15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4318 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Mér fannst nú votta fyrir því hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. þegar hann lauk ræðu sinni að hann væri farinn að kenna þess, hvað hann hefði verið þröngsýnn áður fyrr, og væri að reyna að gera sig eitthvað frjálslyndari í skoðunum en hann hefði verið í umr. í hv. Ed. og hér áðan. Ég ætla ekki að víkja að þessum hv. þm. strax, en verð að byrja á því að þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir samstarfið og datt þá í hug þegar hann var í sumar að hæla mér og sagði að ég væri svo góður landbrh. að menn ættu að kjósa sig. Þetta sýnir hvað þessi ágæti þm. getur verið skemmtilegur líka. (Gripið fram í: Ef tekið er mark á þessu.) Já, það er nú það merkilega að svo hefur verið, en það sýnir að hann hefur hæfileika til þess að tala sínu máli á annan veg en margir aðrir og notar þá hæfileika, sem eðlilegt er. Hitt er alveg rétt að hann veit ósköp vel að hér er um stórt og mikið vandamál að ræða og fylgir því eftir.

Það, sem ég vildi segja í upphafi máls míns, er þetta, að það, sem skortir á, er að okkur vantar meira fjármagn í vegina vegna þess hve dýrtíðin hefur þar sem annars staðar leikið okkur grátt. Og þrátt fyrir það að við höfum tvö- og þrefaldað og fjórfaldað framlög til veganna núna á einum 4 árum, þá er það svo að við höldum ekki í sem skyldi. Við höfum að vísu hækkað framkvæmdaféð frá því 1970, en frá 1971 tekst okkur það ekki eða tæplega miðað við þá fjárveitingu framkvæmda sem við erum með nú. M. a. er það að fjárveiting til viðhalds á vegum og sú leið, sem við nú höfum valið, að taka vetrarvegina dálítið sérstaklega tekur verulegar fjárhæðir til sín. Og allt er þetta háð þeirri verðbólgu sem ríkir í landinu og hefur því mikil áhrif á framkvæmdagetu okkar í vegamálum þótt við hefðum löngun til þess að gera þar stórt átak. Það orkar ekki tvímælis að við eigum geysilega mikið ógert í vegamálum, og það tek ég undir með hv. 5. þm. Norðurl. v. að við eigum að gera aðalvegina þannig færa að þeir séu sæmilega færir allt árið. Til þess að það megi gerast skortir mikið á og einn sá þáttur, sem þar kemur til, er vegurinn í gegnum Borgarfjörð. Ég gerði fyrr í vetur grein fyrir þeim málum mjög rækilega, og það er svo að nú í þessum mánuði hefur orðið að minnka þungaflutninga á vörubílum bæði til Borgarness, og annarra staða vegna þess að vegirnir hafa ekki þolað þá (RA: Það er nú víðar.) Já, já, þetta er víðar. En það er einnig hér í næsta nágrenni Reykjavikur, nema þar sem varanlegt slitlag er komið. Þessu skulum við gera okkur fullkomna grein fyrir, að mjólkurbílarnir, sem flytja mjólkina sunnan heiðar, — þá á ég við Skarðsheiði, — hafa verið hálffermdir nú upp á síðkastið og svo hefur verið með bílana úr Borgarnesi norður og vestur. Og eins og ég gat um í hv. Ed. í dag, hafa komið til mín vöruflutningabílstjórar úr Vesturlands-, Vestfjarða- og Norðurlandskjördæmum og kvartað undan þessu, að aðalvegirnir þyldu ekki umferðina og þann þunga sem þeir þyrftu að hafa á sínum bílnum, þess vegna væri þetta þeim dýrt, þeir gætu ekki flutt nema helminginn af þeirri flutningsgetu sem þeir að öðrum kosti hefðu. Þess vegna held ég að hv. þm. sé það öllum ljóst, þótt þeir séu að kýta svona smávegis, að þetta er það sem heitast brennur á okkur og mesta nauðsyn ber til að bæta úr.

