16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

259. mál, skákkennsla

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. velviljuð ummæli hans um efni þess máls, sem hér er um að ræða. Ég vildi ekki tefja tíma hv. d. í gærkvöld með því að kveðja mér hljóðs til þess að þakka hv. menntmn. fyrir einróma afgreiðslu hennar á málinu. Mér er tjáð að hv. menntmn. Ed. mundi mæla með samþykkt frv. og þess vegna því sem næst víst að það hefur fylgi í hv. Ed. Hins vegar er mér ljóst það sem hæstv. menntmrh. benti á í orðum sínum, að það væri afbrigðilegt að mál færi í gegnum þrjár umr. í d. á einum degi þótt svo ekki sé um það ágreiningur.

Ég hef í morgun rætt þetta mál við hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. Þeir eru báðir stuðningsmenn málsins og ég hef skilið þá svo að það muni ekki koma að sök þótt afgreiðsla málsins bíði til haustsins. Þessar undirtektir þeirra vil ég þakka þeim alveg sérstaklega. Ég mun þess vegna ekki ætlast til þess að hv. Ed. fái þetta mál til meðferðar í dag, heldur endurflytja það í upphafi næsta þings. Ég treysti því, að þá verði frv. að lögum, og í trausti þess að það komi ekki að sök, að það dragist um nokkra mánuði að frv. verði að lögum í þeim búningi sem það nú hefur, þá lýsi ég því yfir að ég er ánægður með þessa meðferð málsins og þakklátur hæstv. ráðh. fyrir undirtektir þeirra.