16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt ástundar hæstv. iðnrh. ævinlega ákaflega sérstæða tegund af kurteisi. Hann byrjaði ræðu sína á því hér áðan, að það væri ekki ástæða til að svara þm. eins og hv. þm. Sverri Hermannssyni og mér, hins vegar hefði hann vissulega ástæðu til þess að svara því sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson hefði til mála að leggja. Hæstv. ráðh. er hér að gera: mannamun sem ég er að sjálfsögðu ekkert viðkvæmur fyrir. En þetta sýnir dálítið inn í hugskot þessa hæstv. ráðh., sem við margir þm. erum búnir að fá æðilöng kynni af. Hann á dálítið erfitt með að umgangast okkur aðra þá sem sitjum hér á þingi eins og jafningja. Honum finnst hann vera hafinn æðimikið upp yfir okkur. Og það er ákaflega grunnt á hrokanum í þessum hæstv. ráðh. Samt fór það nú svo að áður en ráðh. lauk ræðu sinni, þá var hann kominn út í það að svara mér með alls konar glósum og skætingi, hann gat ekki setið á sér þegar á hólminn kom, þótt hann lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að ansa málflutningi mínum einu einasta orði.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði fengið þetta frv. samþ. í ríkisstj., en svo hefði það ekki verið lagt fram vegna einhverra formgalla. Þetta mál lá hjá mér í nærri þrjú ár, eins og ég greindi frá áðan, og hafi verið formgallar í því þá, þá eru þeir vissulega í frv. enn þá. Í frv. eru raunar svo miklir formgallar, að þeir einir ættu að gera það að verkum að þetta frv. yrði ekki samþ. Alþ. er ekki sæmandi að samþykkja frv. sem er formlega jafn illa á sig komið og þetta frv. Ég skal benda á dæmi um þetta.

Fyrsta setningin hljóðar svo: „Leggja skal 1% iðnaðarmálagjald á allan iðnrekstur í landinu sem af er greitt iðnlánasjóðsgjald samkv. ákvæðum 5. gr. l. nr. 68 10. okt. 1967.“ Hæstv. iðnrh. virðist ekki hafa nokkra minnstu hugmynd um það að þessum stofni var breytt með l. nr. 50 frá 25. apríl 1973. Samkv. því, sem stendur í þessu, á að leggja þetta á stofn sem er ákveðinn með lögum 1967, en má ekki leggja það á þann stofn sem markaður var með lögum 1973. Ef hér væri formlega rétt að farið, þá hefði þurft að standa þarna: sbr. 1. gr. laga nr. 50 frá 25. apríl 1973, eða: með síðari breytingum. En þetta er ekki gert, og ef þetta frv. verður samþ. með þessu móti, þá verður það ákaflega erfitt reikningsdæmi, er ég hræddur um, að leggja þetta gjald á því að samkv. fyrri lögunum er þetta miðað við gjaldstofn sem alls ekki er notaður lengur. Það er notaður allt annar gjaldstofn. Þetta er formgalli sem einn saman á að nægja til þess að alþm. geti ekki samþ. þetta frv.

Svo kemur þriðja setningin. Hún er svo hljóðandi:

„Undanþegin gjaldinu eru fyrirtæki í einkaeign opinberra aðila“ — svolítið einkennilegt orðaorðalag, — „einkaeign opinberra aðila, svo og fyrirtæki sem stofnuð eru samkv. sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti, nema annars sé getið í lögum þeim.“

Fyrirtækin eru undanþegin gjaldinu nema annars sé getið í þeim lögum, nema lög um fyrirtækin kveði á um það að þau eigi að borga þetta gjald sem nú er verið að leggja á. Hvers konar endileysa er þetta? Hvernig dettur mönnum í hug að ganga frá lögum á þennan hátt? Ef átt hefði að nást einhver meining í þetta, þá hefði þurft að standa: „undanþeginn gjaldinu eru fyrirtæki í einkaeign opinberra aðila,“ ef menn vilja hafa það orðalag, „svo og fyrirtæki sem stofnuð eru samkv. sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti, enda sé þess getið í þeim lögum.“ Þetta liggur í hlutarins eðli. Menn þurfa ekki annað en lesa þessa mgr. til þess að sjá að hér er um að ræða neina afglapasmíð.

Ef Alþ. ætlar að samþykkja lög með svona formgöllum, þá erum við að setja blett á okkar heiður. Þótt ekki sé annað en þessir formgallar, þá leiða þeir augljóslega til þess að Alþ. getur ekki samþ. frv. sem er svona illa undirbúið og hæstv. ráðh. hefur greinilega akki látið neinn lögfróðan mann fara yfir til þess að séð væri fyrir því að ekki væri á því missmíð af þessu tagi. Ég held að ég þurfi ekki eð fara fleiri orðum um þetta, ég held að þetta sjái hver einasti maður. Og þó að hæstv. ráðh. undirbúi mál sín svo illa, þau séu lögð hér inn á þing svona á sig komin, þá eigum við alþm., sem berum ábyrgð á lagasetningu á Íslandi, ekki að taka það í mál að gera að lögum vanskapnað af þessu tagi. Ég held að ekki nokkur maður geti vefengt það að þarna er um að ræða alveg fráleita missmíði.

