28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

13. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Till. samhljóða þessari var flutt á síðasta þingi, en varð ekki útrædd. Hún er endurflutt núna. FIm. eru auk mín 9 aðrir þm. Framsfl.

Grg. með þessari till. er ákaflega svipuð og var í fyrra, en þó hefur verið reynt að breyta kostnaðartölum nokkuð samkv. upplýsingum sem við höfum bestar fengið. Þar er einnig rakið að með þeirri áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins, sem vinstri stjórnin hratt í framkvæmd og lögð var fram á Alþ. í nóv. 1971, er gert ráð fyrir því að 765 býli af þeim 930, sem þá höfðu ekki rafmagn frá samveitu, hlytu þessi gæði nú. Þessi framkvæmd hefur að vísu dregist nokkuð, henni átti að ljúka á þessu ári, en svo hefur ekki orðið. Hins vegar hygg ég að ráð sé fyrir því gert að takast megi að ljúka þessari áætlun á næsta ári.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem lagðar voru fram með þessari áætlun, eru 158 býli utan þessarar þriggja ára áætlunar. Það skal viðurkennt, að þetta hefur breyst nokkuð. Ef til vill hafa einhver býli farið í eyði og raunar er á því enginn vafi og nokkur býli hafa fengið rafmagn þótt ekki væri ráð fyrir því gert í þriggja ára áætluninni, en í heild hygg ég að fjöldinn sé ákaflega svipaður, a.m.k. svo að engu máli skiptir.

þeirri grg., sem fylgdi fyrrnefndri áætlun, var jafnframt greint frá því, að kostnaður við tengingu þessara býla væri áætlaður 133 millj. og 204 þús. kr. En kostnaður við tengingu þeirra 765 býla, sem tengja á, var áætlaður 291 millj. rúmlega.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því að meðalfjarlægð milli býla verði nú færð úr 3 km í 6 km. Mér sýnist að með þessu móti ætti slík tenging að ná til 131 býlis af þeim 158 sem eftir eru. Ég hef gert tilraun til að áætla kostnað við tengingu þessara býla. Á s.l. vetri var okkur gefið upp í raforkumálaskrifstofunni að kostnaður hefði hækkað, frá því að áætlun var gerð, um um það bil 60%. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið nú, hef ég leyft mér að áætla, að kostnaðurinn sé orðinn um það bil 100% hærri en hann var, þegar tilnefnd áætlun var gerð þ.e.a.s. að hann hafi tvöfaldast. Samkvæmt því yrði kostnaðurinn við tengingu þessa 131 býlis 189 millj. 466 þús. eða meðalkostnaður nú á býli 1 millj. 446 þús. kr. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta séu ekki háar tölur og raunar það lágar tölur að í þjóðfélagi, sem er með 45 milljarða fjárlög, sé til skammar að stíga ekki þetta skref og koma þessari nauðsynlegu þjónustu, þessari grundvallarþjónustu fyrir byggð til þessara býla. Þetta er átak, sem þjóðfélagið sameiginlega ber að taka. Vel getur verið að einhver tölufróður maður geti sest niður og reiknað að meðalkostnaður á býli sé of hár, það sé ekki arðbært að leggja í slíka fjárveitingu fyrir sum hin smærri býli. Ég efast ekki um það. En því miður hefur mér sýnst, þegar ég hef skoðað þær tölur, að í þeim tölum séu ekki tekin til greina fjölmörg atriði sem raunar verða aldrei reiknuð í slíkum arðsemisáætlunum. Mikilvægt atriði í þessu sambandi sem öðrum er það, hvort við viljum byggja þetta land sem best og sem víðast, hvort við viljum nýta gæði þess og veita íbúum, sem vilja byggja hina ýmsu útkjálka landsins, aðstöðu til að gera það. Það er þetta sem ég tel mikilvægara en nokkurn arðsemisútreikning. Lagt er til að þetta átak verði gert á tveimur árum.

Sú upphæð á ári hverju, sem hér er um að ræða, heildarupphæðin, er raunar minni en kostnaður á einu ári nú. Vel má spyrja hvers vegna skrefið er þá ekki tekið til fulls og þau 20–25 býli, sem eftir verða, einnig tengd. Í allmörgum tilfellum er þar um mjög miklar fjarlægðir að ræða, og ég hygg að það sé óumdeilanlega skynsamlegra að veita þessum býlum sömu aðstöðu á annan máta. Því er jafnframt lagt til í þessari þáltill. að lagðar verði fram till. um viðunandi lausn á raforkumálum þeirra býla sem ekki hafa verið tengd samveitu að áætlanatímabilinu loknu. Þetta mætti gera t.d. með rekstri dísilstöðva, í sumum tilfellum sameiginlegra fyrir fleiri en eitt býli, — dísilstöðva sem reknar yrðu af hinu opinbera og raforkuverð jafnað, miðað við það, sem það er frá samveitum. Hins vegar er jafnframt sjálfsagt að endurskoða slíka framkvæmd, og vel má vera með hækkuðu verðlagi á landi og meiri nauðsyn e.t.v. að byggja ýmsa staði sem allra best, að rétt verði talið að tengja slík býli samveitu þótt kostnaðarsamt sé.

Í 2. lið þessarar þáltill. er lagt til að fjarlægari býli innan sveitarfélags skuli látin njóta meðalfjarlægðar. Við framkvæmd núv. 3 ára áætlunar hefur allmjög borið á því, að fjarlægari býli innan sveitarfélags hafa verið skilin eftir, jafnvel þótt meðalfjarlægðin, þegar á heildina er litið, yrði innan við 3 km, þ.e.a.s. að slíkum býlum meðtöldum. Þetta er framkvæmd sem ég hef aldrei fengið skilið og tel óafsakanlega. Við flm. töldum því nauðsynlegt að girða fyrir þetta með slíku ákvæði í þessari tillögu.

Jafnframt er í 3. lið till, tekið fram að býli, sem í gildandi áætlun hafa veríð skilin eftir vegna fjarlægðar, þrátt fyrir það að meðalfjarlægð innan sveitarfélagsins hefði orðið innan við 3 km, skuli tengd samveitunni í fyrsta áfanga hinnar nýju áætlunar sé þess óskað. Ég get nefnt þess dæmi að jafnvel bestu býli í sveitarfélagi hafa verið skilin eftir, þrátt fyrir það, eins og ég sagði áðan, að meðalfjarlægð á milli býla í sveitarfélaginu í heild hefði orðið innan við 3 km að þeim meðtöldum. Ef hins vegar er litið á þessi býli sérstaklega, þá er meðalfjarlægð til þessara býla jafnvel yfir 6 km og þau kæmust ekki inn í þá áætlun sem hér er verið að ræða um. Mér sýnist því að hér sé fyrst og fremst um leiðréttingu á mjög vafasamri framkvæmd að ræða og því beri í fyrsta áfanga að leiðrétta þau mistök sem þar hafa orðið.

Ég tel óþarft að flytja lengra mál fyrir þessari till. til þál. Grg. er sæmilega ítarleg og ég flutti fyrir henni alllangt mál á síðasta þingi. Ég vil aðeins í lokin leggja áherslu á það að hér er ekki um svo stóra fjárhagslega skuldbindingu að ræða að nokkur erfiðleiki eigi að vera fyrir okkur íslendinga að framkvæma það sem hér er lagt til.

Ég vil leggja til að till. verði að lokinni umr. nú vísað til hv. fjvn. Hún var þar í fyrra.