16.05.1975
Efri deild: 97. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

263. mál, aðstoð við vangefna og fjölfatlaða

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um till. til þál. um aðstoð við vangefna og fjölfatlaða. Tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að undirbúa hið fyrsta ráðstafanir til að bæta aðstöðu vangefinna og fjölfatlaðra, m. a. með aukningu hjálparstofnana vegna þeirra, sem dveljast í heimahúsum, svo og aukningu hjúkrunarrýma fyrir þá, sem eiga við þessi vanheilindi á háu stigi að stríða.“

Þessi till. varðar einn lið í stóru vandamáli, miklu stærra vandamáli, þ. e. a. s. varðandi þá sjúklinga og fatlaða sem í heimahúsum dvelja, ýmist vegna þess að hjúkrunarrými er ekki til fyrir þá eða vegna þess að þeir óska frekar eftir því sjálfir að vera í heimahúsum og aðstaða er fyrir þá þar. Hins vegar er það ekki síst með gamalmenni, að það veldur oft allmiklum örðugleikum að húsráðendur geta ekki komist í frí, þeir geta ekki farið burt í sumarleyfi og eru bundnir allt árið við hjúkrun slíkra aðila. Þess vegna er því ekki að leyna, að það er ákaflega mikil þörf fyrir skipulagsbreytingu í þessu efni og væri mjög æskilegt ef stofnanir, sem sinna slíkum aðilum, hvort sem um fjölfatlaða, vangefna eða aðra hjúkrunarsjúklinga er að ræða, gætu haft nokkurt aukapláss sem nýtt væri á þann hátt, að það létti undir með þeim sem hafa hjúkrunarsjúklinga í heimahúsum. Þetta er margþætt og aðkallandi vandamál og þess vegna leggur heilbr.- og trn. einróma til, að till. verði samþ.