16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4387 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

289. mál, íslensk stafsetning

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mál mitt skal vera örstutt. Ég hef flutt frv., sem er til athugunar í hv. menntmn. Nd., um íslenska stafsetningu. Megintilgangur minn var að breyta um þá starfshætti, að ráðh. ákvæði með einfaldri auglýsingu hver skyldi vera stafsetning íslenskrar tungu. Það á að minni skoðun að vera hlutverk Alþingis, slíkt á að ákveða með löggjöf.

Mér til mikillar ánægju lýsti hæstv. menntmrh. því yfir í umr. fyrir nokkrum dögum hér á hinu háa Alþ., að hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að gilda löggjöf um íslenska stafsetningu. Þá skoðun hefur hann nú áréttað í skrifl. brtt., sem hann hefur flutt við þá till., sem við 5 hv. þm, flytjum hér í Sþ. Alþ. Alþ. hefur þegar ályktað að sú stafsetning, sem í gildi var í 45 ár eða frá 1929 til 1974, sé sú stafsetning sem eðlilegt er að haldi áfram að vera í gildi.

Ég veit af viðræðum við þm. á hinu nýkjörna Alþ., að það er mjög eindreginn meiri hl. fyrir því hér á þessu Alþ. að halda skuli fast við hina gömlu stafsetningu, ef ég má taka svo til orða, þ. e. a. s. þá, sem ákveðin var með auglýsingu árið 1929. Ég er því í engum vafa um að frv. frá hæstv. ríkisstj. eða hæstv. menntmrh. um þetta efni mun verða þess efnis, að sú stafsetning skuli aftur í gildi tekin á Íslandi. Þess vegna leyfi ég mér — og mæli þar fyrir hönd okkar 1. flm. þessarar till. — að mæla með því að till. hæstv. menntmrh. verði samþ. og treysti því þar með að í upphafi næsta þings verði lagt fyrir Alþ. frv. um íslenska stafsetningu sem lögfesti þá stafsetningu sem í gildi var í 46 ár eða frá 1929 til 1974.