15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4335 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um markaðan tekjustofn sem ætlað er að gefi 184 millj. kr. og samkv. þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. hv. heilbr.- og trn., er ætlað að renna til félagslegra framkvæmda á vegum Gæsluvistarsjóðs. Ég get tekið undir það sem hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði hér áðan, og ég er þeirrar skoðunar að styðja beri þá starfsemi, sem hér um ræðir, mjög myndarlega. En ég er andvígur mörkuðum tekjustofnum. Ég tel að Alþ. eigi við afgreiðslu fjárl. hverju sinni að ákvarða hvernig tekjum ríkissjóðs skuli varið. Ég er því eindregið fylgjandi till. minni hl. n. um að málinu verði vísað til ríkisstj.