28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa orðið um hvort vísa ætti málinu til n. eða ekki, vil ég aðeins segja þetta: Sannleikurinn er sá að þó að við flm. höfum viljað fara hér eðlilega leið og viljað vísa þessu máli til þeirrar n., sem það hefur heyrt undir, allshn., þá hefur þetta mál því miður aldrei farið til meðferðar þessarar n. N. hefur aldrei gert neitt í málinu, hvorki eitt né neitt. Ég held meira að segja að mér sé óhætt að fullyrða að hún hafi ekki einu sinni rætt það í sínum hóp hvað þá meira. Það er þess vegna og af þeirri einu ástæðu sem við lögðum þetta til og svo í öðru lagi til þess e.t.v. að fá hér nokkrar umr. um þetta mál, en ekki þá hvimleiðu þögn sem hefur ríkt hér í þingsölum í þau tvö skipti sem þetta mál hefur áður verið reifað. Þótt ekki væri af öðru en þessari till. okkar væri það gott, ef af því gæti skapast einhver umr.

Það er enginn uppgjafartónn í okkur gagnvart þessu máli. Við vorum það bjartsýnir að við héldum, að ef færi fram atkvgr. um þessa till. nú þegar, að það yrðu jafnvel algerlega öfug hlutföll í atkvgr. miðað við þá till., sem var áðan borin upp og felld með miklum glæsibrag. Við héldum sem sagt að hlutföllin kynnu að snúast algerlega við okkur í hag. Þetta reiknuðum við út frá þeim almenna stuðningi sem till. okkar hefur fengið alls staðar frá.

Ég er hins vegar örlítið undrandi á því og er ekki almennilega farinn að skilja enn þá, þyrfti sjálfsagt lengri tíma til þess að vita hvernig á því stendur að við hv. 9. landsk. þm. erum ósammála, að því er virðist, um till. og ýmislegt í sambandi við hana, en þó svo hjartanlega sammála um allt annað varðandi þetta málefni. Þó hygg ég að þarna sé á ferðinni spurningin um það hvort eigi í nokkru að hefta rétt fólks til að umgangast áfengi á þennan svokallaða siðmenntaða hátt. Lái mér hver sem vill, ég þekki bara ekki þessa tegund af menningu, þetta fyrirbæri að neyta víns á siðmenntaðan hátt. Ég þekki það ekki. Það má vel vera að það sé til, þó að mér sé ókunnugt um það. Ég veit ekki til þess að vínneysla leiði ekki til þess á einu eða öðru stigi að farið sé langt út fyrir mörk — að ég nú ekki segi almenns velsæmis.

Þegar hv. 9. landsk. talaði um að hún vilji ekki neyða fólk til að snerta ekki áfengi, furða ég mig á þeim orðum: neyða fólk til að snerta ekki áfengi í opinberum veislum. Ég vil nefnilega fullyrða að í mörgum tilfellum hafi fólk óbeint verið næstum að segja neytt til þess í opinberum veislum að neyta áfengis, óbeint að vísu, með því að halda eingöngu að fólki áfengum drykkjum í þessum veislum. Það hefur því miður oft viljað við brenna. Þá sjaldan ég kem í svona veislur þarf ég alltaf að gera sérstaka pöntun — hún er mjög lengi á leiðinni — á óáfengum drykk. Það tekur langan tíma. Það má einu gilda hvar ég er staddur í slíkum veislum, það tekur mjög langan tíma að fá þetta afgreitt, fyrir svo utan það hvað blessaður þjónninn verður forviða og undrandi — að því manni sýnist á augnaráðinu — á þessum aumingjaskap.

Það er alveg rétt hins vegar hjá hv. 9.landsk. þm., þetta er ekki nema smáhluti af vandamálinu. Það hef ég bent mjög ákveðið á í hvert skipti. En þegar hv. þm. lýsir ábyrgð á hendur þessum aðilum er hún algerlega að taka undir tillöguflutning okkar. Ég tel hana algerlega taka undir hann með því móti einmitt að lýsa ábyrgð á hendur þeim opinberu aðilum sem hér hafa gengið það langt að við teljum að ekkert annað komi til greina en að á þetta verði sett algert bann.

Það er alveg rétt, það er komið upp í huga mér aftur það ástand sem ég hélt að mundi ekki koma, þar sem ég var orðinn því algerlega fráhverfur um tíma að setja algert aðflutningsbann á áfengi, öll áfengisinnkaup, alla áfengissölu hér. Það er komið upp í huga minn aftur. Ástandið er orðið svo hrikalegt að maður veit hreinlega ekki til hvaða ráða á að grípa og eitthvað verður að gera. Ég hef álitið að almenningsálitið, m.a. mengað af opinberum aðilum, væri það neikvætt í þessum hlutum að það væri mjög erfitt að hugsa sér framkvæmd þessa banns.

Varðandi smyglið er því til að svara að því miður viðgengst þetta smygl í dag þrátt fyrir hömlulaust vínflóð á markaðnum innanlands, það viðgengst, blómstrar vel. Og bruggið gerir það líka, það viðgengst líka áreiðanlega mjög víða, því miður, þrátt fyrir þetta flóð.

Ég er viss um að það kemur að því að við verðum að taka einhverja stórákvörðun í þessu máli. Ég er algerlega sannfærður um það. Ég aðeins dreg fyllilega í efa að það megi kenna hvernig eigi að umgangast áfengi. Ég dreg það stórlega í efa. Þegar fólk er að tala um, að við eigum að gera kröfu til sjálfra okkar, þá eigum við um leið að sýna örlitla sjálfsafneitun. Spurningin er: Eigum við að gera kröfu til sjálfra okkar, en missa þó ekkert, eiga þetta þó til góða, t.d. í veislum hins opinbera?

Nei, það er engin tilviljun að við flytjum þessa till. Fyrir henni hefur verið talað áður, við sögðum það þá, segjum það enn, að eftir höfðinu dansa limirnir í þessu efni. Fordæmið kann að þykja lítils virði, en ég er viss um að það væri hvetjandi og í alla staði hið ákjósanlegasta. Það sanna t.d. viðbrögðin við þeirri ákvörðun hæstv. menntmrh. að banna vinveitingar í sínum veislum. Þau viðbrögð eru algerlega ótvíræð og ég vona að þau eigi eftir að hafa mikil og heilladrjúg áhrif.