03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti: Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir það hve vel hann hefur brugðist við þeim tilmælum sem ég bar fram f. h. okkar alþb.- manna um að gefa Alþ. skýrslu um nýgerða samninga við Bandaríkin, samninga um flugvallar- og herstöðvarmál, og sömuleiðis að birta þá samninga, sem um þetta efni hafa verið gerðir. Þessir samningar voru ekki birtir fyrr en í gær, og leit helst út fyrir að það væri alls ekki ætlun hæstv. ríkisstj. að birta þessa samningagerð. Fyrir þetta er ég sem sagt hæstv. utanrrh. þakklátur. Ég hefði vissulega kosið að eiga þess kost að þakka honum fyrir fleira í sambandi við þessi alvörumál, en athafnir hans á því sviði hina síðustu mánuði koma því miður í veg fyrir það. Það er bæði gömul og ný saga, að jafnvel hinir bestu menn geta tapað réttum áttum, geta leiðst út í ógöngur, ef þeir lenda í misjöfnum félagsskap.

Allt frá því að hæstv. núv. ríkisstj. var mynduð þá mátti að sjálfsögðu gera ráð fyrir umtalsverðum breytingum á stefnu íslenskrar ríkisstj. að því er tæki til hinna svonefndu varnarmála. Menn vissu hver stefna Sjálfstfl. var í þeim málum. Það höfðu þeir sjálfstæðismenn gert þjóðinni algerlega ljóst. Hún lá tiltölulega ákveðin og skýr fyrir. Menn töldu að Framsfl., hinn stjórnarflokkurinn, hefði einnig stefnu í þessum málum, stefnu sem væri töluvert önnur heldur en sú sem Sjálfstfl. hafði mótað. Þess vegna hygg ég að flestir hafi gert ráð fyrir því að sú stefna, sem hin nýja ríkisstj. þessara tveggja flokka mótaði í herstöðvarmálinu, yrði einhvers konar málamiðlun, þar sem ekki væri fylgt stefnu annars stjórnarflokksins, heldur hefðu náðst samningar um að fara þar með einhverjum hætti bil beggja, og e.t.v. hefði mörgum dottið í hug að það væri eitthvað töluvert af stefnu Framsfl. í slíku samkomulagi, þegar það lá fyrir að hæstv. núv. og fyrrv. utanrrh. átti að fara með þessi mál eftir sem áður, jafnt eftir stjórnarskipti eins og fyrir þau. Því miður lítur málið þannig út, að það sé stefna annars stjórnarflokksins hrein og bein, sem um hefur verið samið og hæstv. utanrrh. virðist nú hafa tekið að sér að framkvæma.

Ég held að það sé ástæða til í þessu sambandi að rifja upp, þótt ekki verði það gert í löngu máli, hina yfirlýstu og opinberu stefnu Framsfl. í sambandi við herstöðina á Reykjanesskaga.

Allt frá því er Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, þá hygg ég að það hafi verið hin yfirlýsta stefna Framsfl. að hér skuli ekki vera her á friðartímum. Það er að sjálfsögðu matsatriði hvenær eru friðartímar og hvenær ekki, það skal ég fúslega viðurkenna. En þetta stefnuatriði var frá upphafi beinlínis forsenda þess að framsóknarmenn féllust á það á sínum tíma, að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Þetta hefur komið fram við mörg tækifæri. Þegar herinn kom svo hingað að nýju árið 1951 var því lýst yfir af hálfu framsóknarmanna að þeir samþykktu herstöðvarsamninginn, sem þá var gerður, vegna þess hve þá væri ófriðvænlegt í heiminum, en jafnframt skírskotuðu þeir til fyrri yfirlýsinga um að hér skyldi vera herlaust land á friðartímum.

