16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4375 í B-deild Alþingistíðinda. (3648)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Þetta eru allmerkar umr. sem hér hafa farið fram. Allir virðast hafa brennandi áhuga á því að útivinnandi konur fái sitt fæðingarorlof og vísasta leiðin til þess sé að vísa málinu til ríkisstj.

Fyrir tveimur klst. var verið að afgreiða mál í Nd. Alþ. Þetta var félagslegt réttlætismál. Það átti að leiðrétta stöðu hóps sem hefur orðið út undan á undanförnum árum. Þetta mál var afgreitt á þann hátt að því var vísað til ríkisstj. Þegar ég fékk fregnir af þessu máli var mér tjáð að málið hefði verið drepið, og ég hef hingað til skilið störf Alþ. þannig að það væri ekki sama að fá samþykkt lög og að senda málið til ríkisstj., jafnvel þótt um góða ríkisstj. sé að ræða. Því kemur mér þetta nokkuð á óvart. Allir virðast hafa brennandi áhuga á að dagasetning komi um þessi efni, en þeir vilja bara ekki samþykkja frv., heldur vísa málinu til ríkisstj. Þeir eiga þess kost að fá lög sem tryggja útivinnandi konum verkalýðsstéttanna fæðingarorlof frá næstu áramótum. En þeir telja það vænlegri leið að vísa málinu til ríkisstj. Þetta finnst mér svolítið erfiður rökstuðningur.

Ég get ekki tekið allt of alvarlega þá fullyrðingu að Atvinnuleysistryggingasjóður sé í einhverri hættu þótt hann taki á sig 75–100 millj. kr. greiðslu á ári. Þetta er sterkasti sjóður landsins sem hefur um 650–700 millj. kr. tekjur á ári. Hann bindur að vísu fé sitt samkv. lögum, og það kann að þurfa að breyta því eitthvað. Til þess gefum við 6 mánaða frest, og ég held að það hljóti að finnast leið á þeim tíma til þess að opna eitthvað þeirra fjármagn. Mér finnst í sjálfu sér að þetta verkefni liggi nær Atvinnuleysistryggingasjóði heldur en að lána í húsbyggingar í landinu.

Það er ekki því að neita að tilgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs er að bæta tekjutap þeim frísku meðlimum sjóðsins sem missa af sínum launatekjum, og þarna er um fríska aðila að ræða sem ekki geta sinnt atvinnu sinni og missa þess vegna af launatekjunum. Það er því alls ekki að mínu áliti fjarri hinum upphaflega tilgangi sjóðsins að veita bætur í svona tilfellum. Þess vegna er ég á móti dagskrártill., styð hins vegar af heilum hug till. hv. 2. þm. Vestf. og vona að hún verði samþykkt.