15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (3586)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Austf. fyrir ábendingarnar. Ég veit að það er vel meint og af góðum hug sagt, það sem hann sagði hér. En ég verð að upplýsa að það er á misskilningi byggt þegar hann heldur því fram að þetta mál hafi ekki verið athugað. Ég taldi ekki þörf á því að fara að setja hér upp langa ræðu um málið þar sem mörg mál eru enn óafgreidd á dagskránni og þetta frv. skýrir sig sjálft og bréfið sem ég vitnaði til og þm. vita um og einnig er allgóð grg. með frv. En til þess nú að athuga málið vel kallaði iðnn. á sinn fund formann Félags ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinason, manninn sem hv. 3. þm. Austf. hélt að væri búinn að skipta um skoðun. Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags ísl. iðurekenda, hafði það við frv. að athuga að því hafði verið breytt í Ed., taldi að sú breyting hefði orðið til hins verra, breytingin sem snertir lagmetisiðnaðinn. Það var ekki farið meira út í það. Hann sagðist ekki vera hrifinn af frv., sérstaklega eftir þessa breytingu, en taldi að undirskrift forvera síns gilti áfram fyrir hönd iðnrekenda.

Á fundi n. komu einnig formaður Landssambands iðnaðarmanna og framkvæmdastj. sambandsins. Áhugi þeirra var miklu meiri en formanns Félags ísl. iðnrekenda. Þeir höfðu mikinn áhuga á frv. og lýstu því yfir að það yrðu mikil vonbrigði fyrir iðnaðarmenn, Landssamband iðnaðarmanna, ef frv. næði ekki fram að ganga. Ég hef einnig sönnun fyrir því að Samband ísl. samvinnufélaga er sama sinnis og það var fyrir ári þegar áður nefnt bréf var skrifað.

Nú má vera að einhverjum hv. þm. finnist ekki taka því að taka alvarlega óskir þessara samtaka, Sambands ísl. samvinnufélaga, Landssambands iðnaðarmanna eða Félags ísl. iðnrekenda. En ég held að þar sem hér er um atvinnuveg að ræða og hann vaxandi eins og iðnaðinn, þá eigi ekki að gera honum lægra undir höfði en bændasamtökuaum og sjávarútveginum. Ég er sannfærður um að hv. 3. þm. Austf. veit að það eru tekin gjöld fyrir sjávarútveginn sem svo eru aftur endurgreidd útgerðarmönnum og sjómönnum og það er þeim mjög þóknanlegt að þetta sé gert. Ég get einnig upplýst að stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands mundu ekki vilja missa þess konar löggjöf sem hefur verið í gildi fyrir bændasamtökin í áratugi.

Ég held að það sé alveg sjálfsagt að verða við þessum óskum iðnaðarins, það sé alveg útlátalaust, það skapi engin fordæmi fyrir ýmis félagssamtök að fá lögfest eitthvað slíkt. Ég held að það sé auðvelt fyrir Alþ. að halda sig við atvinnuvegina og skapa möguleika fyrir atvinnuvegina með þessum auðvelda hætti að fá fjármagn til ráðstöfunar eftir eigin óskum.

Það er augljóst mál að iðnn. eða meiri hl. hennar hefur ekki afgreitt þetta mál blindandi. N. las frv., las bréfið og yfirheyrði trúnaðarmenn iðnaðarsamtakanna og gerði sér sjálfstæða grein fyrir málinu. Ég er sannfærður um það að eftir að hv. 3. þm. Austf. skoðar málið, þá á hann eftir að komast á sömu skoðun og meiri hl. iðnn. Þess vegna held ég að það væri hollt fyrir hv. 3. þm. Austf. að hafa ekki mjög mörg orð á móti þessu máli að svo stöddu, vegna þess að ég hef grun um að hann hafi ekki haft þann kunnugleika á málinu sem æskilegur er og nauðsynlegur er.

Sannleikurinn er sá, að það mun oft koma fyrir okkur þm. að okkur vantar kunnugleika á málum sem eru til afgreiðslu hér í þingi. En enginn vafi er á því að þm. eiga það sameiginlegt að vilja ávallt hafa það sem sannara reynist og þm. munu ávallt kappkosta að kynna sér málin eftir föngum. Ég þekki það vel hv. 3. þm. Austf. að ég vil treysta honum til að kynna sér þetta mál eins og önnur, og er það trúa mín að þá muni bann fá aðra skoðun á málinu en hann lýsti hér áðan.