16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4370 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki kvatt mér fyrr hljóðs um þetta mál og mun ekki halda langa tölu. Ég vil lýsa yfir því að ég er fylgjandi því frv., sem hér um ræðir, efnislega, en ég þykist viss um að á frv. séu tæknilegir gallar og tel þá þann fyrstan og mestan, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson gerði fyrst grein fyrir í gær og hv. þm. Halldór Ásgrímsson fjallaði um í ræðu sinni fyrir skemmstu, að ótalinn er sá fjöldi kvenna, og þ. á m. e. t. v. þær sem síst skyldi, sem yrði hér settur hjá um fæðingarorlof. Það eru þær konur t. d. sem hafa á höndum sér eitt eða tvö kornabörn fyrir og fá síðan það þriðja til viðbótar og hafa af þeim sökum ekki getað unnið úti 2–3 síðustu árin. Það eru sveitakonurnar og það eru sjómannskonurnar, og kynni svo að fara að þær konur, sem settar yrðu hjá við þessa lagasetningu, reyndust mun fleiri en hinar. Ég er ekki alveg viss um að með samþykkt þessa frv. næðist áfangi í sókninni til þess að allar konur fengju notið fæðingarorlofs. Ég er uggandi um að samþykkt frv. kynni jafnvel að reynast þröskuldur á þeirri vegferð. Annar megingalli á þessu annars ágæta frv. er sá að hér er til þess ætlast að fé verði tekið úr sjóði til framkvæmda í sambandi við þetta frv., — sjóði sem, er til annars ætlaður. Ég tek það enn fram að ég er efnislega fylgjandi þessu frv., en af þessum ástæðum, sem ég hef þegar rakið, gerist ég meðflm. að dagskrártill. þeirri sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson gerði grein fyrir áðan. Ég vil taka það hins vegar fram og bið hv. þm. endilega að minnast þess og gleyma því ekki að þessi dagskrártill. hefur ekki verið rædd í þingflokki Alþb. og mér er kunnugt um að til eru þeir menn í þingflokki Alþb. sem eru þessari dagskrártill. andvígir.

Þessi dagskrártill. mun ekki tefja framgang þessa máls ef að verður unnið eins og flm. ætlast til. Eins og hv. 5. þm. Austf. greindi frá mundi frv., þótt að lögum yrði, ekki koma til framkvæmda fyrr en í jan. 1976, og verði hæstv. ríkisstj. við áskorun þm. um það að leggja fram frv. um fæðingarorlof þar sem svo verði um hnútana búið að allar konur njóti þessara hlunninda — verði hæstv. ríkisstj. við þessum tilmælum að leggja slíkt frv. fram þegar á haustþingi. þá gefst hv. Alþ. tími til þess að afgreiða það fyrir jólaleyfi.

Ég vil enn ítreka þetta atriði, að þingflokkur Alþb. hefur ekki fjallað um þessa dagskrártill. og mér er kunnugt um að ekki ríkir einhugur um hana í þingflokknum. En til sannindamerkis um að mér er það fullkomin alvara, mér er það alhugað að fylgja efni þessa frv. fram, þá vil ég nú lýsa yfir því að fari svo að hæstv. ríkisstj. verði ekki við tilmælum Alþ. samkv. þessari dagskrártill., ef samþ. yrði, um að leggja fram frv. um fæðingarorlof á haustþinginu, þá mun ég fara þess á leit við hv. flm. þessa frv. á vetri komanda að fá að verða þess heiðurs aðnjótandi að verða meðflm. að þessu frv. eða öðru álíka er málið yrði tekið upp að nýju, og þá mundi ég eigi hirða um úr hvaða sjóði, sem Alþ. hefði tök á, þeir peningar yrðu teknir sem með þyrfti til þess að hrinda þessu máli fram.