16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4385 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

289. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Það lifnar greinilega yfir mönnum við umr. um þetta mál. Ég mun á þessum síðustu stundum þingsins hafa framsögu mína örstutta, enda er þetta mál gamall kunningi hér í þingi, þaulrætt hér og einnig meðal allra þeirra sem láta sig þetta mikla menningarmál nokkru skipta. Zetan er að vísu ekki nýr kunningi. Hún er til frá fyrstu dögum íslenskrar bókagerðar, frá árinu 1540.

Ég spáði því í umr. um þetta mál í fyrra að sú auglýsing, sem var gefin út um brottnám zetu, væri tilraun til þess gerð að athuga hvort íslendingar væru ekki orðnir sinnulausir um mál sitt og ritun þess. Ég hélt því fram að zetan sjálf væri þeim, sem að því stóðu, ekkert aðalatriði, heldur væri verið að kanna viðbrögðin við þessu og síðan mundu þessir nýjabrumsmenn færa sig upp á skaftið. Þetta kom enda á daginn með þeirri dæmalausu auglýsingu sem út var gefin um stóran og lítinn staf þar sem mývetningur á að ritast með litlum en Mývatnsreyð með stórum, og er þar átt við silunginn.

Á Alþ. í fyrra var samþ. þál. um að hrundið skyldi þessari ákvörðun um brottnám zetu. Engin lög eru til um íslenska stafsetningu og þess vegna hlýtur það að vera siðferðisskylda þeirra, sem sjá um framkvæmdavaldið, að fara að þessum vilja Alþ. Það hefur ekki verið gert, en eftir því hefur verið leitað hjá lögfróðum mönnum hvort sú ályktun á ekki að gilda, en ekki auglýsing menntmrn. Það mun síðar koma fram.

Flm. þessarar till. telja bera brýna nauðsyn til að setja löggjöf um íslenska stafsetningu, til þess að slíkt og þvílíkt hendi ekki á nýjan leik að staðið sé þann veg að þessum málum sem raun ber vitni um nú, til þess að Alþ., ef nauðsyn þykir bera til að breyta til í þessum efnum, eigi þess kost að hafa afskipti af málinu og leggja þar á síðustu hönd, eftir að umr. og rannsóknir hinna færustu og hæfustu manna hafa farið fram.

Ég hef ekki nefnt og veigra mér við að nefna þann gífurlega kostnað sem til er stofnað með þessum hætti. Ég get ekki tekið það gilda ástæðu að horfa í kostnað ef menn sjá nauðsyn bera til að breyta til í íslenskri stafsetningu. Ég tek það ekki gilt. Ég tel þetta mál það mikilvægt að komist menn að þeirri niðurstöðu að það þurfi að breyta til, þá megi ekki horfa í kostnað. En þær breytingar, sem gerðar hafa verið, eru algerlega að ófyrirsynju og vinnubrögðin, sem viðhöfð hafa verið, með nokkrum ólíkindum, þar sem n., sem skipuð var af menntmrh. til þess að athuga um fjölmörg atriði ritreglna, skilaði af sér með þeim hætti að leggja til, að zeta yrði niður felld, og svo framhaldið sem menn hafa séð og flestum ofbýður þó enn meira. Ég er ekkert hræddur um að zeta verði afnumin, það dettur mér ekki lifandi í hug. Þetta hefur verið reynt áður og menn, sem með henni stóðu, áttu í vök að verjast áratugum saman. En þeir unnu frægan sigur. Frægustu oddvitar um aldaraðir í þessum málum gerðu til þess tilraun, oddvitar í menningarmálum um aldaraðir gerðu til þess tilraun að nema zetuna í brott. En það endaði með því að þeir biðu ósigur, enda sneru þeir, sem vitrastir voru, af villu síns vegar eins og Konráð Gíslason. Þess vegna er það mér ekkert áhyggjuefni þó að það kosti einhver ár og þótt það væru áratugir að vinna sigur í þessu máli, vegna þess að hann vinnst. Íslensk tunga hefur staðið allt af sér, m. a. danska áþján, og þótt nýjabrumsmenn reyni með þessu ómerkilega fikti sínu nú að ná þessu fram, þá mun það sannarlega mistakast.

En ég vík því til forustumanna í ríkisstj. og hæstv. forseta þessa þings, að það er ekki til að auka virðingu Alþ. að virða að vettugi þær ályktanir sem gerðar eru. Í þál. fólst engin áskorun á ríkisstj. um neina framkvæmd. Það var ályktun, þar sem tekin var ákvörðun, sem gerð var.

Fyrri mgr. þessarar till. er um það að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu. Síðari mgr. hljóðar svo: „Þar til slík lög hafa verið sett, skal fylgja þeirri stafsetningu sem í gildi var áður en menntmrn. gaf út auglýsingar sínar nr. 272 frá 4. sept. 1973“ — þ. e. um zetuna. Raunar er óþarft út af fyrir sig að hafa þetta með vegna þess að Alþ., hefur áður ályktað um að hrinda þessari auglýsingu. En þetta er gert hér til áréttingar fyrst og fremst. En svo er einnig vikið að síðari auglýsingunni nr. 132 frá 3. maí 1974. Um þetta hefur Alþ. ekki ályktað og þess vegna nauðsynlegt að hafa þetta með. Þetta er um stóran og lítinn staf, um að þingeyingur skuli ritaður með litlum en Hólsfjallahangiket með stórum. Englandsdrottning með stórum, eins og hv. þm. Stefáni Valgeirssyni ofbauð, og þurfa svo að skrifa danadrottning með litlum, og rennur mönnum nokkuð blóðið til skyldunnar. Það má mikið vera ef þetta á ekki eftir að verða mál á Norðurlandaráðsfundi (MK: Eða þá frægt mál þar.) Ég segi það, og heitir íslensku nafni, Þórhildur.

Eins og ég segi, þetta mál er þrautrætt og þess vegna er engin ástæða til þess að biðja um að málið verði athugað af n., nema síður væri. Hér í þingi er það þrautrætt og meðal allra þeirra aðila sem einhver afskipti vilja af því hafa og hafa enda komið á framfæri sjónarmiðum sínum. Þess vegna er út í hött að vísa þessari till. til neinnar n. og alveg nauðsynlegt að gerð verði þessi ályktun til handa hæstv. menntmrh. Hann fór enda fram á það beinlínis í umr., sem urðu á dögunum, að hafist yrði handa um að setja rammalöggjöf um íslenska stafsetningu. Hann lýsti því yfir að hann teldi þetta óhæfu varðandi síðari auglýsinguna um stóran og lítinn staf og taldi nauðsyn bera til að taka þetta mál til athugunar, enda þótt hann snerist gegn frv. sem lagt var hér fram af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, þar sem hann með réttu taldi að það mál út af fyrir sig væri ekki nægjanlega undirbúið, heldur yrði að gera um þetta heildstæða löggjöf. Og ég fer fram á það við hið háa Alþ. og hv. Sþ., að það verði við þessum vilja hans með því að samþykkja hér áskorun til ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu, sem við getum svo hafist handa um að ræða á hausti komanda.

Ég endurtek það, það kann að líða einhver tími þar til þeir, sem rétt hafa fyrir sér í þessu máli, nái vopnum sínum. En það mun fyrr eða síðar takast.