16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4404 í B-deild Alþingistíðinda. (3744)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mál sem áreiðanlega er ekki einangrað við þau samtök atvinnurekenda sem ríkið á nú að fara að gerast innheimtuaðili fyrir, þ. e. a. s. á félagsgjöldum, í raun og veru. Ég held að ef þetta nær fram að ganga, þá hljóti aðrir einnig að fara að hugsa sitt ráð. Og ég verð að segja að mér þætti vænt um að áður en þetta mál verður afgreitt hér, þá kæmu um það yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj., hvers aðrir mættu vænta sem hugsuðu sér að fara út á þá braut sem nú yrði rudd ef þetta frv. verður samþykkt. Ég sé ekki betur en það gætu orðið býsna margir sem gjarnan vildu fara þessa leið. Hún er ódýr, ekki ætlar ríkið að taka neitt fyrir þetta, og ákaflega handhæg til fjáröflunar. Hvers vegna skyldu ekki önnur atvinnurekendasamtök í landinu gera slíkt hið sama? Hvers vegna skyldu þá ekki einnig verkalýðsfélögin gera slíkt hið sama? Og raunar mætti sjálfsagt lengi telja.

Hæstv. iðnrh. sagði í gærkvöld að það væri hægt að takmarka þetta við atvinnuvegina. En það eru býsna margir aðilar í hverri atvinnugrein sem með sama rétti gætu óskað eftir fyrirgreiðslu á þá lund sem hér er ætlunin að veita. Það var tekið fram af einum hv. nm. einnig í gærkvöldi að þetta kostaði ríkið bókstaflega ekki neitt. Nú eru það skattstjórar sem eiga að leggja gjaldið á og ekki aðeins leggja það á, heldur eiga þeir einnig að sjá um innheimtu á gjöldum.

Ég vil aðeins geta þess að nokkur verkalýðsfélög hafa samið með aðstoð Magnúsar Jónssonar, sem þá var fjmrh., um að fá skattstofurnar til þess að leggja á gjöld sem þau höfðu samið við atvinnurekendur að greiða, gjöld til styrktarsjóða. Og það ætlaði að verða ákaflega erfitt að fá þetta. Það var ekki óvild ráðh., heldur var það andstaða skattyfirvaldanna frekar, skattstofanna. Þetta hefur verið gert, og það stendur eins á um þessi gjöld, að þau eru hundraðshluti af öðru stofngjaldi, og er þess vegna fjallað um sama málið nákvæmlega á sama hátt, algerlega sambærilegt við það sem yrði um þessi gjöld. Verkalýðsfélögin hafa ævinlega greitt fyrir þessa þjónustu, sem sjálfsagt er. Ég veit að mitt félag greiðir tugi þúsunda á hverju ári fyrir það starf, sem þarna er unnið, og er ekkert sjálfsagðara. En hér á sem sagt ekki einu sinni að taka eyri fyrir þau störf sem þarna á að vinna.

Það er sagt í frv. að þessi gjöld megi ekki koma til álagningar á neinn hátt. Ég verð að segja það, að þá þekkja menn illa til ýmissa aðila í þeim greinum, sem taldar eru upp í þessu frv., ef menn trúa því að þetta gjald komi ekki út í verðlagið. Svo vel þekki ég til um ýmis gjöld sem ekki eiga að fara út í verðlagið, en alveg örugglega gera það.

Ég held að það væri ráð að skoða þetta mál betur, allra helst, eins og hér hefur fram komið, ef ekki er neinn sérstakur áhugi fyrir því í þeim samtökum eða hjá forsvarsmönnum þeirra samtaka sem hér á að vera að aðstoða, þá skil ég ekki þann áhuga sem er fyrir því að vera að keyra þetta í gegn nú á allra síðustu tímum þingsins.

Það var sagt áðan að menn hefðu haft möguleika til þess að lesa málið. Hvað eru margir dagar síðan þetta frv. kom á borðið og hvað annað hafa þm. þurft að lesa á þessum sama tíma og raunar setja sig inn í — ekki aðeins lesa, heldur hvað hafa þeir þurft að gera? Ég legg þess vegna eindregið til að málið verði nú látið bíða og a. m. k. skoðað betur og menn athugi hvaða brautir þarna er verið að fara inn á og þá alveg sérstaklega hafandi það ríkt í huga að þetta mál getur ekki orðið einangrað til lengdar. Ef það á að veita einum, þá verð ég að segja að það yrði erfitt að neita öðrum.