16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4405 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á einu atriði sem mér láðist að minnast á áðan, og það er það atriði að þarna er verið að leggja á gjald sem leggst á alla framleiðendur í iðnrekstri á Íslandi. Nú hefur það verið svo að æðimargir aðilar, sem samkv. skipulagi gætu átt aðild að Landssambandi iðnaðarmanna, hafa ekki kært sig um það. Þeir hafa talið að sínum hagsmunum væri nægilega vel borgið þótt þeir væru ekki þátttakendur í þessum landssamtökum. Ég lít svo á að þetta hljóti eðli sínu samkvæmt að eiga að vera einkamál bæði einstaklinga og félaga sem þarna er um að ræða. Þetta er allstór hópur. Og ég tel það vera algerlega fráleitt að Alþ. leggi á þessa aðila skatt í þágu atvinnurekendasamtaka sem aðilarnir kæra sig ekkert um að vera aðilar að. Ég vil hreinlega spyrja: Telur Sjálfstfl. það samrýmast stefnu sinni um frjálsan atvinnurekstur á Íslandi að ríkisvaldið sé þannig notað til þess að knýja einstaklinga og einstök fyrirtæki til þess að greiða skatt til samtaka sem þau kæra sig ekki um að vera í ? Þetta felst í þessu frv., og þessu verða menn líka að muna eftir þegar þeir afgreiða þetta mál. Þetta stangast á allan hátt við heilbrigða skynsemi.

Þetta er ekki mál iðnaðarins, því fer fjarri. Hinn raunverulegi iðnaður á Íslandi kærir sig ekkert um þetta og hefur hreinlega beðist undan því að þurfa að lúta slíku, segist vera fullfær um að innheimta sín gjöld sjálfur. Með þessu er verið að leggja skatt á aðila, einstaklinga og félög, vegna þess að þeir hafa ekki kært sig um að gerast aðilar að heildarsamtökum atvinnurekenda á þessu sviði.