En hæstv. iðnrh. vék í lok ræðu sinnar að mörgum öðrum málum, og fyrst hann átti upptök að því, þá er ástæða til þess að gera það líka. Hæstv. ráðh. sagði að þetta væri þriðja málið af málum sem ég hefði unnið að sem iðnrh. sem ég hefði síðan snúist á móti. Ég hef áður gert grein fyrir því hvers vegna ég flutti þetta frv. ekki. Það er staðreynd, að það var ekki flutt, og og hef gert grein fyrir ástæðunum fyrir því.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði snúist gegn frv. um verðjöfnun á raforku sem ég flutti sjálfur hér í þinginu. Ég skal minna á hvernig það mál bar að. Ég bar þetta frv. fram og það fjallaði um almenna álagningu á raforku til þess að rétta hag Rafmagnsveitna ríkisins, en fjárhagur þeirra var kominn í algert óefni. Eftir að núv. ríkisstj. tók við fór hún hins vegar inn á þá leið að hún flutti frv. um tveggja stiga hækkun á söluskatti. Þetta söluskattsfrv. var rökstutt með því m. a. að því væri ætlað að bæta úr fjárhagsörðugleikum Rafmagnsveitna ríkisins. Það er önnur aðalröksemdin fyrir þessu söluskattsfrv. Urðu miklar deilur um þetta söluskattsfrv. og sýndist sitt hverjum. En það fór svo að þetta frv. var samþ. og þar með hafði Alþ. fallist á þá till. hinnar nýju ríkisstj. að bæta úr fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins með innheimtu á söluskatti. Þetta er staðfest í þskj.

Eftir að hæstv. núv. ríkisstj. var búin að ákveða þessa leið að bæta úr vanda Rafmagnsveitnanna með því að leggja á hækkaðan söluskatt og leysa vanda þeirra þannig, þá voru auðvitað engin rök fyrir því að samþykkja frv. um verðjöfnunargjaldið einnig því að þá var verið að bæta úr sama vandanum að tveimur mismunandi leiðum og það var verið að leggja á fólkið í landinu tvöfalt gjald til þess að leysa einn og sama vandann. Ég gerði ákaflega skýra grein fyrir þessu hér á þingi þegar við ræddum þetta mál. Og ég fæ ekki skilið hvernig nokkur maður getur vefengt að sú afstaða er fullkomlega rökrétt, að það er ekki hægt að leggja á þjóðina tvöfaldan skatt til þess að leysa eitt og sama vandamálið. Fyrst hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. fóru þá leið að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins með þeim hætti að hækka söluskatt, þá eru engin rök fyrir því að fara þá leið sem ég hafði lagt til. Þegar hæstv. ríkisstj. gerði hins vegar hvort tveggja, þá var hún að hefja þann feril sinn, sem allir þekkja, að stórauka skattheimtuna í landinu, auka byrðar þær sem almenningur verður að bera, skerða lífskjör almennings og stuðla þannig að því alvarlega atvinnuástandi, því alvarlega efnahagsástandi, því alvarlega kjaraástandi sem nú mótar íslenskt efnahagslíf og íslenskt atvinnulíf. Það var þetta sem þarna gerðist. Ég snerist ekki gegn frv. sem ég hafði flutt. Ég snerist hins vegar gegn því að hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. notuðu vanda Rafmagnsveitna ríkisins til tvöfaldrar skattheimtu.

Hæstv. ráðh. vék síðan að því, að ég hefði skipt um skoðun að því er varðar kísiljárnverksmiðju í Hvalfirði, og þar kemur hæstv. ráðh. inn á mál sem er þess eðlis að ástæða er til að tala um það alllengi. Ég hef séð það í Morgunblaðinu að undanförnu að þar hefur verið vitnað í bréf og margendurtekið að þetta hafi verið bréf sem ég hafi sent Union Carbide og að þetta sýni hverja afstöðu ég hafi haft til Kísiljárnverksmiðjunnar þá og hvernig ég hafi hringsnúist, verið kúgaður og beygður og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta eru að vísu allt saman vísvitandi ósannindi. Hæstv. iðnrh. veit það og það vita allir aðstandendur að þetta bréf var aldrei sent og var ekki samið af mér. Mál stóðu þannig á s. l. vori að Union Carbide óskaði eftir því að lagt yrði frv. um kísiljárnverksmiðju fyrir þingið. Ég hafnaði því að leggja slíkt frv. fram. Union Carbide fór þá fram á að ég kannaði það hver væri afstaða þingflokkanna til málsins svo að þeir gætu metið það á raunsæjan hátt, hvaða horfur kynnu að vera á viðhorfum manna til þessa máls þegar kosningum væri lokið. Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað tók að sér að framkvæma þessa könnun og hún gerði þetta uppkast að bréfi sem Morgunblaðið hefur birt, og ég kannaði síðan í kjölfar þess hver var afstaða þingflokkanna. Við þá könnun kom það í ljós að meiri hl. Alþ. var ekki reiðubúinn til að taka neina afstöðu til málsins. Það átti við um þingflokk Alþb. og það átti við um þingflokk Sjálfstfl. Ég skrifaði því annað bréf og tilkynnti að ríkisstj. og ég værum sammála meginatriðum í þeim samningsdrögum sem þá lágu fyrir, en ég gæti ekkert sagt um afstöðu Alþ. og ekki gefið nein fyrirheit um það, hvernig Alþ. mundi að málinu standa, af þessum ástæðum. Þetta var það bréf sem ég sendi, og það er í samræmi við staðreyndirnar eins og þær koma upp.

En í tilefni af því, að því er haldið fram að ég hafi skipt um skoðun á þessu máli, þá er það algerlega rangt. Það hef ég ekki gert. Ég leit á það sem eitt af veigamestu verkefnum mínum, meðan ég gegndi störfum iðnrh., að hnekkja þeirri þjóðhættulegu stefnu sem viðreisnarstjórnin tók upp á miðjum 7. áratug þessarar aldar þegar hleypt var inn í landið erlendu fyrirtæki til þess að stofna erlenda verksmiðju sem var undanþegin íslenskum lögum. (JóhH: Hún er það ekki.) Hún er undanþegin íslenskum lögum. Ef það kemur upp ágreiningur milli íslenska ríkisins og þessarar verksmiðju, þá er það útkljáð af erlendum dómstól, en ekki af íslenskum dómstól. (JóhH: Íslenskum lögum er hún ekki undanþegin.) Hún er undanþegin íslenskri lögsögu, hún er undanþegin íslensku dómsvaldi. Ef það kemur upp ágreiningur milli íslenska ríkisins, íslenska ríkisins sjálfs og þessa einkafyrirtækis, þá á það að gerast að við megum ekki leggja það undir okkar eigin dómstóla, heldur verðum við að lúta yfirstjórn erlends valds hvað þetta snertir. Þetta var sú stefna sem viðreisnarstjórnin tók upp í þessu máli.

