er sem sagt þeirrar skoðunar, ósköp einfaldlega, að meðan þetta mikla verkefni er óunnið, þá verði að reyna að spara á einhverjum öðrum liðum vegáætlunar þar til því hefur verið lokið. Ég er fús að beygja mig fyrir rökum um það að Borgarfjarðarbrúin verði að koma að einu eða tveimur árum liðnum. Það má vel vera að aðrar lausnir á þessu vandamáli séu einnig mjög dýrar. Og auðvitað verðum við að hafa góðan veg í gegnum Borgarfjörðinn. En mér sýnist á öllu að eins árs frestun a. m. k. væri ekki alvarlegt mál.

Hv. þm. Jónas Árnason stóð hér upp áðan og var nokkuð argur yfir till. þessari. Og hann stóð sem sagt upp hér til varnar þeirri brú sem hann hálft í hvoru kenndi við samþm. sinn Halldór Sigurðsson, hæstv. ráðh. Ég skal viðurkenna það að ég skil hann ósköp vel. Það er sjálfsagt óþægilegt þegar búið er að sýna tölur eins og þessar, risatölur, 500 millj., þá er svolítið sárt að sjá á bak þeim, sjá þær fluttar til um eitt ár. En það er hins vegar mesti misskilningur hjá Jónasi Árnasyni að hér sé um það að ræða að verið sé að flytja þetta í allt aðra landshluta að öllu leyti. Það stafar að sjálfsögðu af því, eins og hann sagði sjálfur, að hann hefur alls ekki kynnt sér till., er ekki búinn að fá hana í hendur og hefði þar af leiðandi átt að bíða með sína ræðu þar til hann var búinn að kynna sér till. (JónasÁ: Það var búið að tala fyrir till.) Það var ekki búið að tala fyrir till. en hins vegar hafði hana borið á góma í umr. í Ed. þar sem þessi vegarlagning var á dagskrá og var til umr. og var því ekkert óeðlilegt að frá þessari till. væri skýrt. Umr. í Ed. fjallaði einmitt um þennan veg, nákvæmlega sama veg sem ég er hér að gera að umtalsefni, og það hefði því verið mjög óeðlilegt ef ég hefði hvergi látið þess getið við þær umr.till. af þessu tagi væri á ferðinni. (Gripið fram í.) Já, og þær umr. urðu þegar á dagskrá var till. sem fjallar um veginn frá Reykjavík til Akureyrar, en mér skilst að brúin sé á þeim vegi, svo að það var sannarlega ekkert óeðlilegt að hún kæmi þar til umr. En eins og ég segi, það er mesti misskilningur að það sé að öllu leyti verið að taka þetta fé í önnur kjördæmi því að það er síður en svo að við teljum sanngjarnt eða eðlilegt að vestlendingar séu með öllu sviptir þessari fjárveitingu. Eins og ég hef hér rakið, þá er það Holtavörðuheiðin sem mundi m. a. fá góðan hlut í þessu fjármagni og helmingurinn af Holtavörðuheiðinni er einmitt í Vesturlandskjördæmi.

Í öðru lagi vil ég geta þess að á vegáætlun er gert ráð fyrir því að til hraðbrautaframkvæmda í Norðurárdal verði varið 35 millj. kr. Við flm. teljum að miðað við það, að Borgarfjarðarbrúnni sé frestað um eins árs skeið, sé eðlilegt að talsvert miklu meira fjármagni verði þá varið í staðinn til hraðbrautaframkvæmda í Norðurárdal, í þessu sama kjördæmi, og till. okkar er því um að hækka þá fjárveitingu úr 35 millj. í 70 millj., en þá fær Vesturland til hraðbrautaframkvæmda á árinu 1975 svipað fjármagn og mörg önnur kjördæmi. Norðurl. e. fær að vísu ívið meira af hraðbrautafénu, eins og menn vita, það mun vera 91 millj. sem ætluð er til hraðbrautaframkvæmda á Norðurl. e. Á Norðurl. v. er upphæðin 80 millj. á Vestfjörðum er upphæðin 38 millj. og á Austurlandi eru það víst 3 millj., — gæti það ekki verið? (Gripið fram í: Það er skuld.) Er það skuld, já, svo að það er ekkert þangað. Það er rétt að bæta hér Vestfjörðunum við, þeir eru víst með einhverja smáupphæð líka, ætli það séu ekki þessar 38 millj. sem fara á leiðina frá flugvelli til Hnífsdals. Ég tel því að Vesturl. sem slíkt væri fullsæmt af því að fá í fyrsta lagi 70 millj. kr. í veginn í Norðurárdal til hraðbrautaframkvæmda og síðan vænan skerf af þessu fé í þann hluta Holtavörðuheiðarinnar sem er í Vesturlandskjördæmi.

Ég veit að hv. þm. Vesturl. finnst kannske að Holtavörðuheiðin sé alls ekki í þeirra kjördæmi, og það er kannske vegna þess að þeir miða við að enginn geti komið í heimsókn til þeirra nema úr Reykjavík eða af Reykjanesi. En það er nú svo að stundum þurfa menn að sækja þá heim að norðan og af Ströndum og það þarf þess vegna ekki síður að vera greið leið til þeirra þeim megin frá.

Hv. þm. hafði þungar áhyggjur af því að með flutningi þessarar till. væri verið að leggja vopnin í hendur vini hans, hæstv. ráðh. Halldóri E. Sigurðssyni, sem mundi heldur en ekki notfæra sér það, að ég væri einn af flm. till., til að ofsækja sig pólitískt í kjördæminu. Og ég vil taka undir það að þetta er kannske ekki með öllu fráleitt ef höfð eru í huga þau orð sem féllu hjá hæstv. ráðh. í umr. sem fram fór um þetta mál í Ed. En ég þekki hæstv. ráðh. af gamalli reynslu og veit að hann kann kannske að reiðast í svip og segja eitthvað sem má kallast vanhugsað, en hann er ekki svo illa innrættur að hann mundi leyfa sér að beita slíkum bolabrögðum gagnvart pólitískum andstæðingi sem hefur þegar lýst skoðun sinni í þessum efnum.

Ég verð að segja það, að ótti þm. við að flutningur þessarar till. gæti haft einhver pólitísk áhrif á Vesturlandi, hann fól það í raun og veru í sér að hann gerði allt of lítið úr vestlendingum. Ég taldi hins vegar að það skorti nokkuð á hjá hv. þm. að hann ræddi rök með og á móti þessari till., ekki bara hvort þessi vegurinn eða hinn væri í hans kjördæmi eða ekki, heldur hvort hann teldi í raun og veru sanngjarnt og eðlilegt miðað við þarfirnar í vegakerfinu að þessar 500 millj. færu í þessa ákveðnu brú nú eða ekki, hvort þær færu í þessa fjallvegi. Hann sem sagt ræddi málið að mínum dómi út frá mjög þröngsýnum sjónarhóli. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, að í hvaða kjördæmi sem við erum, þá verðum við að vera menn til að taka málefnalega afstöðu til hvers máls. Það kann vel að vera að einhverjum á Vesturlandi þyki það súrt í broti, eins og ég hef áður sagt, að missa af þessari fjárveitingu og horfa upp á þessa frestun til eins árs. En kannske geta þá umr. um þessa till. og væntanlega samþykkt hennar orðið til þess að vekja menn, ekki aðeins á Vesturlandi, heldur í öllum kjördæmum, til umhugsunar um þau grundvallaratriði í vegamálum sem við verðum að hafa í huga þegar við afgreiðum vegáætlun.