16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4391 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

294. mál, fjáraukalög 1973

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1973 og frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1973 hafa nú verið lögð fram á Alþ. og ríkisreikningurinn fyrir 1973 jafnframt afhentur þm. fullbúinn. Því miður reyndist eigi unnt að leggja frv. fram það snemma að þingið gæti afgreitt þau nú. Efni reikningsins á þó að vera öllum vel kunnugt því að á s. l. vori voru aðalyfirlit A-hluta reiknings lögð fram hér á Alþ. og reikningurinn í heild óendurskoðaður s. l. haust. Ég tel æskilegt að frágangi ríkisreiknings sé hraðað meir en verið hefur hingað til, og nú hefur þeim áfanga verið náð, sem ekki hefur verið fyrr, að A-hluta ríkisreiknings með öllum þeim yfirlitum, sem venja hefur verið að fylgdu með fullbúnum reikningi, liggur á borði alþm. rúmlega 4 mánuðum frá árslokum. Ríkisbókhaldið hefur lokið að fullu uppgjöri A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1974 og hann fullprentaður afhentur alþm. og yfirskoðunarmönnum Alþingis til meðferðar, og vil ég færa þeim mörgu, sem að hafa unnið, bestu þakkir.

Ríkisbókhaldið stefndi að því að skila A-hluta ríkisreikningsins fullbúnum í apríl. Enda þótt því marki hafi ekki verið náð nú er þessi árangur mjög lofsverður, enda hefur verið unnið þrotlaust starf, ekki aðeins við uppgjör ríkisreiknings, heldur einnig á sviði almennra bókhaldsmála ríkisins sem eru grundvöllur uppgjörs ríkisreikningsins snemma á árinu. Í því sambandi má minna á að ríkisbókhaldið hóf á árinu 1970, í tíð fyrrv. fjmrh. Magnúsar Jónssonar, sérstaka bókhaldsþjónustu fyrir ríkisstofnanir og var hún enn aukin í tíð forvera míns, Halldórs E. Sigurðssonar, fyrrum fjmrh., og hefur frá þeim tíma tekið við alhliða bókhaldsúrvinnslu um 130 ríkisaðila er önnuðust hana sjálfir áður. Þessi þjónusta leiðir m. a. til skjótara uppgjörs og betri yfirsýnar um fjármál ríkisins, ekki síst þegar ýmiss konar yfirlit úr tölvuvinnslu ríkisbókhaldsins verða komin til. Stefnt er að því að bókhald ríkisins verði allt unnið eftir tölvuvinnslukerfi ríkisbókhaldsins, annaðhvort um fyrrgreinda bókhaldsþjónustu þess eða með beinni vinnslu stærri ríkisstofnana. Vegagerðin vann sitt bókhald t. d. þannig árið 1974, Rafmagnsveitur ríkisins eru í þann veginn að hefja vinnslu bókhalds eftir kerfi ríkisbókhaldsins og athugun og undirbúningur er hafinn hvað snertir bókhald Pósts og síma og Ríkisútvarpsins. Bókhaldsúrvinnsla Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg og Ríkisútgáfu námsbóka er einnig hafin eða er að hefjast á vegum bókhaldsþjónustu ríkisbókhaldsins. Þegar allt bókhald ríkisins verður komið inn á þennan sama farveg, tölvuvinnslunnar verður unnt að fá yfirlit eins oft og óskað er, sem spannar yfir alla þætti ríkisfjármálanna, á grundvelli upplýsinga um raunverulegar gjaldaskuldbindingar hjá hverri stofnun. Nú er hins vegar að hluta til byggt á greiðslu á rekstrarfé úr ríkissjóði til þeirra sem hafa eigin bókhaldsúrvinnslu, en ekki byggt á fjárráðstöfunum þeirra sjálfra.

Næsta haust, þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1976 verður fylgt úr hlaði, mun verða gerð grein fyrir afkomu þessa árs fram að þeim tíma og jafnframt gerð ítarlegri grein fyrir afkomu ársins 1974 samkv. ríkisreikningi þeim sem nú hefur verið lagður fram fyrir árið 1974.