Nú skal ég ekki eyða löngum tíma í að ræða um brúna yfir Borgarfjörð. En það mál hefur fengið meiri rannsókn en nokkurt annað vegamál hér á landi. Það hefur m. a. öllum verið ljóst, eins og ég gerði grein fyrir um daginn, að vegurinn inn fyrir Borgarfjörð, eins og kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, er þannig að hann getur ekki staðið lengi án þess að endurbætur komi til. Hann fer undir vatn ef koma meðalflóð í Hvítá og Norðurá, og þetta hefur mörgum sinnum gerst undanfarna vetur. Hann fer undir snjó, svo að traðirnar á Vestfjarðaslóðunum eru bílunum hærri, og auk þess eru svo brýrnar sem eru 40–70 ára gamlar. Það er öllum ljóst að það getur ekki beðið lengi að endurbæta þennan veg á aðalflutningaleið landsins, á milli Norður- og Suðurlands. Þess vegna er það að athugun á hvernig úr skuli bætt, það er það sem hefur verið gert. Og niðurstaðan er sú sem nú hefur verið ákveðin. Af þeim ástæðum þarf að fara í þessa framkvæmd núna.

Ef við berum þetta saman við till. frá fyrra ári, þá verð ég að játa að framkvæmdaféð fyrir Borgarfjarðarbrúna samkv. þessari vegáætlun er um 60 millj. lægri en á till. sem lögð var fram hér í fyrra, svo að það er nú ekki til þess að hæla sér af. Hins vegar tryggir þetta framkvæmdina og að hægt sé að vinna að málinu með skynsamlegum hætti. Það er allt undirbúið og meira að segja farið að panta efni til framkvæmdarinnar, sem eðlilegt er, því að þetta er búið að vera á vegáætlun í tvö ár.

Út af því, sem hefur verið rætt hér um hraðbrautirnar, vil ég segja að það, sem hv. þm. gera sér ekki grein fyrir, er að hraðbrautirnar verða til án ákvörðunar. Þær verða til vegna aukinnar umferðar og hluti af þjóðbrautunum gengur inn í hraðbrautaframkvæmdir. Þess vegna er það að þær lengjast ár frá ári og taka meira til sín. Ef litið er hins vegar á hraðbrautaframkvæmdirnar á þessari vegáætlun, þá er það svo að það eru 575 millj. kr. sem er ráðstafað nú. Hinn hlutinn, 285 millj., er bundinn með samningum við framkvæmd sem er verið að vinna austur í Flóa og er búið að gera samning við verktaka um og var gerð í fyrra. Hitt, 115 millj., er í Kópavogsveginum. Þessu verður ekki breytt. Það eru því 575 millj. sem við höfum til ráðstöfunar. Þessu skulum við gera okkur grein fyrir. En þetta einmitt með hraðbrautirnar og þjóðbrautirnar gerir það að verkum að nauðsyn ber til þess, eins og ég gat um í dag, að endurskoða vegalögin sjálf. Það er ekki orðið hægt að koma þessu fyrir með þjóðbrautir og hraðbrautir nema með þeirri mynd að menn sjá hana ekki fyrir sér með eðlilegum hætti. T. d. er mikið orðið af hraðbrautum í kjördæmi þeirra hv. þm. í Norðurl. v. þótt Holtavörðuheiðin sé það ekki. En það gerir það að verkum að þessi fjárveiting til hraðbrauta vex, m. a. vegna þeirra hraðbrauta, sem þar eru orðnar til. Þess vegna þarf að verða þannig að aðaleiðin í kringum landið verður að vera einn þáttur. Það hentar ekki að tala um hraðbraut og þjóðbraut, heldur er þetta bara aðalbraut í kringum landið og út frá henni koma svo tengivegir, eins og í sambandi við Snæfellsnes, við Vestfirði, á Austfjörðum, t. d. eins og Oddsskarðið, og annað því um líkt. Þessu þurfa hv. þm. að gera sér grein fyrir. Og þetta er það sem ég tel hina mestu nauðsyn að verði unnið að.

