28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti: Áfengisbölið er mikið vandamál og ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem berjast fyrir bindindi af dugnaði og einlægni. En hv. 5. þm. Vestf., sem talaði fyrir þessu máli áðan, stakk upp á því að málinu yrði ekki vísað til nefndar. Við vitum að áfengismálin eru það viðtæk og mikil vandamál, að það verður enginn sigur í þeim unnin á skömmum tíma. Eins og málin líta út í dag er þetta — mér liggur við að segja: eilífðarvandamál. Þess vegna mega þeir, sem berjast fyrir þessum hugsjónum, ekki gefast upp þó að eitthvað blási á móti. Ég tel því miður vera talsverðan uppgjafartón í þessari síðustu munnlegu till. frsm.

Hvort till., sem hér um ræðir, nær settu marki þó að samþ. yrði, jafnfortakslaus og hún er, skal ósagt látið. En ég vil eindregið taka kröftuglega undir orð hæstv. forsrh., sem hann lýsti hér úr ræðustól, að till. þessi fái þinglega meðferð og verði vísað til n. Það er einmitt svo um mál, sem erfitt er að ráða niðurlögum í eitt skipti fyrir öll, að það þarf að fjalla um þau, það þarf að ræða þau, reyna að leita skynsamlegra úrbóta, en ekki gefast upp við fyrstu umræðu.