Á flokksþingi Framsfl. árið 1956 var samþ. að flokkurinn skyldi beita sér fyrir endurskoðun hins svonefnda varnarsamnings frá 1951 með það fyrir augum, eins og stendur í ályktun þessa flokksþings, „að varnarliðið hverfi úr landi“. Og áfram segir í þessari samþykkt: „Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn skv. 7. gr. samningsins“. Framsfl. varð, eins og menn muna, síðar þetta sama ár forustuflokkur hinnar fyrri vinstri stjórnar, ríkisstj. sem hafði brottför hersins á stefnuskrá sinni. Sú stjórn heyktist að vísu á framkvæmd þeirrar stefnu og bar við versnandi horfum í alþjóðamálum og yfirvofandi styrjaldarhættu. Ég fer ekki nánar út í þá sálma.

Mér er ekki alveg fullkunnugt um það, hverjar samþykktir framsóknarmenn gerðu í herstöðvarmálínu næsta áratug, en þó hygg ég að flokksþing þeirra á þessu tímabili, eitt eða fleiri, hafi áréttað hinn gamla fyrirvara um herleysi á Íslandi á friðartímum. Hitt er mér í tiltölulega fersku minni, að frá þingi Framsfl., sem haldið var nokkru fyrir alþingiskosningarnar 1971, kom ályktun þar sem einmitt var minnt á fyrirvarann um herlaust land á friðartímum. Síðan segir í þessari ályktun flokksþingsins frá því snemma á árinu 1971:

„Samkvæmt þessum fyrirvara og í samræmi við fyrri yfirlýsingar vill Framsfl. vinna að því, að varnarliðið hverfi úr landi í áföngum.“

Mér er sérstaklega minnisstætt þetta ákvæði í samþykkt þeirra framsóknarmanna frá flokksþinginu 1971 vegna þess, að eftir alþingiskosningarnar það sumar átti ég þess kost að fylgjast með og taka nokkurn þátt í samningaviðræðum þriggja flokka um stjórnarmyndun, — samningaviðræðum sem leiddu til myndunar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Frá þeim dögum minnist ég m.a. og e.t.v. ekki hvað síst einkar ánægulegs samstarfs við núv. hæstv. utanrrh. Hann hafði þá að vonum, þá daga sem verið var að semja um þessa ríkisstj., mjög á lofti dálitla bók, sem hafði að geyma samþykktir síðasta flokksþings Framsfl., sem þá hafði verið haldið ekki alls fyrir löngu. Meðal margra atriða, sem samkomulag varð um að taka upp í málefnasamning vinstri stjórnarinnar sumarið 1971, var ákvæði sem hljóðaði á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.“

Hér var um að ræða eitt af grundvallaratriðunum í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Alþb. hefði að vísu kosið afdráttarlausara orðalags á þessu ákvæði málefnasamningsins. Það hefði vissulega viljað losna við herinn allan svo fljótt sem samningsákvæði framast heimiluðu. En hér var gengið til móts við samstarfsflokkinn með þeim hætti, að fallist var á orðalag, sem heita mátti nákvæmlega hið sama eða hafði sama innihald og sú samþykkt, sem flokksþing framsóknarmanna hafði gert þá fyrir fáeinum vikum eða mánuðum.

Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafði verið mynduð gafst því Framsfl. alveg sérstakt tækifæri, gullið tækifæri til að framkvæma margyfirlýsta stefnu Framsfl. í herstöðvarmálinu, þá stefnu að láta herinn fara í áföngum. Hæstv. utanrrh., varaformanni Framsfl., var falin framkvæmd þessarar stefnu undir forsæti sjálfs flokksformannsins.