Nú ætla ég mér ekki að tala langt, eins og ég gat um áðan. En ég verð að segja hv. 5. þm. Norðurl. v. að ég sló honum gullhamra í dag og verð víst að fara að taka þá aftur. Ég sagði: Enginn frýr þér vits, en meira ertu grunaður um græsku. — En ég fæ ekki samhengið í skynsemina þegar þessi hv. þm. á sama tíma kemur hér í ræðustólinn og talar um nauðsyn þess að sinna hringveginum í kringum landið, en berst svo með hnúum og hnefum gegn því að verði afgreitt frv. sem á að útvega fé til þessara framkvæmda. Hvernig er hægt að leggja saman tvo og tvo og fá út fjóra þegar menn hugsa svona? Ég skil þetta ekkí, hv. þm. (RA: Ráðh. skilur þetta vel. Hann veit að ég er á móti fjáröflunarleiðinni.) Hv. þm. veit að við gerum ekki vegi nema með fjáröflun, og hann veit líka að við værum ekki að keyra nú yfir Skeiðarársand ef við hefðum ekki farið inn á þessa fjáröflun. Hann veit það einnig að vegna þessarar fjáröflunar erum við með 300 millj. í lántökunum í þeirri vegagerð sem okkur þykir þó of lítið fé til. Þess vegna finnst mér að hv. 5. þm. Norðurl. v. gæti einnig skilið það, að þessar 2 000 millj., sem hann vakir yfir þarna uppi í hv. Ed. um að koma í veg fyrir að séu notaðar í veginn á Holtavörðuheiði og víðar, geta komið að gagni, jafnvel þó að hans þröngsýni reyni að koma í veg fyrir það. Það er ekki hægt að tala samtímis um meira fjármagn til þess að leggja veg norður á Holtavörðuheiði og annars staðar og berjast svo með hnúum og hnefum gegn því að það sé hægt að ná í þetta fjármagn. Þetta er óframkvæmanlegt. Ég skil ekkert í hv. þm. að leggja sig í þetta, og það er von að flokksbróðir hans, hv. 5. þm. Vesturl., sé alveg gáttaður að hafa þennan mann fyrir formann í flokki sínum. Og það segir mér nú hugur um að hv. skemmtilegi landskjörni þm. að austan sé nú búinn að yrkja vísu um þessa skilgreiningu á hugsunarhætti hjá flokksformanni hans.

Nú skal ég ekki eyða lengri tíma í þetta, en út af till. á þskj. 797, sem er um veggjald, þá vil ég segja það að ég hef verið talsmaður þess arna og ef það væri komin hraðbraut eða varanlegur vegur upp í Brynjudal, þá hefði ég hiklaust verið með þetta á vegáætlun. Það þýðir ekki að fara í svona mál með hlaupum því að það kostar sitt að setja upp varðskýli eins og þessi og það verður að undirbúa það mál vel. Ég álít að það sé réttmætt að greiða fyrir þetta, og hef sagt það og mun standa við það, að ef ég verð hér á þingi þegar Vesturlandsvegur er orðinn eitthvað sem heitir úr varanlegu efni, þá mun ég standa að þessu. En ég tek undir það með hv. 11. landsk. þm., að eins og nú standa sakir er ekki hagkvæmt eða ástæða til að fara í þetta, enda hefði þá verið eðlilegt að setja það strax inn í vegáætlun. Þetta mun ekki gefa okkur þær tekjur að það sé ómaksins vert að fara í þessa framkvæmd að sinni. Hins vegar tel ég að það eigi að skoða það mál betur og m. a. í samhengi við endurskoðun á vegalögunum.

Nú skal ég ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu en vona bara að hv. 5. þm. Norðurl. v. fari að leggja saman tekjumöguleika og framkvæmdamöguleika því að til þess ber nauðsyn.