16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4371 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Strax og ég sá þetta mál sýndist mér það gott mál og þarft. Hins vegar, á þeim stutta tíma sem við höfum haft það til meðferðar í þessari d., þá hef ég hlustað á ýmis rök bæði með og móti og ég hef einnig sannfærst um að þetta mál þarf að skoðast töluvert betur í heild sinni. Það er einkum tvennt sem ég ber fyrir brjósti.

Í fyrsta lagi þarf slíkt fæðingarorlof að ná til allra kvenna í landinu. Að vísu er nokkur hópur sem nýtur þess nú, og segja má að hér sé mikilvægt skref stigið í rétta átt. En ég tel þó að það væri æskilegra að skoða sem fyrst hvernig má láta þetta ná til allra kvenna.

Í öðru lagi sýnist mér einnig ljóst að ekki hefur verið nægilega athugað hvort Atvinnuleysistryggingasjóður getur staðið undir þessum útgjöldum án þess að fá viðbótartekjustofn.

Nú hefur meiri hl. n. í þessari d. lagt til að breyting verði gerð á 2. gr. þessa frv. þannig að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1976. Það breytir töluvert mínum viðhorfum. Mér sýnist að hér skapist þá rúm til þess að skoða betur á hvern máta megi tryggja, eins og ég sagði áðan, öllum konum í landinu slíkt fæðingarorlof og tekjur í þessu skyni. Komin er fram frávísunartill. sem ég tel að mörgu leyti eðlilega. Ég mun fylgja þeirri frávísunartill. ef brtt. n. um gildistíma nær ekki fram að ganga. Hins vegar ef sú till. nær fram að ganga, sýnist mér að skynsamlegra sé að samþykkja þetta frv., en bæta við ákvæði til bráðabirgða þar sem ríkisstj. verði gert að skoða þetta mál nánar, kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og jafnframt skoða tekjustofninn. Gætu þá legið fyrir upplýsingar um slíkt áður en lögin taka gildi og a. m. k. hugmyndir um á hvern máta að þessum málum yrði áfram unnið. Þetta tel ég mjög mikilvægt og hef því ákveðið að leggja fram brtt. um ákvæði til bráðabirgða svo hljóðandi:

„Fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum: í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Mér sýnist að tími sé nægur til þessa fyrir 1. jan. 1976 og mér sýnist að þetta leysi þann vanda sem við höfum hér verið að ræða um. Mér sýnist raunar allir vera fylgjandi þessu máli í grundvallaratriðum og hér sé því leið til þess að ná saman endum og fá samkomulag hér í d. um þetta mál. Ég legg þessa till. fram skrifl. Hún er sömuleiðis of seint fram komin og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða.