16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4362 í B-deild Alþingistíðinda. (3639)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Það mun nú vera réttur sólarhringur síðan hv. þd. fékk þetta mál til afgreiðslu, frv. til l. um fæðingarorlof, breytingar á atvinnuleysistryggingum. Heilbr.- og trn. hefur haldið tvo fundi um málið og boðað til sín stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og farið yfir þær umsagnir er borist höfðu til Nd. við meðferð málsins. N. hefur sent frá sér svo hljóðandi álit:

N. leggur til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu er hún leggur fram till. um á sérstöku þskj.

Halldór Ásgrímsson tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins.“

Undir þetta rita allir aðrir nm., en Ásgeir Bjarnason ritaði undir með fyrirvara.

Brtt. n. er á þá leið að í staðinn fyrir að lögin öðlist þegar gildi komi: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1976.“

Þetta frv. er borið fram til þess að ráða að hluta til bót á allmiklu misrétti í þessu þjóðfélagi. Viss hópur kvenna hefur um fjölda ára haft fæðingarorlof í 3 mánuði eftir barnsburð, en hér er átt við þær konur sem vinna hjá opinberum aðilum. Aftur á móti hafa flestar þær konur, sem vinna úti, en vinna hjá öðrum atvinnurekendum, aðeins hálfs mánaðar til þriggja vikna orlof eftir barnsburð. Nú er það vitað mál að það er mjög mikils virði fyrir konuna og barnið að geta verið saman fyrstu mánuði barnsins. Einkum er það talið mikilvægt að barnið geti verið sem lengst á brjósti, en við það að fleiri og fleiri konur taka þátt í atvinnulífinu hefur nokkuð dregið úr þessu. En hins vegar virðist nú vera að koma á þetta annar blær, fleiri konur hafa hug á að hafa börn sín á brjósti. En til þess þurfa þær tíma, til þess þurfa þær að geta sinnt þeim fyrstu mánuðina. Og þetta frv. er flutt sem áfangi á þeirri leið að allar konur í þjóðfélaginu geti fengið fæðingarorlof eða fæðingarpeninga fyrstu mánuðina eftir barnsburð. En það er með þetta eins og fleira að stökkið verður ekki tekið í einu og þess vegna leggjum við mikla áherslu á að þessi stóri áfangi verði nú tekinn þannig að eftir verði aðeins þær konur sem eru heimavinnandi. Vonum við að ekki verði langt að líða uns að þeim komi með þetta réttlætismál.

Lagt er til í frv. að Atvinnuleysistryggingasjóður taki að sér þessar greiðslur. Við fengum á fundi í n. stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hún var að sjálfsögðu uggandi yfir þeirri þróun að meira væri lagt á sjóðinn heldur en hann væri fær um að sinna, taldi þar að auki að fæðingarorlof ætti ekki heima þarna, heldur í sjúkratryggingum. Nú er það að vísu rétt að í nágrannalöndum okkar, þar sem fæðingarorlof er þrír mánuðir eða meira, jafnvel 6–9 mánuðir, þá er þetta venjulega greitt af sjúkratryggingum. En þá verður líka að taka tillit til þess að þeirra sjúkratryggingar eru nokkuð öðruvísi byggðar upp heldur en almannatryggingar okkar. Þær eru byggðar upp af greiðslum frá ríki, frá bæjarfélögum, frá launþegum sjálfum og frá atvinnurekendum. Okkar almannatryggingar eru fyrst og fremst byggðar upp af ríkissjóði, en að nokkru af atvinnurekendum. Spursmálið er hvort það er Atvinnuleysistryggingasjóði ofviða að taka að sér þetta verkefni. Því er ekki að neita að eins og ástandið er í dag, þá er nokkuð dökkt yfir hjá Atvinnuleysistryggingasjóði með reiðufé. Hafa þeir þá í huga að þeir hafa lofað allmiklu af lánum og þar að auki ber lítils háttar á atvinnuleysi og þess vegna finnst þeim, auk þess að þeir álíta að málið heyri ekki undir þá, erfitt að taka að sér slíkar skuldbindingar núna. Þess vegna er þessi brtt. okkar orðin til, að það gefist þarna tími til að athuga á hvern hátt sjóðnum sé kleift að sinna þessu verkefni.

Um það hve verkefnið er stórt er ekki gott að segja, en líklegt er og byggt á nýjustu upplýsingum að um 700 fæðingar muni vera að ræða á ári. Fæðingar í þessu landi eru um 4400 og er talið að það geti varla komið til að þær fari mikið fram úr 700 sem taka til þeirra hópa kvenna sem þarna er um að ræða. Með þessari tölu mundi hin árlega greiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði nema um það bil 75 millj. kr. Atvinnuleysistryggingasjóður er mjög öflugur sjóður með nærri 3 milljarða í eign. Hins vegar er allmikið bundið fé og kemur þá til athugunar hvort hægt væri að losa eitthvað um af því fé, sem nú er bundið, þannig að honum yrði auðveldara að sinna þessu mikilvæga verkefni. Og þar sem hann fær nú nokkurn tíma til umhugsunar og til þess að aðlaga sig þessu framtíðarverkefni, þá teljum við að það ætti að verða auðvelt að finna þá leið. Það, sem skeður með Atvinnuleysistryggingasjóðinn nú, er að of mikið af hans fé er bundið í verðbréfum sem ekki er hægt að selja. Kæmi þess vegna mjög til greina að eitthvað yrði þar um liðkað og í staðinn yrði tekin upp sú regla að kaupa verðbréf sem væru auðseljanleg, þ. e. a. s. vísitölutryggð verðbréf og mundi það auðvelda sjóðnum og gera hann hæfari til að vera viðbúinn skyndilega auknum verkefnum, t. d. ef atvinnuleysi brysti á meira en reiknað hafði verið með. Þegar þetta er haft í huga, þá getum við ekki séð annað en sjóðnum ætti að vera fengið þarna verðugt verkefni, því að hann hefur nú þegar tekið að sér ýmis önnur verkefni en beinlínis þau sem upphaflega voru ráðgerð hans verkefni. Hér er um verkefni að ræða þar sem sú staðreynd liggur fyrir að konur, sem taka laun, missa af sínum launum um ákveðinn tíma, ekki vegna sjúkdóma, heldur vegna þessa ástands sem getið hefur verið. Og eina undantekningin, sem í raun og veru er tekin fram í lögum Atvinnuleysistryggingasjóðs, er að hann skuli ekki veita bætur þegar einstaklingur er atvinnulaus eða án vinnutekna vegna sjúkdóma.

Ég ætla nú vegna tímans ekki að segja miklu meira um þetta mál. Það ber öllum saman um að hér sé um mikið hagsmunamál fyrir launþega að ræða. Það ber öllum saman um að hér sé um réttlætismál að ræða. Það er aðeins deilt um leiðirnar. N. lítur svo á að með því að hafa þennan fyrirvara uppi um gildistöku laganna, þá ætti að vera auðvelt að ráða fram úr þeim annmörkum sem stjórnendur sjóðsins sjá á því verkefni sem við ætlum að fela honum. Og við teljum að hér sé um svo merkilegt mál að ræða að sjálfsagt sé að samþykkja frv. með þessari breytingu.