16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4381 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

194. mál, aldarafmæli landnáms Íslendinga í Vesturheimi

Frsm. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Það er mín reynsla að hver og einn núlifandi Íslendingur muni eiga einhverja ættingja, misjafnlega nána, vestan Atlantshafs meðal vestur-íslendinga, þjóðarbrotsins sem flutti af landinu til Kanada og Bandaríkjanna í þjóðflutningum sem hófust fyrir öld í stórum stíl þegar fyrstu íslensku landnemarnir settust að í Kanada. Því eru náin blóðbönd milli okkar, sem Ísland byggjum nú, og þeirra, sem af íslensku bergi eru brotnir, en byggja Norður-Ameríku.

Á þessu ári efna vestur-íslendingar til hátíðahalda til að minnast aldarafmælis landnámsins og verða þessi hátíðahöld fjölsótt héðan af Íslandi. Þar munu verða endurfundir eða fyrstu kynni skyldmenna og er sú reynsla mjög dýrmæt hverjum og einum sem þar tekur þátt í. Því telur menntmn. að rík ástæða sé til þess af hálfu íslenska ríkisins að fram komi af þess hálfu vinarhugur og ættræknisvottur þjóðarinnar allrar við vestur-íslendinga. Með till. er því beint til ríkisstj. að hún hafi þann hátt á að undirbúa hlutdeild af Íslands hálfu, sem þar er lagt til, með nefndarskipun og leggur n. einróma til að till. verði samþykkt.