Þarna var erlendur aðili sem fékk að koma upp fyrirtæki á Íslandi, og hvernig var svo gengið frá samningunum? Það var gengið þannig frá þessum samningum að það var samið um fast raforkuverð fram til ársins 1997, fast óbreytt verð fyrir raforku fram til ársins 1997. Það var samið um annað. Það var samið um að þessi verksmiðja skyldi undanþegin íslenskum sköttum, íslenskum skattalögum það skyldi taka af henni framleiðslugjald sem var föst dollaraupphæð á tonn. Hvað er það sem þessi verksmiðja notar til sinnar framleiðslu? Hún notar orku, hún notar súrál, hún notar rafskaut, anóður. Við leggjum til orkuna, hún er á föstu verði. Við leggjum, á þetta skatt, það er fast í dollaratölu. En hvað með súrálið og hvað með rafskautin? Það eru engin ákvæði um það í samningnum að það eigi að vera fast verð á súráli eða fast verð á rafskautum, enda hefur það gerst síðan þessir samningar voru gerðir 1967 að verðið á súráli hefur næstum því þrefaldast og verðið á anóðum hefur meira en tvöfaldast. Og hver halda menn að afleiðingin sé af samningum af þessu tagi þar sem okkar framlag er fast, en Alusuisse má hækka verðið á því, sem það leggur til, allan tímann? Þetta hefur leitt til þess að orkuþátturinn, sem áður var yfir 10% af framleiðslukostnaði á tonn, hefur dottið niður í 6%. Og Alusuisse hefur aðstöðu til þess að halda þannig á málum að þetta fyrirtæki skili aldrei hagnaði því að ákvæðið um framleiðslugjaldið, sem á að jafngilda skatti, er svo vídómslega tiltekið að það má ekki hækka nema sem svarar hálfum gróða fyrirtækisins. Það verður að vera bókhaldslegur gróði hjá fyrirtækinu ef þetta framleiðslugjald á að hækka. Með því að halda þannig á málum að ekki sé gróði á þessu fyrirtæki, þá er hægt að tryggja að framleiðslugjaldið haldist óbreytt í þessari dollaratölu hverjar svo sem breytingar verða á heimsmarkaðnum. Og það er þetta sem Alusuisse hefur verið að gera á undanförnum árum. Hverjir selja álbræðslunni súrál? Það er Alusuisse. Hverjir selja álbræðslunni anóður? Það er Alusuisse. Og með því að hækka verðið á þessum hráefnum mun meira en hækkun hefur orðið á almennum markaði, þá er séð til þess að álbræðslan í Straumsvík er gerð upp með tapi ár eftir ár. Móðurfélagið græðir alltaf, hringurinn skilar alltaf ágóða á þeim árum sem okkur var sagt að það væri óhemjulegt tap á þessari framleiðslu. Það var alltaf gróði hjá hringnum. Svona voru þessir samningar.

Ég hef áður rakið það, að ákvæðin um raforkuverð eru bundin til ársins 1997. Þegar kannað var seinast, fyrir einu ári eða svo, hvernig það verð stæðist í samanburði við það verð, sem um er rætt í sambandi við kísiljárnverksmiðjuna, kom í ljós að skakkinn miðað við forgangsorku jafngilti hvorki meira né minna en 1000 millj. kr. á ári, einum milljarði á ári. Þessi munur er orðinn miklu meiri núna vegna gengislækkananna. En við þetta bætist svo þetta atriði, sem ég er að rekja hér, að gætt er vandlega að því að þetta fyrirtæki skili aldrei bókhaldslegum arði. Súrálið má hækka, anóðurnar mega hækka í verði, en raforkan má ekki hækka og framleiðslugjaldið á að vera fast.

Þetta eru mestu hneykslissamningar sem nokkurn tíma hafa verið gerðir á Íslandi, mesta fjármálahneyksli sem nokkur ríkisstj. hefur gert sig seka um fyrr og síðar. En þetta átti að vera vaxtarbroddur nýrrar iðnþróunarstefnu á Íslandi.

Því var lýst yfir alveg sérstaklega að þarna væri verið að brjóta ísinn, nú væri greið leið, nú mættu erlend fyrirtæki þyrpast inn í landið í þetta glæsilega kjölfar. Hér áttu að rísa 20 álbræðslur á fáum árum, sagði Eyjólfur Konráð Jónsson, 20 álbræðslur. Og við heyrum þennan tón núna aftur. Það er farið að tala um súrálsverksmiðjur, álbræðslur fyrir norðan, austan og vestan, erlendar verksmiðjur út um allt. Og á landsfundi Sjálfstfl. biðst hæstv. iðnrh. afsökunar í ræðu sinni, kemur hálfgrátandi fyrir landsfundarmenn og biðst afsökunar á því að hann hafi nú orðið að sætta sig við það að íslendingar ættu meiri hl. í fyrirhugaðri kísiljárnverksmiðju, hana hafi ekki viljað það, þessi hæstv. ráðh., þetta sé andstætt stefnu Sjálfstfl„ en hann hafi orðið að sætta sig við þetta því að sá illi skúrkur, Magnús Kjartansson, hafi verið búinn að tryggja að það væri ekki pólitískur möguleiki til að koma öðru í gegn. Hæstv. iðnrh. var að biðjast afsökunar á þessu, hann var að biðjast afsökunar. (Iðnrh.: Er þetta orðrétt úr ræðu minni?) Nei, þetta er efnið, vegna þess að hæstv. ráðh. varð fyrir ákaflega þungu ámæli hér á hinu háa Alþ., í báðum d., vegna þess að hann væri að brjóta grundvallarreglu Sjálfstfl. með víðtækari þjóðnýtingu en dæmi væru um á Íslandi og með þessu væri hann að grafa undan hinu frjálsa framtakskerfi í landinu: Það voru þessar sakir sem voru bornar á hæstv. ráðh. og þess vegna þurfti hann að biðjast afsökunar á landsfundi Sjálfstfl. Hann þurfti að biðjast afsökunar, þessi hæstv. ráðh., og það er von að hann komi hér upp í stólinn og beri ósannindi á aðra til þess að svala sér. Við heyrðum það á ummælum hv. þm. Sverris Hermannssonar áðan að það eru ekki afskaplega kærleiksrík samskipti innan Sjálfstfl. þessa dagana.