Þessa framkvæmdasögu ætla ég ekki að rekja í löngu máli. Það er því miður engin hetjusaga af hálfu þeirra leiðtoga Framsfl. og sögulokin eru óneitanlega fremur dapurleg. Eftir að stjórn Ólafs Jóhannessonar hafði verið mynduð var það viðurkennt af þeim flokkum öllum, sem að henni stóðu, að annað hinna stærstu mála, sem sú stjórn hafði á stefnuskrá sinni, útfærsla landhelginnar í 50 sjómílur, skyldi hafa algeran forgang af hinum stóru og viðkvæmu og mikilvægu málum. Hæstv. utanrrh. í þeirri stjórn og hinni, sem nú situr, lagði á það mjög ríka áherslu við ýmis tækifæri, að hann teldi ekki rétt að hefjast handa um að framfylgja öðru stórmáli herstöðvarmálinu, mánuðina fyrir og eftir útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur. Á þetta féllumst við alþb.- menn eða sættum okkur a.m.k. við það í bili að þannig væri á málum haldið. Persónulega hlýt ég að játa, að það jók til muna traust mitt á því, að við samningsákvæði stjórnarsáttmálans um brottför hersins yrði staðið af samstarfsflokknum, hve myndarleg stefnubreyting varð að því er varðaði stefnumörkun og meðferð utanríkismála undir forustu hins nýja utanrrh., sem tók við 1971, frá því sem verið hafði á tímum viðreisnarinnar sælu, þegar ekki varð sagt að við héldum höfði sem fullvalda og sjálfstæð þjóð. Á alþjóðavettvangi, svo sem á þingi Sameinuðu þjóðanna og víðar vorum við íslendingar skyndilega teknir að haga okkur eins og eðlilegt mátti telja um sjálfstætt smáríki. Við vorum ekki lengur eins og halakleppur Bandaríkja Norður-Ameríku.

Þegar fullt ár var liðið af kjörtímabilinu og engin hreyfing komin á herstöðvarmálið, þá hygg ég að það hafi farið að fjölga fsp. okkar alþb.-manna um það, hvenær ætlunin væri að hefjast handa um að framkvæma eitt aðalákvæði stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstj. Hæstv. utanrrh. svaraði því þá gjarnan til, að nauðsynlegt væri að undirbúa þetta mál svo vel sem nokkur kostur væri og afla sem mestra og gleggstra upplýsinga og gagna til að auðvelda ákvarðanatekt um framgangsmátann, um það hvernig ætti að standa að því að framkvæma ákvæði stjórnarsáttmálans.

Stjórnarandstaðan á þeim tíma, einkum forustumenn Sjálfstfl., hamraði og á því, að nauðsynlegt væri að fá umsagnir úr ýmsum áttum um hernaðargildi Íslands. Fljótlega sneri og hæstv. utanrrh. sér til framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og fór fram á grg. frá honum eða bandalaginu um mikilvægi hersins og herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Á það var hins vegar frá upphafi og alveg sérstaklega á þessum tímum lögð áhersla af hálfu okkar alþb: manna, að umsagnir, t.a.m. frá Atlantshafsbandalaginu sjálfu, frá Pentagon eða öðrum svonefndum hernaðarsérfræðingum, væru ekki sá grundvöllur, sem við Íslendingar gætum reist ákvarðanatekt okkar á. Spurningin um það hvort herinn ætti að vera eða fara, hlyti að byggjast og hefði við myndun ríkisstj. byggst á mati okkar sjálfra, hún hefði byggst á stjórnmálalegum og félagslegum rökum. Hitt, að spyrja hernaðarsérfræðingana, væri í rauninni ósköp svipað því og að biðja til að mynda bruggarafélagið um umsögn um það, hvort ekki væri rétt að hætta að brugga. Umsögn Atlantshafsbandalagsins kom að sjálfsögðu að vörmu spori að heita mætti, og hún var eins og öll efni stóðu til. Auðvitað telur stjórn bruggarafélagsins, að það sé ekki aðeins sjálfsagt að halda áfram að brugga, eiginlega þyrfti að brugga bæði fleiri og sterkari tegundir en áður. „Hernaðarmikilvægi Íslands fer vaxandi með hverju ári“, segir þar. Það er endurtekin sama fullyrðingin og heyrst hefur úr þessari átt frá stjórnendum Atlantshafsbandalagsins í meira en 20 ár. Það hlakkaði vissulega í forstöðumönnum Sjálfstfl. og Morgunblaðinu, aðalmálgagni þess flokks, þegar hér var komið sögu. Þeir voru farnir að gera sér vonir um að hægt yrði að drepa þessu stórmáli á dreif og hindra framkvæmd eins allra mikilvægasta atriðis stjórnarsáttmálans, hindra það að herinn yrði látinn fara.

