15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4332 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Hér var haldin ítarleg framsaga fyrir nál. þessu af frsm. heilbr.- og trn., hv. 5. þm. Reykv., og ég get tekið undir öll hennar orð. Ég held að það sé kominn tími til að Alþingi íslendinga hætti að fara að eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn gagnvart þessu geigvænlega vandamáli sem við öll erum í orði kveðnu sammála um að ofneysla áfengis sé í dag á Íslandi. Það er óneitanlega hláleg og í senn ógeðfelld staðreynd að einn af drýgstu tekjustofnum ríkissjóðs skuli fólginn í ágóða af sölu áfengis, svo hörmulegar afleiðingar sem sú mikla og sívaxandi sala hefur úti í þjóðfélaginu fyrir óhugnanlega stóran fjölda heimila og einstaklinga. Það liggur því í augum uppi að það er mikil og augljós sanngirniskrafa að ríkisvaldið taki ábyrga afstöðu til þessa mikla vandamáls sem stendur í beinu sambandi við þessa tekjulind ríkisins, sem er ágóði af sölu áfengis.

Frv. Odds Ólafssonar varð fyrir nokkrum og töluvert miklum breytingum í meðferð hv. Nd., þ. e. a. s. þeirrar n., sem um það fjallaði. Ég verð að segja að við fyrstu sýn fannst mér nokkur eftirsjá að 2. gr. í frv. hv. flm„ en 2. gr., sem nú er lagt til, að falli niður, fjallar einmitt um þann þátt senn ég tel brýnast að sinna í dag. Hv. frsm. n. gat þess raunar, sem er rétt, að í lögum um Gæsluvistarsjóð séu þessi atriði tekin til meðferðar. En þessi atriði, sem ég á við, eru einmitt þetta fyrirbyggjandi varnaðarstarf, sem hingað til hefur algerlega verið vanrækt. Þó að standi í lögunum skýrum stöfum að einn mikilvægur þáttur áfengisvarnastarfs sé rekstur ráðleggingarstöðva, afvötnunarstöðva, dvalarheimila og endurhæfingarstöðva, þá er enn ekkert slíkt til.

Það var talað hér um Gæsluvistarsjóð. Um árabil var framlag ríkisins 7.5 millj., hvað sem leið allri verðbólgu og verðrýrnun peninga. Því var þokað með mikilli ýtni og mikilli baráttu upp í 12 millj. um 2–3 ára skeið, nú síðustu árin hefur þetta framlag verið um 30–40 millj., að ég hygg, og hefur gengið óskipt til stofnunar drykkjumannahælis að Vífilsstöðum. Ég vil ekki gera lítið úr nauðsyn þessa hælis. En sumir hafa sagt, og ég er ekki frá því að það sé nokkur sannleikur í því fólginn, að kannske höfum við byrjað þarna á öfugum enda miðað við það hvaða starf bæri mestan fyrirbyggjandi árangur. Vífilsstaðahælinu er ætlað að taka við áfengissjúklingum sem vart er talið við bjargandi. Það, sem við þurfum í dag, er fyrst og fremst einhver aðstoð og einhverjar aðgerðir á fyrra stigi málsins, að hjálpa mönnum, sem haldnir eru drykkjusýki, áður en þeir eru það langt leiddir að þeim verður ekki bjargað við. Þess vegna legg ég ákaflega ríka áherslu á hlut félagssamtaka og áhugamanna, að þeir séu studdir í einlægu og fórnfúsu starfi sem þeir geta ekki innt af hendi til árangurs nema þeir hafi einhver áþreifanleg úrræði önnur en sína hugsjón og sinn áhuga. Þeir þurfa einfaldlega fjármagn til þess að geta reist endurhæfingarheimili, móttökustöðvar, afvötnunarstöðvar til þess að grípa inn í vandamálið áður en það er orðið óleysanlegt. Það er þessi þáttur starfs í þágu áfengissjúklinga sem hefur hvað grimmilegast verið vanræktur. Það er ekki bara sjúkrahúsvist sem við þurfum á að halda fyrir drykkjusjúka menn. Drykkjusýkin er á svo mismunandi stigi að sjúkrahúsvist þarf ekki að koma til nema tilfellið hafi verið vanrækt of lengi.

Ég vil taka eindregið undir orð hv. 5. þm. Reykv. og benda á að hér er ekki um pólitískt flokksmál að ræða, heldur mál sem ég tel að tími sé til kominn að Alþ. sinni og láti það ekki henda að einu sinni enn verði vísað frá og svæft mál sem stefnir að raunhæfum aðgerðum í þessu máli. Það er nógu lengi búið að viðhafa fallegar yfirlýsingar um skilning og áhuga á þessu vandamáli þó að nú fyrst sendi Alþ. frá sér eitthvað sem dugar. Þess vegna held ég að við hljótum að vera bjartsýn um að þessar 180 millj., sem frv. þetta gerir ráð fyrir að eigi með þessari fjáröflunarleið að renna til þessa málefnis, geri verulegt gagn og að við allir alþm. getum sameinast um að styðja þessa sanngirniskröfu og láta þar með mikið gott af okkur leiða í okkar bágstadda þjóðfélagi í þessum efnum.