Þessir samningar, sem gerðir voru 1967, hafa í mínum huga síðan verið eins og martröð. Ég var þeirrar skoðunar og er það enn að ef áfram yrði haldið á slíkri braut, þá værum við að afsala okkur efnahagslegu sjálfstæði á Íslandi, þá værum við að afhenda erlendum auðhringum í vaxandi mæli forræði yfir efnahagsmálum okkar sjálfra. Ég leit svo á að slík þróun, eins og þá var efnt til af viðreisnarstjórninni, gæti orðið íslendingum miklu hættulegri en nokkurt hernám. Og ég leit svo á þá og lít svo á enn að það sé ein mesta nauðsyn okkar sem þjóðar að reisa varnarmúr gegn áformum af þessu tagi, að tryggja að fleiri erlend fyrirtæki ryðjist ekki inn í landið, með þeim kjörum líka eins og ég hef verið að rekja hér fyrr í mínu máli, heldur verði tekin upp sú stefna að þegar okkur hentaði að ráðast í orkufrekan iðnað, nýta orkulindir okkar, vatnsorku okkar og hveraorku, til iðnaðarframleiðslu, þá yrði þar að vera um að ræða fyrirtæki sem við íslendingar ættum að miklum meiri hl., þ. e. a. s. íslenska ríkið, ekki neinir leppar, — sem íslenska ríkið ætti að miklum meiri hl. og lyti að sjálfsögðu íslenskum lögum í einu og öllu og væri ekki háð því að við yrðum að leita undir erlenda dómstóla til þess að fá skorið úr um ágreining íslenska ríkisins og slíks fyrirtækis, sem er einhver mesta niðurlæging sem leidd hefur verið yfir íslendinga nokkru sinni. Það var einnig afstaða mín að fyrirtæki af þessu tagi yrði að vera búið ítrustu mengunarvörnum, einvörðungu í samræmi við íslenska staðla sem væru unnir af íslenskum vísindamönnum á sjálfstæðan hátt í samræmi við forsendur okkar sjálfra. Auk þess á að sjálfsögðu að tryggja raforkuverð sem auðveldaði okkur að auka rafvæðingu okkar á Íslandi, en ekki raforkuverð sem er þess eðlis, eins og um var samið 1967, að þjóðin verður að borga með því. Það er almenningur á Íslandi, það eru atvinnufyrirtækin á Íslandi sem borga árlega með raforkunni sem seld er til álbræðslunnar á þessu smánarverði. Ég vil biðja norðlendinga sem tala um orkuvandamálin hjá sér, ég vil biðja austfirðingana, sem tala um orkuvandamálin hjá sér, og ég vil biðja vestfirðingana, sem tala einnig um slík mál, að íhuga hvernig staðan væri hjá þeim ef þeir ættu kast á þeirri raforku sem nú er seld álbræðslunni langt undir kostnaðarverði. Ég hugsa að það væri jafnvel reikningsdæmi hvort það hentaði ekki íslendingum að nýta þessa raforku nú þegar til sinna eigin þarfa og rifta þessum samningi, t. d. með þjóðnýtingargerð.

Vegna þess að ég var þessarar skoðunar, þá taldi ég að á það þyrfti að reyna hvort þessi stefna mín væri framkvæmanleg eða ekki. Það er ósköp auðvelt fyrir okkur að setja upp einhverjar kenningar, halda um þær langar ræður, en við þurfum að reyna það í verki hvort slíkar kenningar standast. Vinstri stjórnin ákvað 1971 að ráðast í virkjun við Sigöldu. Ríkisstj. ákvað einnig þá að tengja saman orkuveitusvæði og freista þess að nýta þessa raforku á sem allra stærstum innlendum markaði til þess að sem flestir landsmenn fengju notið hennar, og þá höfðum við að sjálfsögðu húshitun alveg sérstaklega í huga. Kannanir, sem gerðar voru leiddu í ljós og það var naumast hægt að vefengja það að rafhitunarmarkaðurinn mundi ekki opnast að neinu marki meðan olíuverðið var jafnlágt og það var þá. Það borgaði sig hreinlega ekki fyrir fólk, sem hafði komið upp olíukyndingu í húsum sínum, að breyta yfir í rafhitun vegna þess að því fylgdi svo mikill stofnkostnaðarauki, þannig að einu nýju aðilarnir, sem talið var að kæmu þarna til greina, voru menn sem voru að koma sér upp nýjum húsum og gátu hannað rafhitun inn í sjálfan byggingarkostnað húsanna. Þess vegna var það mat sérfræðinga að enda þótt markaðurinn væri gerður að því marki, sem við gátum, víðtækari en hann var, þá mundi samt verða eftir æðimikið orkumagn senn ekki yrði neinn eðlilegur markaður fyrir um æðilangt árabil. Þess vegna beitti ég mér fyrir því að kannað væri hvort tök væru á því að koma upp orkufrekum iðnaði til þess að nýta þessa orku sem ella væri ekki markaður fyrir því að að sjálfsögðu var það ákaflega stórfellt efnahagslegt áhugamál fyrir íslendinga.