Þeim varð þó ekki að öllu leyti að von sinni um hríð. Seint og síðar meir hófst hæstv. utanrrh. handa um að æskja þess, að fram færi formleg endurskoðun herstöðvarsamningsins eins og mælt er fyrir um í þeim samningi. Mér og mörgum öðrum fannst að vísu sem framganga hæstv. ráðherra næstu mánuðina hefði þurft að vera töluvert einbeittari og skeleggari en raun varð á. Við reyndum að bera í bætifláka og bárum í bætifláka fyrir hann og fyrir þá forustumenn Framsfl. aðra, sem okkur fannst vera nokkuð deigir og hikandi við að framkvæma margyfirlýsta stefnu eigin flokks um brottför hersins í áföngum. Við vissum, að innan Framsfl, voru hernámssinnar og það töluvert öflugir, sérstaklega hér á þéttbýlissvæðinu í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, og sumir þeirra hernámssinna Framsfl. voru ekkert sérlega ólíklegir til þess að samfylkja stjórnarandstöðunni til að hindra framkvæmd þessa atriðís málefnasamnings ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Við vissum, að þessi skoðun, að ekki ætti að framkvæma margyfirlýsta stefnu Framsfl., átti líka einhvern hljómgrunn hjá tilteknum framsóknarþingmönnum, að því er talið var. Von okkar hins vegar — og ég skal játa að það var ekki fyrr en seint og síðar meir sem sú von mín dofnaði, — var sá, að hinn ótvíræði meiri hluti í Framsfl., fólkið sem á undanförnum árum og áratugum hafði mótað þá stefnu flokksins, að herinn ætti að fara, að vísu á einhverju tímabili og í áföngum, þetta fólk mundi koma í veg fyrir þann óvinafagnað, sem annars væri í uppsiglingu, og tryggja stefnu Framsfl. sigur í þessu máli. Við héldum meira að segja sumir hverjir, að hæstv. utanrrh. bæði vildi vera og væri merkisberi þessa fólks, þessa meiri hluta síns eigin flokks, að vísu varkár merkisberi, kannske svolítið hikandi, en þó þeirrar skoðunar að standa ætti við hátíðlegar yfirlýsingar og gefin heit á flokksþingum og í stjórnarsáttmála. Aðrar og meiri kröfur gerðum við ekki en þær, að Framsfl. framkvæmdi markaða stefnu sína í þessu máli, þegar hann hafði tækifæri til. En þetta verkefni vafðist því miður ákaflega fyrir leiðtogum Framsfl.

Í október og síðan einnig í nóvembermánuði í fyrra fóru loks fram viðræður við bandaríkjamenn um herstöðvarmálið og um framkvæmd á stefnu ríkisstj. í því máli. Á nóvemberfundinum í fyrra lögðu bandaríkjamenn fram till. um tilteknar breyt. á herstöðinni, — till., sem gengu í þá átt að draga nokkuð úr umsvífum þar. En ríkisstj. Íslands, sú sem þá var, taldi þessar till. þó allsendis ófullnægjandi, enda var langur vegur frá að þær næðu því marki, sem sett var með stjórnarsáttmálanum.

Hófst nú nokkuð langvinnt umræðuþóf innan ríkisstj. og meðal stuðningsflokka hennar, sem lauk með því að stjórnarflokkarnir fyrrv. náðu í marsmánuði s.l. samkomulagi um umræðugrundvöll, sem lagður skyldi fyrir stjórn Bandaríkjanna. Kjarni þess samkomulags fólst í 1. gr. þess, sem er þannig, með leyfi hæstv, forseta:

„Varnarlið það, sem nú er á Íslandi, skal hverfa af landi brott í áföngum. Skal brottflutningnum hagað þannig, að fyrir árslok 1974 verði fjórðungur liðsins farinn, helmingurinn fyrir mitt ár 1975, þrírfjórðu fyrir árslok 1975 og síðasti hlutinn fyrir mitt ár 1976.“

