02.12.1974
Neðri deild: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

55. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur áður verið lagt hér fram á hv. Alþ. og hlaut nokkra meðferð á þingi í fyrravetur þótt bað nægði ekki að hljóta fullnaðarafgreiðslu.

Málefni verslunarskólanna eða verslunarmenntunin hafa ekki tilheyrt sviði menntmrn. fyrr en frá ársbyrjun 1970. En í marsmánuði það ár var þess farið á leit við skólastjóra verslunarskólanna beggja, Samvinnuskólans og Verslunarskóla Íslands, að þeir gerðu till. til rn. um framtíðarskipan verslunarmenntunar í landinu. Þeir töldu aftur á móti hentugra að fleiri aðilar fjölluðu um það mál, svo að þáv. menntmrh., dr. Gylfi Þ. Gíslason, skipaði hinn 29. apríl 1971 n. til þess að semja frv. til l. um þetta efni. Í þessa n. voru skipaðir Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, deildarstjórarnir Andri Ísaksson og Indriði H. Þorláksson, skólastjórarnir séra Guðmundur Sveinsson og dr. Jón Gíslason, allir skipaðir án tilnefningar, Hjörtur Hjartarson forstjóri og Gísli V. Einarsson viðskiptafræðingur, báðir skipaðir samkv. tilnefningu Verslunarráðs Íslands, Eysteinn Jónsson alþm., skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, Ölvir Karlsson oddviti, skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga.

Þessi n. vann svo mikið undirbúningsstarf, en samdi síðan og skilaði til rn. frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi. Var fullkomin einnig í þessari n. um frv. og það var lagt fram sem stjfrv. á 94. löggjafarþingi, óbreytt frá því sem n. gekk frá því. Frv. hafði verið sent mörgum aðilum til umsagnar og eru umsagnir þær, sem bárust, birtar með frv. sem fskj. Þessar umsagnir voru yfirleitt jákvæðar.

Eins og ég sagði áðan, varð frv. ekki útrætt á Alþ. hinu síðasta, en komst í gegnum Ed. sem gerði á því nokkrar breytingar. Það þótti samt ekki rétt nú í haust að taka þessar breytingar upp í frv. þegar það er lagt fram á ný, heldur leyfa því að koma fram í upphaflegri mynd, hvort sem Alþ. kýs að gera á því einhverjar breytingar eður ekki, enda er Alþ. nú öðruvísi skipað en það var fyrir kosningarnar, svo að það er engin trygging fyrir því að þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í fyrra, fyrir síðustu kosningar, séu í meira samræmi við vilja þessa þings en upphaflega frv. Þótti því réttara að leggja frv. fram bara alveg eins og n., sem samdi það, hafði gengið frá því upphaflega.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur verslunarmenntun verið veitt í tveimur einkaskólum, Samvinnuskólanum og Verslunarskóla Íslands, og þessir skólar hafa hvor um sig notið nokkurs styrks í fjárl., sem á árinu 1974 nemur 5.2 millj. kr. til Samvinnuskólans ok 33.8 millj. kr. til Verslunarskólans. Auk þess nýtur hinn síðarnefndi nokkurs stuðnings frá borgarsjóði Reykjavíkur. Það fer ekki á milli mála að ríkið hefur raunverulega vanrækt sinn þátt í verslunarmenntuninni, þar sem styrkur til einkaskólanna hefur engan veginn svarað til þess kostnaðar, sem rekstri þeirra hefur verið samfara, og ríkið hefur þannig sparað sér stórfé með þessu fyrirkomulagi í stað þess að taka verslunarmenntunina í sama mæli á sína arma og það hefur raunar gert um aðra sérmenntun í landinu. Hitt er svo annað mál, hvort þetta er hyggilegt, hvort þessi sparnaður er hyggilegur. Við sífjölþættari og fjölbreyttari atvinnu- og verslunarhætti og aukin umsvif innanlands og í samskiptum við aðrar þjóðir ber æ brýnni nauðsyn til þess að veita þeim fjölmenna hópi, sem fæst við jafnþýðingarmikil þjónustustörf og verslun og viðskipti eru, greiðan aðgang að traustri menntun til þess að skapa sér sem mesta starfshæfni, til þess að þjóðfélagið fái sem besta starfskrafta á þessu sviði. Störfin á sviði erlendra og innlendra viðskipta verða alltaf umfangsmeiri eftir því sem tímar líða og hinum auknu kröfum og þörfum þarf að mæta með aukinni þekkingu, aukinni starfsþjálfun og aukinni tækni.

Meginstefna þessa frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi er sú, að nemendur, sem lokið hafa skyldunámi, eigi þess kost að afla sér sérmenntunar til undirbúnings undir störf í viðskiptalífinu um leið og þeir treysta almennan þekkingargrundvöll sinn, eins og gengur. Námsefnið á að greinast í kjarna og kjörsvið. Í frv. eru tilgreindar 7 námsgreinar sem skulu verða í kjarna og þá kenndar öllum nemendum sem þetta viðskiptanám stunda. Þær eru þessar: Íslenska, stærðfræði, eitthvert Norðurlandamálanna, enska, vélritun, bókfærsla og hagfræði. Þessu til viðbótar eru svo kjörsvið. Það eru námsgreinar, sem menn geta valið sér eftir því sem námsbrautir og námstilhögun gefa tilefni til. En kjarnanámsgreinarnar eru öllum sameiginlegar, þeim sem verslunarnám stunda.