Ég setti viðræðunefnd um orkufrekan iðnað ákaflega ströng pólitísk skilyrði. Ég setti henni þau skilyrði að slík fyrirtæki yrðu að miklum meiri hl. til að vera í eigu íslenska ríkisins, að það yrði í einu og öllu að lúta íslenskum lögum og íslenskum mengunarreglum, að það mætti ekki vera svo stórt, að okkur væri ofviða fjárhagslega að ráðast í það, það mætti ekki vera það vinnuaflsfrekt, að það raskaði stöðu annarra atvinnuvega, áhrif þess mættu ekki vera það mikil, að af því hlytust félagsleg vandræði.

Þegar ég gerði n. um orkufrekan iðnað grein fyrir þessum grundvallarhugmyndum mínum, þá verð ég að viðurkenna það að ýmsir hristu höfuðið og sögðu: Ja, þetta er nú það sama og að segja: Það þýðir ekkert að fara í viðræður af þessu tagi við erlenda aðila. Það fellst enginn á svona skilyrði: — Þeir sögðu við mig: Með þessu ertu bara að sýnast. Þú þykist vilja leysa þennan vanda, en þú ert að koma þér undan því að takast á við hann í raun og veru. — Og þetta virtist raunar standa þannig um allangt skeið,

Það voru hafnar viðræður við Union Carbide. Þeir töldu það ófrávíkjanlegt skilyrði af sinni hálfu að þeir ættu algeran meiri hl. í þessu fyrirtæki. Ég lagði þá niðurstöðu fyrir ríkisstjórnarfund á sínum tíma og greindi frá þessu. Áætlanirnar voru í sjálfu sér hagkvæmar þá, en þessi ljóður var á, að Union Carbide krafðist þess að fá meiri hl. í fyrirtækinu. Það kom í ljós á þessum fundi að samráðh. mínum úr Framsfl. og SF var þetta ekki þá grundvallaratriði á sama hátt og það var í mínum huga. En ég hafði aðstöðu til þess að taka af skarið, og ég gerði það og ég sagði: Á þessum forsendum verður ekki samið. (Dómsmrh.: Er nú ekki hv. þm. farinn að kríta heldur liðugt?) Nei, nú er ég ekki farinn að kríta liðugt, þessi fundur, hæstv. viðskrh., var haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og á honum mætti, fyrir utan ríkisstj., viðræðunefnd um orkufrekan iðnað og hún bar upp þessar spurningar og það voru engin mótmæli frá ráðh. Framsfl. gegn því að teknar yrðu upp viðræður á þessum forsendum, ekki á þeim fundi. Hinu fagna ég mjög, að Framsfl. hefur mótað þessa stefnu síðan, og ég tel vera ákaflega mikið traust í því, að Framsfl. skuli hafa mótað þessa stefnu, og ég treysti því sannarlega, að hann muni halda fast við þá afstöðu, því að ég tel það ákaflega mikils virði. Hæstv. forsrh. hefur staðfest hér á þinginu að þetta sé stefna Framsfl., og ég vona að okkur takist að halda þannig á málum að það verði stefna hans áfram, því að þarna er um að ræða varnarmúr sem ég tel skipta ákaflega miklu máli.

Svo kom það í ljós á árinu 1973 að Union Carbide hafði snúist hugur. Ástæðan fyrir því var sú að félagið var í margvíslegum vanda. Það sat uppi með gamlar, andstyggilegar úreltar verksmiðjur í Bandaríkjunum sem menguðu umhverfi sitt þannig að heilbrigðisyfirvöld töldu að þau yrðu að loka þeim, og auk þess vildi Union Carbide selja kísiljárn á markað í Englandi þar sem meginkaupandinn er breskt ríkisfyrirtæki, en þurfti þá að koma upp verksmiðju í landi sem hefði viðskiptasamning við Efnahagsbandalag Evrópu. Af þessum ástæðum féllust þeir á það í fyrsta skipti í sögu þessa auðhrings að taka upp samvinnu við ríkisstj. á þeim forsendum að ríkisstj. ætti meiri hl. af hlutafénu. Þetta höfðu þeir ekki gert áður. Þetta er atburður sem markar æðimikil tímamót, og ég hygg að eftir honum verði tekið víðar en hér þegar stundir líða fram. Það eru sem betur fer æðimörg nýfrjáls ríki sem eru það vönd að virðingu sinni að þau áskilja sér rétt til að eiga meirihl. í atvinnufyrirtækjum sem starfrækt eru í þessum löndum. Þegar árangur næst í baráttu þessara ríkja, sem einmitt er háð fyrst og fremst við auðfyrirtæki, sem tryggir þeim þjóðlegt forræði á þessu sviði, þá er það ákaflega mikilvægur árangur.

Það var unnið að þessari samningsgerð og það lágu fyrir drög að samningi haustið 1973. Eins og mál stóðu þá var ég þeirrar skoðunar að meginatriðin í þeim lögum væru hagkvæm akkur íslendingum. Og ég hef ekki skipt vitundarögn um skoðun hvað þetta atriði snertir — ekki vitundarögn. Þó að hæstv. iðnrh. komi hér upp í stól og segi að ég hafi snúist, þá eru það hrein ósannindi, alger ósannindi, sem þessi ráðh. er sérfræðingur í að beita öllum öðrum mönnum fremur sem eru hér á þingi. Ég taldi að þessi drög væru hagkvæm íslendingum, og ég er þeirrar skoðunar enn. Sú afstaða hefur ekki vitundarögn breyst. En það var annað sem breyttist haustið 1973. (Gripið fram í: Það var mjög gott hjá þér það sem þú gerðir í málinu.) Já, það var mjög gott sem ég gerði í málinu. Það var mjög gott sem ég gerði í þessu máli, það er alveg tvímælalaust. Og afstaða mín til þeirrar vinnu, sem hafði verið unnin haustið 1973, hefur ekki breyst — hún hefur ekki breyst vitundarögn.

