16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4387 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

289. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef áður greint frá því, að ég tel nauðsynlegt að taka stafsetningarmálið til nýrrar athugunar. Ég hygg, að það sé skynsamlegt að sett verði löggjöf um íslenska stafsetningu, en ég tek það jafnframt fram að hvorki tel ég viturlegt að Alþ. sjálft setji ritreglur né semji setningafræði. Ég get því vel fellt mig við fyrri hluta þessarar þáltill. sem hér liggur fyrir til umr.

Ég hef einnig látið það álit í ljós hér á hv. Alþ. fyrir skömmu að nýlega gerð breyting á íslenskri stafsetningu hafi verið ráðin með helst til skjótum hætti og einnig að tíðar breytingar á stafsetningu séu óheppilegar í hæsta máta. Ég er því að sjálfsögðu andvígur síðari lið till. og leyfi mér að leggja til, að hann verði felldur niður. Má ég svo afhenda hæstv. forseta skriflega brtt., sem hljóða svo: „2. mgr. till. falli brott “