Ég vil þó gera örstutta grein fyrir afkomu ársins.

Gjöld A-hluta reyndust 41 milljarður 8 millj. kr. Tekjur urðu 37 milljarðar 721 millj. kr. og gjöld umfram tekjur því 3 milljarðar 287 millj. kr. Endurmatsjöfnuður var óhagstæður um 576 millj. kr. Var þar fyrst og fremst um að ræða hækkun skulda í erlendri mynt vegna gengismunar. Rekstrar- og endurmatsjöfnuður sýndu því samtals óhagstæða þróun um 3 milljarða 863 millj. kr. eða m. ö. o, hækkun skulda ríkisins nettó á árinu. Sú breyting kom annars vegar fram í óhagstæðum greiðslujöfnuði sjóðs- og bankareikninga, ýmissa inneigna og lausaskulda um 2 milljarða 294 millj. kr. og óhagstæðum lánajöfnuði vegna skuldaaukningar, tekinna lóna umfram breytingu veittra lána og hlutabréfa og stofnfjárframlaga um 1 milljarð 569 millj. kr. Greiðslujöfnuður með þrengri skilgreiningu, þ. e. a. s. jöfnuður sjóðs- og bankareikninga, var óhagstæður um 3 milljarða 171 millj. kr. Ef skuldaaukning á lánareikningum við Seðlabankann um 220 millj. kr. er talin með er greiðslujöfnuðurinn þannig skilgreindur óhagstæður um 3 milljarða 391 millj. kr.

Stærstu gjaldaliðirnir eru eins og áður framlög til Tryggingastofnunar ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs, 12 milljarðar og 10 millj. kr. eða um 2 milljarða 76 millj. kr. umfram fjárlög, til niðurgreiðslna og til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir 4 milljarðar 676 millj. kr. eða 2 milljarðar 778 millj. kr. umfram fjárlög og gjöld vegna vegagerðar 3 milljarðar og 5 millj. kr. eða 960 millj. umfram fjárlög. Þessir þrír liðir nema samtals 19 milljörðum 691 millj. kr. eða 48% af gjöldum reikningsins í heild, eða 5 milljörðum 814 millj. kr. eða helmingi af gjöldum reikningsins umfram fjárlög. Aðrir stórir gjaldaliðir umfram fjárlög eru fyrrgreind framlög, til Rafmagnsveitna ríkisins 931 millj. kr., 244 millj. kr. framlag til Áburðarverksmiðju ríkisins og 677 millj. kr. í gjöld umfram fjárlög í dómgæslu og í lögreglumálum.

Þegar gerður er samanburður á reikningi og fjárl. þarf einnig að hafa í huga áhrif sérstakra laga á gjaldafærslu reiknings umfram fjárlög. Á bls. 63 og 183 í ríkisreikningi er gerð nokkur grein fyrir þessum atriðum og kemur þar fram að gjöld reiknings vegna hækkunar markaðra tekna og notkunar lánsfjár og sérstakra gjaldheimtna hafa numið um 2 milljörðum 664 millj. kr. umfram það sem fjárlög áætluðu. Ef tekið er tillit til þessara sjálfvirku gjaldfærslu utan fjárlaga nema umframgjöld 8 .milljörðum 942 millj. kr. eða um 28% umfram fjárlög og þessar sérstöku heimildir. Þá hefur ekki verið tekið tillit til áhrifa almennrar lagasetningar og ákvarðana, t. d. um auknar niðurgreiðslur.