Hér var sem sagt enn eftir langt þóf við forustumenn Framsfl. ítrekuð hin gamla og nýja stefna, yfirlýsta stefna þess flokks um brottför hersins í áföngum. Með þetta veganesti — einmitt þetta veganesti — fór svo hæstv. utanrrh. vestur til Washington á viðræðufund í aprílmánuði s.l. vor. Og einmitt á þessum grundvelli gengu fyrrv. stjórnarflokkar, allir þrír, til kosninganna nú í sumar, Framsfl. alveg eins og Alþb. og SF. Hæstv. utanrrh. hefur líka lýst því yfir af hreinskilni í blaðaviðtali og ég hygg einnig í sjónvarpi, að stefna Framsfl. í herstöðvarmálinu, hin eiginlega stefna hans, hafi ekkert breyst, hún sé eins og áður, að hér skuli ekki vera her á friðartímum og að herinn, sem hér sé nú, eigi að fara í áföngum. Það séu bara, bætir hann við, ekki tök á því að framkvæma þessa stefnu eins og sakir standa.

Hæstv. utanrrh. er nú orðinn utanrrh. í nýrri ríkisstj., en eftir sem áður oddviti íslenskra utanríkismála. Hann segist ekki vera þar nú þessa stundina til að framkvæma stefnu flokks síns í herstöðvarmálinu. Hann segir, að slíkt sé ekki kleift undir þeim kringumstæðum sem nú eru. Hann viðurkennir sem sagt að hann hafi orðið og hans flokkur að leggja þá stefnu á hilluna í bili, því að hún hafi ekki meirihlutafylgi á Alþ. En það, sem margan undrar, er þetta: Hæstv. utanrrh. virðist hafa tekið að sér að framkvæma allt aðra stefnu í herstöðvarmálinu en þá, sem hann hafði heitið að framkvæma í fyrri ríkisstj., og allt aðra stefnu en þá, sem er yfirlýst stefna hans eigin flokks, raunar þveröfuga stefnu, yfirlýsta stefnu Sjálfstfl. Svo vill nú raunar til, að sú stefna er einnig í afar góðu samræmi við stefnu Bandaríkjastjórnar í þessu herstöðvarmáli Íslands.

Það kann raunar að vera, að ekki sé það tilviljun ein, sem því veldur, að ekki verður auðveldlega greindur munurinn á stefnu Sjálfstfl. íslenska og bandarískra stjórnvalda að því er tekur til herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Það er mikið vatn runnið til sjávar, enda 29 ár liðin síðan hinn nýkjörni varaformaður Sjálfstfl., hæstv. félmrh., stóð í ræðustól 1. des. 1945 og sagði þessi orð, með leyfi hæstv. forseta.

„Mér virðist, að ekki þurfi lengi að velta vöngum yfir því, hvað herstöðvar erlends ríkis í landi annarrar þjóðar höggvi stórt skarð í umráðarétt hennar yfir landi sínu,“

Síðar í sömu ræðu áréttaði ræðumaður þessa skoðun með því að segja, að til fulls geti þjóðin ekki ráðið yfir landi sínu, meðan erlendur her er í landinu.

Nú eru viðhorfin önnur og hafa raunar lengi verið hjá forustumönnum Sjálfstfl. Nú styðja ýmsir forustumenn hans og kannske allir ekki aðeins erlenda hersetu hér um ófyrirsjáanlega framtíð, að því er virðist, heldur eru a.m.k. sumir þeirra, svo sem ræðumaðurinn skeleggi frá 1. des. 1945, hæstv. félmrh., reiðubúnir til að biðja bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli að halda uppi sjónvarpi handa íslendingum.

