16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4360 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar alllangar og ég skal ekki lengja þær mikið, en mig langaði aðeins að vekja athygli á þeirri staðreynd, sem mér fannst koma út úr ræðum flestra ræðumanna við þessa umr., að raunverulega erum við sammála, við viljum fá sem mest fjármagn til vegagerðar, og þess vegna sé það raunverulega aukaatriði, sem skiptar skoðanir eru um. Mér fannst það koma nokkuð fram í gær eins og væri verið að deila um allt fjármagn til vegagerðar, þess vegna þyrfti að dreifa sem mest því fé sem gert væri ráð fyrir að afla á þennan hátt. En þetta er sem betur fer vitanlega ekki nema lítill hluti af því sem rennur til vegagerðar. Og það má benda á að samkv. vegáætlun, sem nú er verið að afgreiða frá Alþ., er fjármagn til þessara vega, sem talað er um í þessu frv., árið 1975 629 millj. og 1976 778 millj. Ég held að ef við fáum fjármagn til viðbótar til þessara vega, þá muni það létta á og auðvelda vegaframkvæmdir alls staðar á landinu. Það, sem við erum að gera með þessu, er að reyna að fá fjármagn til viðbótar til vegagerðar, til viðbótar við allt það fjármagn sem við getum útvegað á annan hátt. Fjvn. hefur samkv. vegáætlun ekki talið fært að gera till. um útvegun á meira fjármagni á þessu ári með öðru móti, en þetta á að vera til viðbótar því sem hægt er þá að útvega á hagkvæmari hátt.

Ræður Ragnars Arnalds, hv. 5. þm. Norðurl. v., hafa verið með nokkuð öðrum hætti en ræður annarra ræðumanna við þessar umr., og mér finnst hafa verið erfitt að átta sig á því hvað hann var að fara. Ég vil aðeins vegna ummæla hans í gær hér um nefndarstörfin taka fram að það var ekki tekið neitt málfrelsi af mönnum í fjh.- og viðskn. þegar þetta mál var til umr. og afgreiðslu. Menn gátu rætt þetta eins og þeir óskuðu eftir, og það mátti segja að menn væru að miklu leyti sammála um afgreiðslu málsins. (RA: Þeir sem voru á fundi.) Já, hitt er svo aftur annað mál hvað menn hafa tíma til að mæta á fundum á Alþ. Hins vegar ef alþm. geta ekki mætt, þá eru það náttúrlega miklar annir við önnur störf ef þeir geta ekki einu sinni haft samband við formann n., spurt hvað er til umr. og óskað þá eftir því að halda fundi um það aftur þegar þeir gætu gefið sér tíma til að mæta á fundum hjá alþingisnefndum.

Eins og ég sagði, þá fannst mér ræður þessa hv. þm. vera nokkuð undarlegar að ýmsu leyti og ég ósammála þeim á margan hátt. Hann lagði t. d. mikla áherslu á þá skoðun, sem kom fram í álitum sem n. bárust, að það ætti að vinna að vegagerð þar sem það væri skynsamlegt frá vísindalegu og fjárhagslegu sjónarmiði. Ég er þessu algerlega andvígur. Ég tel að við eigum að vinna að vegagerð fyrst og fremst þar sem þörfin er mest, en ekki þar sem gróðinn er mestur. Ég held að fyrir okkur, sem úti á landi búum, þá sé það það sem við þurfum að stefna að. Það er ekkert tekið fram í þessu frv. að þetta eigi að ganga til varanlegs slitlags. Þetta á að ganga til vegagerðar, en ekkert nefnt frekar til varanlegs slitlags. Og vegna ummæla, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. viðhafði þegar hann spurði af hverju mætti ekki byrja á vegagerð út frá Akureyri, þá held ég að hann hafi ekki athugað nógu vel vegáætlun Mig minnir að það standi á vegáætlun, sem nú er verið að afgreiða, að það eigi að leggja 180 millj. kr. til vegagerðar út frá Akureyri á þessu ári, þannig að það er einmitt verið að gera það sem hann var að benda hér á, eða gert ráð fyrir að gera það. (StJ: Ég sagði til vesturs og austurs út frá Akureyri.) Já, er ekki Svalbarðsströnd til austurs frá Akureyri. (StJ: Ekki Vaðlaheiðin.) Svalbarðsströnd, já, það er unnið að vegagerð þar líka á hraðbraut og eins og ég sagði, þá er þetta aðeins hluti af því fjármagni, sem er varið til hraðbrauta, og væntanlega reiknum við ekki með því að það verði farið að draga úr fjármagni til hraðbrauta þótt þetta verði samþ. Það held ég að engum detti í hug.

Í sambandi við umsagnir þær, sem bárust til n., þá er rétt að viðskiptabankarnir voru andvígir þessu. Þeir voru andvígir því að það væri verið að verja fjármagni til þessara framkvæmda. En ég held að það væri nákvæmlega sama um hvaða framkvæmdir væri að ræða, þær mundu alltaf draga úr fjármagni til annarra hluta. Ef við verjum fjármagni í eitthvað, þá er ekki hægt að nota það til annarra hluta, hvorki til að leggja það inn í banka eða til annarra framkvæmda. Og ég held að það hafi einmitt komið fram í ræðum flestra í gær að þeir teldu að vegagerð væri ein af þeim framkvæmdum sem ættu að hafa forgang, og það er einmitt það sem við erum að leggja áherslu á, að við viljum reyna að verja sem mestu fjármagni til þess arna. Og það er einmitt það sem kom fram í þessum umsögnum, að með þessu væri verið að veita vissum framkvæmdum forgang. Þeir töldu að það væri ekki æskilegt. En það, sem kom fram í málflutningi flestra hv. alþm., er að þeir vilja veita þessum framkvæmdum forgang. Hér er þess vegna um beinan skoðanamun að ræða milli þessara stofnana og hv. alþm. og ég held að þar verði okkar skoðanir að ráða.