15.05.1975
Efri deild: 94. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til meðferðar og mælir með samþykkt þess eins og það er orðið í meðferð Nd. Undir þetta skrifa allir nm. iðnn.

Frv. er flutt af hv. þm. Sverri Hermannssyni og var í upphaflegri gerð þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um:

1) að lokið verði hið fyrsta við rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar (1. áfanga Austurlandsvirkjunar),

2) að leitað verði eftir kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum.“

Nd, breytti tillgr. þannig að hún er nú svo: „Till. til þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar.

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að Orkustofnun ljúki eins fljótt og við verður komið rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar.“

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég er því eindregið fylgjandi að þessari rannsókn verði hraðað. Þetta er ákaflega athyglisverð rannsókn, athyglisverð virkjun. Hún getur orðið stór ef menn vilja, en þarf e. t. v. ekki að verða það. Sérstaklega er nauðsynlegt að hraða þessari athugun í tengslum við hugmyndir um Bessastaðaárvirkjun.

Ég held að það út af fyrir sig sé nægilegt verkefni á þessu stigi og eigi ekki að fara að tengja það notkun orkunnar á einn máta eða annan.

Ég get einnig sagt það hér að mér er ekki kunnugt um neinar áætlanir um að reisa stóriðju á Reyðarfirði, og upplýst að jafnvel er síður svo nú en áður var.