En það var annað sem breyttist haustið 1973. Það kom upp orkukreppa í heiminum sem menn höfðu ekki séð fyrir og leiddi til þess að olíuverð fimm- og sexfaldaðist á tiltölulega skömmum tíma. Og hvaða áhrif hafði það á þennan húshitunarmarkað sem ég var að tala um áðan? Það hafði þau áhrif að þessi markaður galopnaðist á svipstundu. Það varð ekki aðeins þjóðhagslega hagkvæmt að nýta orkuna til húshitunar, það varð líka fjárhagsatriði fyrir fólk sem bjó í húsum sem voru hituð upp með olíu. Og þessi markaður var það stór að hann tók við allri orku frá Sigölduvirkjun. Þetta er markaður sem nemur 800 gwst., en öll framleiðsla Sigölduvirkjunar er 700 gwst., miðað við almenna notkun á húshitun. Þá ákvað ég að sjálfsögðu að hefjast þegar í stað handa um könnun á því hvort hagkvæmt væri fyrir íslendinga og hvernig íslendingar ættu að flýta sem mest því að nýta innlenda orkugjafa í stað innfluttrar olíu. Eftir að ég hafði rætt við Orkustofnun og hún taldi sig ekki hafa aðstöðu til þess að vinna þetta verk á eins stuttum tíma og ég óskaði eftir, þá fól ég þetta verkefni stærstu ráðgjafaskrifstofu verkfræðinga á Íslandi, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, og fól henni að hraða könnun sinni svo sem verða mætti. Ég sneri mér þá einnig til Seðlabankans og bað hann að ganga frá fjármögnunaráætlun í samræmi og sambandi við þessa könnun. Ég lagði skýrslu um þessi mál, bráðabirgðaskýrslu, áfangaskýrslu, fyrir Alþ. fyrir rúmlega einu ári. Sú skýrsla sannaði ótvírætt að það var ákaflega hagkvæmt fyrir okkur íslendinga að nýta þessa raforku til húshitunar, en að sjálfsögðu að nýta heitt vatn alls staðar þar sem það var tiltækt, það liggur í hlutarins eðli. En það var ljóst að um þriðji hluti markaðarins yrði að nýta raforku til húshitunar vegna þess að þar er ekki kostur á heitu vatni, og þær niðurstöður hata að sjálfsögðu ekki breyst að neinu umtalsverðu leyti síðan.

Ég hafði hugsað mér að þessari áfangakönnun, sem ég gerði Alþ. grein fyrir fyrir rúmu ári, yrði haldið áfram af fullum krafti. En þannig fór, þegar Gunnar Thoroddsen gerðist hæstv. iðnrh. að eitt fyrsta verk hans var að stöðva þessa rannsókn. Ég hef oft talað um þetta hér á þingi í vetur, mjög oft, og ég hef flutt margar till. um það hvernig ætti að standa að þessu máli, um nauðsynlegar framkvæmdir, fjárveitingar sem ég teldi nauðsynlegar. Og þegar ekkert hreif sem ég gerði till. um, þá lagði ég hér fram 28. febr. fsp. til hæstv. iðnrh, um það, hverjar væru áætlanir ríkisstj., núv. hæstv. ríkisstj., um það, hvernig ætti að nýta innlenda orkugjafa í stað innfluttrar olíu. Ég fór fram á að annars vegar yrði gefin skýrsla um hitaveitur, um árlega áfanga, um árlega fjármögnun, hins vegar um raforkuframkvæmdir á þessu sviði, um virkjanir, stofnlínur og dreifilínur, einnig um árlega áfanga og um árlega fjármögnun. Þetta var 28. febr. Ég er búinn að auglýsa oft eftir svari við þessari fsp. Svo gerist það allt í einu í dag að það er dreift hér ákaflega virðulegu plaggi með litprentaðri kápu og miklu skrauti í sambandi við iðnrn. og það á að vera svar þessa hæstv. ráðh. Ég veit ekki hvort hv. alþm. eru búnir að lesa þetta merkilega plagg, en ég er búinn að því og ég var afskaplega fljótur að því, því að ég hef aldrei á ævi minni séð ómerkilegra svar. Í þessu er ekki nokkur skapaður hlutur sem t. d. duglegur blaðamaður, eins og sitja þarna uppi hjá okkur, gæti ekki samið á hálfum degi. Það er ekki vitundarögn fram yfir það sem maður, sem eitthvað hefur fylgst með, gæti samið á hálfum degi. Þetta er eftirtekjan af þeirri fsp. sem ég bar fram við hæstv. ráðh. Og þetta sýnir ákaflega glöggt að hæstv. ráðh. hefur enga stefnu í þessu máli, hann hefur ekki nokkra stefnu í þessu máli, hann hefur ekkert látið gera, hann hefur engan áhuga á málinu. Enda hefur hæstv. ráðh. vakið almenna undrun margsinnis með ummælum sínum um orkumál, eins og þegar hann lýsti því yfir í sjónvarpi, í einu og sama sjónvarpsviðtalinu, fyrst að næsta virkjun, sem kæmi í gagnið, yrði Blönduvirkjun, í miðju viðtalinu var hann allt í einu hlaupinn suður yfir fjöll, var farinn að tala um Hrauneyjarfossvirkjun sem næstu virkjun, og svo bara stóð hann klofvega yfir landið þvert og talaði um að virkja á báðum stöðum í einu, Blöndu og Hrauneyjarfoss, og láta virkjanirnar taka til starfa báðar í senn. Þetta má nú heita áætlunargerð í sambandi við framkvæmdir í raforkumálum!

