28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti: Það dylst engum, sem hefur opin augun, að áfengisvandamálið er ein af verstu meinsemdum íslensks þjóðfélags í dag og fer stöðugt versnandi. Ég hef verið þeirrar skoðunar undanfarin ár að sú till., sem nú liggur fyrir og hefur fengið litlar undirtektir, væri góð út af fyrir sig, en næði allt of skammt. Hér á landi starfa margir aðilar að því að berjast gegn áfengisvandamálinu, bæði áhugamenn og stofnanir á opinberum vegum. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við það hvernig vandamálið er í dag og þjóðfélagið er í dag, þá sé þessi starfsemi orðin langt á eftir tímanum. Ég hef orðið var við það í öðrum löndum að farið er að taka upp harða áróðursbaráttu gegn þessu böll og þar eru notaðir þeir fjölmiðlar nútímans sem hafa áhrif sérstaklega á unga fólkið. Ég hef einnig orðið var við það að tónninn í þessari baráttu er orðinn allt annar. Það er ekki verið að berjast við menn sem hafa þennan veikleika og eru þar af leiðandi minni menn en hinir sterkari, heldur er viðurkennt að hér er um sjúkdóm að ræða. Mikið af baráttunni er farið að byggjast á þeim grundvelli, að reyna að vekja menn frá því sjónarhorni til að íhuga sína eigin stöðu og ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, að þeir eigi við einhver vandamál að stríða á þessu sviði, að fara þá til læknis. Með þetta í huga hripaði ég upp, eftir að ég heyrði framsöguræðu með þessu máli, brtt. um að tillgr. orðist á annan hátt er. hún er. Ég skal lesa brtt., með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að gangast fyrir stóraukinni sókn gegn áfengisvandamálinu og hagnýta þar mátt nútíma fjölmiðla í ríkum mæli svo og að allir opinberir aðilar gefi í þessum efnum gott fordæmi.“

Í síðustu setningunni er svo að segja alveg gengið til móts við till. eins og hún er, t.d. ekki lokað öllum dyrum fyrir — við skulum segja utanrrh., sem telur sig e.t.v. eiga erfiðara með að framkvæma þessa till. heldur en aðrir.

Ég vil leyfa mér að leggja þessa brtt. fram, og með því að fram er komin brtt. finnst mér sjálfsagt að við vísum málinu til n. Ég hafði hugsað mér að gera um það till., en þarf aðeins að taka undir þá till. sem hæstv. forsrh. hefur fram borið.