15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og var breytt lítils háttar þar. Ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt þetta frv., er sú að Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga hafa bréflega óskað eftir því að frv. verði flutt og það gjald lögfest sem um ræðir í frv. Gjaldið er 0.1 % á seldar iðnaðarvörur og það á ekki að ganga inn í verðlagið, það á ekki að leiða til hækkunar á verði vörunnar. Það bréf, sem ég fékk í dag afrit af, var skrifað 1. mars 1974 til þáv. iðnrh. og í það hefur verið vitnað síðan. Ég tel ekki ástæðu til að lesa bréfið upp. Ég tel ekki heldur ástæðu til að fara að skýra frv., það var gert við 1. umr. hér í hv. d.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. Það eru 5 nm. af 7. Einn nm., hv. þm. Benedikt Gröndal, tók ekki afstöðu til málsins í n., en hv. þm. Magnús Kjartansson hefur skilað séráliti og vill ekki samþykkja frv.

Ég sé ekki ástæðu til svo seint á kvöldi að að orðlengja þetta meira, en meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. eins og það kom frá hv. Ed.