Sú áfangaskýrsla, sem ég lagði hér fram í fyrra, sannaði hins vegar ákaflega ljóslega að það er mjög hagkvæmt fyrir okkur íslendinga að nýta raforkuna frá Sigölduvirkjun til húshitunar. Með því erum við að bæta úr mjög alvarlegu vandamáli sem brennur á þeim hlutum þjóðarinnar sem búa á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum. Það þarf í sjálfu sér enga frekari athugun til þess að komast að grundvallarniðurstöðu um það álitamál hvort eigi að nýta raforkuna í þessu skyni eða hvort eigi að halda fast við fyrri hugmyndir um að nýta orkuna til iðnaðarframleiðslu sem uppi voru meðan þessi markaður virtist ekki vera opinn. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef við tökum mið af hagsmunum íslendinga eins og þeir eru núna, þá hljótum við að láta innlenda markaðinn ganga fyrir, en láta hugmyndir okkar um það að nýta raforku til iðnaðarframleiðslu bíða þangað til við erum búnir að fullnægja þessum þörfum.

Frammi fyrir þessu vali höfum við alþm. staðið. Frammi fyrir þessu vali átti hæstv. iðnrh. að standa. En það var greinilegt að hæstv. ráðh. hafði ekki dug í sér til þess að setja sig inn í þessi vandamál. Hann beit sig aðeins í það að hér ætti að koma upp orkufrekum iðnaði þó að aðstæðurnar væru gerbreyttar, þau rök, sem voru fyrir þessari könnun í upphafi, væru horfin að þessu leyti. Og hann beit sig í það að þessi verksmiðjan skyldi rísa. En hæstv. ráðh. gerði miklu meira en það. Hann breytti í grundvallaratriðum þeim samningsdrögum sem ég hafði talið fullnægjandi 1974 og lýsti stuðningi við. Hann breytti þessum samningsdrögum í grundvallaratriðum. Fyrsta grundvallaratriðið, sem þessi hæstv. ráðh. breytti, var að hann minnkaði eign íslenska ríkisins úr 65% í 55%, og það er greinilegt á þeirri afsökunarræðu, sem hann varð að flytja klökkur á landsfundi Sjálfstfl., að hann hefði gjarnan viljað fara miklu lengra. (Iðnrh.: Veit hv. þm. hvaða mál er til umr. hér?) Ég veit hvaða mál er til umr. Ég er að svara ummælum sem hæstv. iðnrh. beindi til mín, og ég hef leyfi til þess eins og hver annar þm. að svara ámæli sem á mig er borið. (Iðnrh.: Þm. er búinn að tala í klukkutíma um allt annað mál.) Ég á eftir að tala í marga klukkutíma enn, hæstv. iðnrh. — Hæstv. iðnrh. lauk máli sínu með persónulegum svívirðingum um mig og ég hef rétt til þess að bera af mér sakir og tek til þess þeim tíma sem mér hentar. Það var hæstv. iðnrh. sem tók þetta mál á dagskrá, en ekki ég. — Hann breytti þessu, hæstv. iðnrh. og hefði viljað fara með eignarhlut íslenska ríkisins niður í ekki neitt, eins og harði kjarninn innan Sjálfstfl. sem vill hleypa inn í landið erlendum auðfyrirtækjum vegna þess að hann vantreystir hinu margrómaða einkaframtaki sínu til þess að halda uppi atvinnurekstri á Íslandi. Hann veit, að einkareksturinn megnar ekki að gera þetta. Og ofstækið er svo mikið í stjórnmálum, að til þess að halda við pólitískar kreddur sínar, þá vill flokkurinn heldur hleypa inn erlendum fyrirtækjum en sætta sig við það að við verðum að leysa vandamál atvinnuvega og efnahagsmála á Íslandi á félagslegum grundvelli. Þessu atriði breytti hæstv. ráðh.

Hann breytti fleiru. Það hafði verið samið um sölulaun við Union Carbide, 3% af framleiðslunni. Þegar um þetta var samið, þá kostaði kísiljárnið miklu minna en það kostar nú. 3% af þeirri upphæð, sem um var samið, um var talað 1973, er í dollurum reiknað miklu hærri upphæð af því verði sem kísiljárnið er núna. Það er miklu meiri hagnaður af því að selja sama magn af kísiljárni á því verði, sem er á því núna, í samanburði við það verð, sem var á því 1973. Þrátt fyrir þetta semur hæstv. ráðh. um að Union Carbide skuli fá að hækka greiðsluna til sín fyrir að selja þessa vöru upp í 3.9%, nærri því um þriðjung. Þetta jafngildir því að greiðsla til auðhringsins í dollurum á fyrsta ári hækkar fyrir þetta um hvorki meira né minna en 160%.

Hæstv. ráðh. breytti miklu fleiru. Hann breytti því m. a. að um það hafði verið samið eða gerð drög að samningi að auðhringurinn legði til tækniþekkingu og sérleyfi og aðra hliðstæða þætti fyrir fast gjald sem var metið 2.3 millj. dollara. Hæstv. ráðh. semur um það án nokkurs rökstuðnings að fyrir þessi sömu verðmæti gersamlega óbreytt skuli borgaðar 3.2 millj. dollarar. Hann hækkar þetta verð um 900 þús. dollara og færir þetta á silfurbakka og hefur ekki nokkur minnstu rök fyrir þessu.

Stofnkostnaður verksmiðjunnar hækkaði frá þeim drögum, sem ég hafði fjallað um, og yfir í drög hæstv. núv. ráðh. um rúmlega 100% og byggingarkostnaðurinn um 150%.