Gert er ráð fyrir, að námsefninu verði skipt í einingar, þannig að sem auðveldast verði að bæta við sig námi, þar eð gert er ráð fyrir að námið verði þáttur í meira eða minna samræmdri menntun á framhaldsskólastiginu almennt og geti t.d. farið fram í fjölbrautaskólum, þegar þeir koma til skjalanna, í menntaskólum og framhaldsdeildum grunnskóla og svo hins vegar í sérstökum verslunarskólum, eftir því sem sérhæfing námsins gerir kröfur um. Er miðað við að slíkir sérstakir verslunarskólar til viðbótar þeim tveimur, sem fyrir eru, verði stofnaðir eftir því sem þörf krefur og fé er þá veitt til og þeir yrðu þá ríkisskólar. Samkv. ákvæðum frv. er gert ráð fyrir því að hinn fyrsti slíkra nýrra verslunarskóla yrði reistur á Akureyri.

Viðskiptamenntun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, miðast við það að nemendur eigi völ á að búa sig undir almenn skrifstofustörf, bókhaldsstörf, afgreiðslustörf, deildarstjórastörf í verslunum og stjórnunarstörf. Jafnframt er opnuð leið til stúdentsprófs og þá framhaldsnáms í háskóla, en það er mjög nauðsynlegt að engar námsleiðir séu lokaðar, heldur geti menn haldið áfram námi ef hugurinn stefnir í þá átt.

Viðskiptanám á framhaldsskólastigi er ráðgert eins til fjögurra ára nám, þ.e. eins, tveggja eða þriggja ára almennt og sérhæft viðskiptanám og síðan eins árs viðbótarnám sem veitir menntun til stúdentsprófs og þá rétt til áframhaldandi náms á háskólastigi, hvort sem er á sviði viðskipta eða annars konar háskólanám. Hluti af viðskiptanámi á framhaldsskólastigi á að vera starfsþjálfun að sjálfsögðu og geta þeir skólar, sem slíka viðskiptamenntun veita, samið við viðskiptafyrirtæki um að annast tiltekna þætti þessarar þjálfunar, og er vitanlega bráðnauðsynlegt að á milli skólanna og viðskiptafyrirtækjanna, atvinnugreinarinnar mætti líka segja, ríki gott samstarf um þessi efni. Með þessum hætti verður nemendum enn ljósara en ella hvers hin ýmsu störf krefjast, og það verður þeim áreiðanlega góð vísbending um það, hvers konar þekkingaröflun þeim sé nauðsynlegust.

Að því er fjármálahlið þessa frv. varðar, þá er ekki því að leyna að það hefur aukin útgjöld í för með sér, eins og hv. þdm. munu hafa gert sér grein fyrir á síðasta þingi þegar þetta frv. var hér til meðferðar. Í fyrsta lagi er kveðið svo á í frv. að nýir skólar, sem stofnaðir kynnu að verða til þess að veita viðskiptamenntun, skuli verða ríkisskólar og þá auðvitað stofn- og rekstrarkostnaður þeirra greiddur að öllu leyti úr ríkissjóði, líkt og nú á sér stað um marga hliðstæða sérskóla. Í öðru lagi er tekið fram í frv. að aðrir skólar, sem viðskiptamenntun veita, svo sem í formi námsbrautar í framhaldsdeildum grunnskóla, fjölbrautaskólum og menntaskólum, skuli kostaðir af ríkissjóði samkv. kostnaðarákvæðum sem gilda um hvern þessara skóla, hvert þetta skólastig. Þannig mundi t.d. viðskiptanámsbraut í menntaskóla verða að öllu leyti kostuð af ríkinu. Í þriðja lagi er ákvæði um stuðning við þá einkaskóla sem núna starfa, Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands, og þau ákvæði hafa það í för með sér, að útgjöld til þeirra aukast mjög mikið, bæði að því er varðar stofnkostnað, sem á kynni að falla og ríkið tekur nú engan þátt í, og svo einnig að því er varðar rekstrarkostnað. Rekstrarkostnað þessara skóla á samkv. frv. að greiða að fullu, en stofnkostnað, þ.e.a.s. kennsluhúsnæði og heimavistir byggt eftir gildistöku 1., mundi ríkissjóður greiða að 80% samkv. ákvæðum frv.

Það var áætlað, þegar frv. var samið, að rekstrarframlag ríkisins til skólanna mundi verða miðað við óbreytta starfshætti þeirra, 12–15 millj. kr. til Samvinnuskólans, en 45–50 millj. kr. til Verslunarskólans. En þessar fjárhæðir hafa vitanlega hækkað síðan þetta var reiknað út. Ekki er gert ráð fyrir því í frv. að ríkisvaldið hafi afskipti af skólastjóra- eða kennararáðningum við einkaskólana þrátt fyrir þetta, en það er gengið út frá því, að stofnkostnaðarframlag ríkisins, sem kynni að renna til skólanna eftir slíkri breyttri löggjöf, yrði eign ríkisins og falli ekki til annarra ef verslunarskólarekstri yrði hætt. Það má vel vera að það kynni að þykja réttara að hafa um þetta öllu gleggri ákvæði en nú eru í frv., sbr. og það sem rætt var um þetta mál á síðasta þingi.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri við 1. umr. Ég held, að ég hafi minnst hér á þýðingarmestu þættina í frv. Það fjallar um menntun sem vissulega er mjög þýðingarmikil og umfangsmikil í okkar menntakerfi, og eins og ég sagði í upphafi: þörfin fyrir trausta og haldgóða menntun á viðskiptasviðinu fer í raun og veru vaxandi með hverju árinu sem líður.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.