15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4334 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru mörg góð mál sem eru flutt og er hreyft hér á hv. Alþ. og mál sem eru alveg sjálfsögð og eðlileg og við viljum mjög gjarnan hlynna að og auka fjárframlög til og menn segja: ja, þetta mál á að hafa forgang fram yfir önnur. Ég vil benda t. d. á uppbyggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í landinu. Ég tel, að þar vanti alveg tvímælalaust nokkur hundruð millj. til þess að byggja upp þá löggjöf, sem Alþ. hefur sett.

En svo komum við aftur að hinu dæminu, þ. e. fjáröfluninni á hverjum tíma. Þegar lagðir eru á skattar, þá koma aftur margir ræðumenn upp og tala um hve skattarnir séu háir og hvað séu lagðar á þungar byrðar. Við samþykkjum hér fjárlög og þau eru í gildi og við erum nýbúnir að samþykkja niðurskurð á fjárl. upp á hvorki meira né minna en 3 500 millj. kr. Við viljum draga úr eyðslustefnunni og draga úr fjáröflun hins opinbera. En þá kunna menn að segja: Ja, er þetta ekki allt önnur fjáröflun, að bæta 100 kr. gjaldi á hverja brennivínsflösku sem seld er? En nú hefur Áfengisverslunin verið tekjuöflun fyrir ríkissjóð, og ég vil benda á það að tekjuliðir fjárl. eru spenntir til þess ýtrasta og eftir efnahagslögin, sem nýlega voru sett, þá geri ég ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að nota hvern þann möguleika, sem fyrir hendi er, til þess að auka þennan hagnað. Þess vegna er auðvitað þetta fjármagn tekið af því sem ríkissjóður ella þarf á að halda.

Ég er mjög ánægður með þá brtt. meiri hl. n., sem er breyting frá upprunalegu frv., að gjald eða tekjuaukning skuli renna til Gæsluvistarsjóðs. Ég skal fúslega játa að ég var mjög óánægður við afgreiðslu fjárl. síðast, hversu lágt framlagið var til Gæsluvistarsjóðs, og reyndi að fá hækkun þar á. En á sama tíma og við erum að berjast við að reka ríkissjóð greiðsluhallalaust og samdráttur er í fjölmörgum greinum þjóðarbúskapsarins, verðfall á velflestum útflutningsafurðum okkar, þá verð ég að segja að á síðasta eða næstsíðasta degi þingsins sé ansi mikil bjartsýni ríkjandi og það úr hópi stjórnarsinna að leggja á 180 millj. kr. í þessu skyni. Ég er hræddur um að ef þessar raddir hefðu verið hér háværar frá stjórnarandstæðingum, þá hefði einhverjum stjórnarsinna orðið á að segja að hér væri um sýndartill. að ræða. Það er sitt hvað hvort það er gott mál og nauðsynlegt. Góðu málin eru mörg og þau eru nauðsynleg, en ef við segjumst ætla að halda fjárl. niðri, ætlum að lækka fjárlög sem eru í gildi, þá er þetta ekki leiðin til þess, að koma hér með útgjaldatill. upp á 180 millj. kr. Ég hygg að það væri svona skaplegra, hyggilegra að reyna að þoka hægt og rólega upp framlaginu til Gæsluvistarsjóðs í sambandi við fjárlög næsta árs. Hér er um of róttæka fjáröflun að ræða, fjáröflun sem ríkissjóður þarf tvímælalaust á að halda þótt síðar verði á þessu ári.

Þetta vil ég leyfa mér að benda þessum ágætu hugsjónamönnum og konum á. Það hvílir sú skylda á Alþ. og þá ekki síst þeim, sem styðja ríkisstj., að reyna að halda í horfinu og reyna að hafa hemil á fjármálum þjóðarinnar, og því megum við ekki láta tilfinningarnar og hita hugsjónanna leiða okkur af réttri braut.