16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4390 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

145. mál, endurskoðun laga um iðju og iðnað

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur kannað þetta mál og sent það til umsagnar. Umsagnir bárust frá þremur aðilum: Landssambandi iðnaðarmanna, Landssambandi iðnverkafólks og Sambandi ísl. samvinnufélaga. Er mælt með samþykkt þessarar till., en athygli er hins vegar vakin á því að í þeirri n., sem ætlað er að skipuð verði, er ekki fulltrúi eins stærsta aðilans í íslenskum iðnaði, Sambands ísl. samvinnufélaga. N. er þeirrar skoðunar að það sé orðið tímabært að endurskoða þessi gömlu lög, en telur hins vegar, að nauðsynlegt sé að Sambandið eigi þar fulltrúa, og flytur því brtt. á þskj. 801 sem er að efni til þannig að fjölgað verði í þeirri n., sem skipa á, úr 5 í 7 og að af þeim tveimur, sem bætast við, komi annar frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, en tveir nm. verði skipaðir án tilnefningar í stað eins, eins og gert var ráð fyrir í tillgr. Með þessari breytingu mælir n. með því að till. verði samþykkt.