Allir þessir meginþættir, sem ég hafði lýst stuðningi við samkv. þeim drögum sem gerð höfðu verið 1973, voru orðnir gerbreyttir eftir að hæstv. núv. iðnrh. var búinn að fjalla um þá. En það er ekkert breytt í því, að ég er á nákvæmlega sömu skoðun og ég var um að miðað við aðstæðurnar eins og þær voru fyrir olíuverðshækkunina voru þetta hagkvæm drög fyrir okkur íslendinga. Ég hef ekki breytt neitt um skoðun hvað þetta varðar og skil varla að ég eigi eftir að gera það, svo ítarlega sem ég hef kannað þetta mál og svo vandlega sem ég hef hugleitt það.

Það er ljóst að Sjálfstfl. sárnar mjög mikið að það skuli hafa tekist að hlaða þó þann varnarmúr gegn ásælni erlendra auðfélaga að það er ekki pólitískur vilji — eins og hæstv. iðnrh. komst að orði í afsökunarræðu sinni sem hann mælti klökkur á landsfundi Sjálfstfl. — það er ekki pólitískur vilji fyrir því að hleypa inn erlendum stórfyrirtækjum. Hafi ég átt þátt í nokkru þann tíma sem ég hef starfað að stjórnmálum þá tel ég að þessi breyting á afstöðu sé það veigamesta sem ég hef unnið að. Og ég er þeirrar skoðunar að framtíð okkar sem þjóðar sé undir því komin að sá pólitíski vilji, sem nú er hér á þinginu gegn því að erlendir aðilar komi upp fyrirtækjum á Íslandi, sá vilji ekki aðeins haldist, heldur aukist. Það er sótt ákaflega fast á af ákaflega mörgum aðilum, eins og menn vita. Það rignir hugmyndunum yfir frá þessum erlendu aðilum. En það er sem betur fer aðeins hluti af Sjálfstfl. sem vill leggja þjóðfélag okkar undir slíka stefnu.

Hæstv. iðnrh. sagði í viðtali við mig í sjónvarpi fyrir alllöngu að hann væri orðinn þeirrar skoðunar að íslendingar ættu að eiga meiri hl. í iðnfyrirtækjum senn komið væri upp í orkufrekum iðnaði á Íslandi. Hann sagðist vera orðinn þessarar skoðunar. Samt er nú svo komið fyrir þessum sama hæstv. iðnrh. að hann varð að biðjast afsökunar á landsfundi Sjálfstfl. fyrir að framkvæma þessa stefnu sem hann þóttist þó í sjónvarpinu telja sína stefnu. Það er ekki mikil reisn yfir þessum málflutningi. Það er ekki reisn yfir afstöðu þessa hæstv. ráðh. En hann á auðveldara með að koma hér upp í ræðustól með dylgjur og hálfyrði og ósannindi um mig, eins og hann hefur ástundað hér í allan vetur Það lætur hæstv. ráðh. mjög vel. En hitt lætur honum greinilega miður, að þora að marka stefnu og þora að standa við hana.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sem hæstv. iðnrh. átti upptökin að, að tekið var hér til umr., með ummælum sínum hér í þessum ræðustól fyrir svo sem klukkutíma, — þetta mál sé eitthvert örlagaríkasta mál sem við okkur blasir. Ég er þeirrar skoðunar að öll stjórnmálaframtíð okkar sé komin undir því að við höldum forræði okkar sjálfra á sviði efnahagsmála og atvinnumála. Við erum lítið þjóðfélag, við íslendingar. Við eigum við ýmis vandamál að etja. Okkur greinir á um það hvernig við viljum haga skipan þessa þjóðfélags, og það er ekki nema eðlilegt að við deilum um þessi mál, að við tökumst á um þau, að við látum reyna á hvað stenst og hvað ekki kann að standast í kenningum okkar. En um eitt ættum við að vera sammála: að við eigum sjálf að eiga í þessum skoðanaskiptum, þessum átökum, að við eigum sjálf að ráða þeim úrslitum sem þar verða ráðin. Við eigum ekki að afhenda neinn þátt úr þessu mikilvæga máli í hendur aðila sem eiga heima utan Íslands, úti í hinni stóru veröld, sem varðar ekkert um og hafa engan áhuga á hvernig þessari litlu þjóð vegnar eða þessu litla þjóðfélagi sem við lifum og störfum í. Því aðeins að við gerum þetta, þá getum við háð heilbrigða stjórnmálabaráttu á Íslandi. Því aðeins að við gerum þetta, þá getum við sjálfir ráðið því í hvers konar þjóðskipulagi við viljum búa. Ef erlend fyrirtæki verða orðin burðarásinn í atvinnulífi okkar, þá ráðum við ekki lengur yfir því í hvaða þjóðfélagi við búum. Þá erum við orðnir ánauðugir menn erlendra valdhafa. Þetta er að minni hyggju örlagaríkasta vandamálið sem við stöndum frammí fyrir. Það eru skiptar skoðanir um þetta mál, en ég held að við eigum öll að reyna að eiga raunsæi og manndám til þess að snúa bökum saman, þótt okkur greini á um eitt og annað í þjóðfélagsmálum, til þess að hrinda þessum voða.

Ég veit að það er fólk í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi sem er reiðubúið til slíkrar samstöðu, og ég vil skírskota til þess fólks að láta ekki blekkja sig, að missa aldrei sjónar á þessu meginatriði: að íslendingar verða sjálfir að hafa forræði á sviði atvinnumála. Sérstaklega ættu menn að forðast að treysta mönnum sem aldrei geta talað í hreinskilni um nokkurt mál, — mönnum sem alltaf hafa vaðið fyrir neðan sig, — mönnum sem alltaf eru að sýnast, mönnum sem skortir kjark til þess að móta stefnu og standa við hana, en eru meira fyrir hitt gefnir, að gera andstæðingum upp alls konar skoðanir og beita hvers konar brellum til þess að reyna að ómerkja þá og ata þá auri. Þetta er mál af því tagi, að það þarf að vera hafið yfir svo smáskítlega afstöðu eins og kemur fram í vinnubrögðum af því tagi.