Tekjur reiknings námu 35 milljörðum 784 millj. kr. eða 8 milljörðum 541 millj. kr. umfram fjárlög. Ef lækkun tekjuskatts frá fjárl. um 1 milljarð 411 millj. kr. vegna skattalagabreytingar snemma ársins 1974 er ekki talin með reyndust tekjur 9 milljarðar 952 millj. kr. umfram fjárlög. Af þeirri í fjárhæð var meira en helmingur í auknum tekjum af söluskatti, 5 milljarðar 161 millj. kr., enda var sölugjald hækkað tvívegis á árinu úr 13 í 17 og síðan í 19%. Aðflutningsgjöld, almenn, fóru tveim milljörðum 54 millj. kr. umfram fjárlög og launaskattur um 755 millj. kr. Þess ber þó að geta að söluskattur og launaskattur sem og aðrar tekjur eru gerðar upp á grundvelli álagningar, en ekki innheimtu. Innheimtur söluskattur umfram fjárlög nam t. d. 4 milljörðum 264 millj. kr. og launaskattur 437 millj. kr.

Hér hefur verið drepið á stærstu liði í niðurstöðutölum A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1974, en ítarlegri grein verður að sjálfsögðu gerð fyrir reikningnum á hausti komanda.

Um leið og ég í örstuttu máli geri Alþ. grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1974 vildi ég mega vekja athygli á grg. þeim sem í dag hafa verið lagðar á borð alþm. Eitt meginverkefni í þeirri heildarendurskoðun skattkerfisins, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, er staðgreiðsla skatta. Fól ég ríkisskattstjóra að gera grg. og till. um málið og hefur hann nú skilað skýrslu um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hefur skýrslu þessari, eins og áður sagði, verið dreift til þm. Hér er um mál að ræða sem lengi hefur verið á dagskrá. Á næstunni verður að taka ákvörðun í máli þessu með einum eða öðrum hætti. Fyrr en niðurstaða er fengin er því ekki hægt að móta endanlega þá nýju skattalöggjöf sem unnið hefur verið að. Till. og grg. ríkisskattstjóra um staðgreiðslu opinberra gjalda eru veigamikið framlag til ákvörðunartöku um mál þetta og jafnframt þýðingarmikill liður í heildarendurskoðun skattalaga.

Annað veigamikið verkefni á sviði skattamála er endurskoðun núverandi söluskatts í átt til skatts með virðisaukasniði, einnig til að tryggja skattastöðu íslenskra fyrirtækja. Sérstökum starfshóp á vegum rn. var falið að vinna að verkefni þessu og liggur grg. þessa starfshóps nú einnig á borðum þm. Í grg. eru ekki gerðar ákveðnar till. um upptöku virðisaukaskatts hér á landi eða breytingar á gildandi söluskattskerfi. Markmið hennar er fyrst og fremst að skýra og gera grein fyrir þeim ýmsu atriðum sem líta þarf til þegar tekin er afstaða til þess, hvort taka skuli upp virðisaukaskatt í stað söluskatts eða gerðar skuli aðrar grundvallarbreytingar á söluskattinum á næstunni.

Því miður vannst ekki tími til á þessu þingi að taka ákvarðanir í þessum málum. Hins vegar vænti ég þess, að þm. kynni sér grg. þessar rækilegar meðan á þinghléi stendur til þess að mál þessi megi taka upp strax á haustþingi til ákvörðunar um framtíðarskipan mála. Ég vil leggja áherslu á að þótt hér sé um mikilvæg mál að ræða eru þau aðeins liður í þeirri heildarendurskoðun skattakerfis sem nú stendur yfir. Veigamiklar breytingar voru gerðar á lögum um tekju- og eignarskatt nú nýverið með sameiningu bótatryggingar Almannatryggingar og skattkerfisins. Auk þess eru skattar lækkaðir um 1 milljarð kr. Áfram verður haldið við endurskoðun skattalaga á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið, og m. a. stefnt að sérsköttun hjóna, eins og áður hefur komið fram. Endurskoðun skattalaganna mun að sjálfsögðu halda áfram meðan á þinghléi stendur. En sem kunnugt er hefur einn þm. verið tilnefndur af hverjum þingflokki til að fylgjast með störfum þeirrar endurskoðunar, og vænti ég þess að það samstarf geti haldið áfram þótt hlé verði gert á störfum Alþingis.

Herra forseti. Ég vildi gera Alþ. grein fyrir þessu áður en það lyki nú störfum og þakka vinsemd forseta.