28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi tjá þakkir mínar hæstv. forsrh. að forða þessu máli frá því að deyja í fæðingunni að þessu sinni. Auðvitað liggur í augum uppi að þetta á að ræða frekar hér á Alþ. og það sæmir alþm. ekki öllu lengur að umgangast þetta sem feimnismál sem enginn vilji tjá sig um. Það er of stórt í sniðum, þetta vandamál, til þess.

Hér hefur komið margt fram, sumt sem ég er algerlega sammála og annað sem mér finnst nokkuð mótsagnakennt. Ég heyrði ekki betur en hv. 5. þm. Vestf. lýsti því undir lok ræðu sinnar, að hann teldi boð og bönn ekki það sem lausnina mundi veita í þessu máli, heldur aðhald. Hér erum við hjartanlega sammála. (Grípið fram í: Ekki leysa allan vanda.) Hann er að fara fram á boð og bönn sem ég tel ekki að séu okkur sæmandi sem menningarþjóð að nota sem aðferð til lausnar vandamálinu. Ég sá ekki betur en þarna kæmist hv. þm. í mótsögn við sjálfan sig.

Hv. 7. landsk. sagði réttilega: Eftir höfðinu dansa limirnir. Ég sé ekki hvers vegna það getur ekki átt við gott fordæmi höfuðsins að því leyti að fyrirmenn þjóðfélagsins viðhafi vin og neyti víns, eins og ég hef áður sagt, eins og ábyrgir og siðaðir menn. Þarna erum við sammála. Við þurfum ekki algert vínbann til að ráða nokkra bót á ástandinu eins og það er núna. Við upprætum það sennilega aldrei, ég er ekki bjartsýnni en það, en við þurfum vilja til þess. Við þurfum vilja til þess af hendi þeirra sem ferðinni ráða. Þar á ég ekki bara við alþm., ráðh. og aðra svokallaða fyrirmenn í þjóðfélaginu. Ég á ekki síður við foreldra, uppalendur, kennarastétt og alla þá sem að mótun æskulýðsins vinna í þessu landi. Þess vegna hef ég alltaf talið ákaflega mikils virði að aukin áfengisfræðsla kæmi inn í skólana. Mér er kunnugt um það af störfum mínum í borgarstjórn Reykjavíkur að þessi mál hafa verið rædd af fræðsluyfirvöldum borgarinnar. Ég veit líka að það er fullur vilji þar fyrir hendi að ráðast í raunhæfa áfengisfræðslu í skólunum. En það er ákaflega mikið vandaverk. Nágrannaþjóðir okkar, sem hafa farið út á þessa braut, hafa reynt ýmsar leiðir. Sumar hafa mistekist herfilega, aðrar borið nokkurn árangur. Ég tel að ófarir annarra í þessu efni megi ekki hræða okkur frá að gera átak í skólamálum okkar til þess að liðsinna æskufólki í þessum efnum. En hvað sem líður hinu stóra hlutverki skólanna er það vitanlega fullorðna fólkið, heimilin, foreldrarnir, sem ég hygg að þarna ráði mestu um.

Ég er ekki tilbúin til að benda á eina ákveðna leið, eins og hv. 5. þm. Vestf. skoraði á mig að gera. Því miður, ég er ekki það stór í þessum málum, það fróð og það hyggin og vís að ég geti bað, því miður. Ég ímynda mér að það séu fáir sem treysta sér til þess. En um eitt er ég sannfærð og það er að ef við fáum almenningsálitið í líð með okkur, þá er okkur borgið. Ef við getum fengið tískuna í lið með okkur, að það þyki fínt að vera ófullur, þá er okkur borgið. Mér er ljóst að vandamest af öllu er að ráða við tískuna. En við hljótum að leggja okkar til til þess að hafa þarna áhrif. Þess vegna hef ég lagt þetta mikla áherslu á, að á opinberum vettvangi þar sem vin er haft um hönd, þar ráði menning ríkjum, en ekki að menn sjáist detta undir borðið í ölæði. Þetta eru atriði, sem ég er ekki að beina að þm. sem ásökun sérstaklega, en þetta hefur komið fyrir meðal okkar æðstu manna. Það er hart að þurfa að segja það, en við vitum að þetta er rétt. Og það þarf ekki ráðh. til, það eru fleiri fyrirmenn í þjóðfélaginu en alþm. og ráðh. Ég á við þetta á viðum grundvelli. Öllum þeim, sem treyst er fyrir ábyrgðarstörfum og njóta álits í þjóðfélaginu, ber skylda til að hafa þarna jákvæð áhrif og gefa gott fordæmi. Ábyrgð er ekki sama og bann og eins og ég sagði áðan, hv. 5. þm. Vestf. er mér sammála um að víð getum ekki tekið þessi orð sem eitt og hið sama. Ég tek ábyrgðina fram yfir bannið, og ég held að við viljum og ef við hættum að vera hrædd um að það sé hlegið að okkur fyrir afstöðu okkar, þá sé mikið unnið í þessum málum.

Um brtt. hv. 2. landsk. vil ég allt gott segja. Hún á fullan rétt á sér og er, held ég, í þeim anda sem við þurfum að vinna í þessum málum. Ég vildi ákaflega gjarnan, að hann hefði bætt því við að bæta áfengisfræðsluna í skólunum og ég treysti því að það komi þegar málið kemur til umr. í n., þá mætti bæta því þar inn í og raunar ýmsu fleiru, sem þarna mætti tiltaka.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir að það hafa orðið umr. um þetta mál og við alþm. höfum nú í millitíðinni meðan n. — ég vil ekki segja sefur á málinu, heldur fjallar um málið, þá höfum við okkar tækifæri til þess að koma okkar hugmyndum á framfæri. Ég vil líka benda á að það hefur hingað til veríð sýndur of lítill skilningur þeim sem af einlægni og dugnaði vinna að áfengisvarnarmálum á Íslandi. Það þyrftum víð að hafa í huga við gerð okkar endanlegu fjárl., því það er enginn vafi á því að þeirra starf gerir mikið gott í þessum málum og mundi leiða til meira gagns ef þeir hefðu aukið svigrúm og meiri fjárráð.