En sú stefna Sjálfstfl., að hér skuli vera erlendur her og herstöðvar um ótímabundna framtíð, er engan veginn ný af nálinni. Hún kemur ekki nokkrum manni á óvart í dag. Það, sem margir furða sig á og eiga misjafnlega gott með að sætta síg við, er hitt, að Framsfl. skuli ekki aðeins hafa fallist á stefnu Sjálfstfl. í herstöðvarmálinu í bili, heldur skuli hann beinlínís taka að sér að framkvæma þá stefnu.

Ég ætla ekki að reyna að geta mér til um það, hvernig hæstv. utanrrh. bragðast innihald þess bikars, sem hann virðist hafa tekið að sér að tæma í botn. Það eitt vil ég segja þar um, að undir svipuðum kringumstæðum fyrr á öldum þótti hollráð að láta grön sía, ef ekki átti illa að fara. E.t.v. er það enn í gildi.

Ýmsir hafa látið í ljós furðu sína á því, að hæstv. utanrrh. skyldi ekki hafa tekist á þrem árum að framkvæma stefnu fyrrv. ríkisstj. í varnarmálunum, þessa margyfirlýstu stefnu hans eigin flokks. Þeim hinum sömu sem eru hissa á þessu þykir undarlega við bregða þegar það tekur hæstv. ráðh. ekki nema 3 vikur eða þar um bil að koma hinni stefnunni, stefnu Sjálfstfl., heilli í höfn að því er samninga snertir. Menn velta síðan yfir því vöngum, hvort það hafi í raun verið síðara stefnumarkið, áframhaldandi herseta um óskilgreinda framtíð, sem hafi staðið hug leiðtoga Framsfl. næst, en ekki hitt, að herinn ætti að fara í áföngum. Ég trúi því ekki að þessi skýring sé rétt, en hitt er staðreynd, og þar hygg ég að skýringuna sé að finna, að innan Framsfl. hafa lengi veríð og eru enn í dag býsna sterk öfl, þótt þau hafi verið í minni hluta á flokksþingum; sem aðhyllast mjög líka stefnu í þessum málum eins og þá sem Sjálfstfl. hefur mótað, stefnu mikilla umsvifa, mikilla gróðamöguleika á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg að það sé þessi armur Framsfl., — hann er eins og ég sagði áðan töluvert sterkur í Reykjavik og Reykjaneskjördæmi, — þessi armur sem löngum hefur látið nokkuð ófriðlega. Honum tókst fyrir kosningarnar s.l. sumar að skjóta forustumönnum Framsfl. skelk í bringu. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma, en rifja það aðeins upp, að rétt fyrir kosningarnar hafði dagblaðið Tíminn mjög undarleg ummæli eftir hæstv. utanrrh. um eðli og innihald þess samningsgrundvallar, sem vinstri stjórnin hafði gengið frá í marsmánuði. Ritstjóri Tímans, hv. 4. þm. Reykv., þingflokksformaður Framsfl., Þórarinn Þórarinsson, virtist vera orðinn svo smeykur við þetta hægra lið Framsóknar í Reykjavík, að hann var farinn að rifja upp gamlan samsetning, — við skulum orða það þannig, — um okkur Alþb.- menn, hann var farinn að viðhafa í Tímanum munnsöfnuð, sem ég hélt að Morgunblaðið hefði fengið einkarétt á fyrir löngu. Nú var það sem sagt af, sem verið hafði um skeið, meðan ég gat ekki betur séð en þeir framsóknarforingjarnir treystu okkur alþb.-mönnum a.m.k. jafnvel og sjálfum sér til margra góðra hluta.

Nú gerðist það rétt fyrir alþingiskosningarnar í vor, eins og ég áðan sagði, að ótti leiðtoga Framsfl. við hægra liðið í Reykjavík lagði í raun og veru grundvöllinn að þeirri stefnubreytingu sem greinilega kom í ljós eftir kosningar, þegar þessir leiðtogar virtust aldrei í alvöru vilja ljá máls á neinu öðru en stjórnarmyndun með Sjálfstfl. Eru það því að mínu viti hin sterku, ískyggilega sterku áhrif hægra liðsins og fésýslumanna Framsfl. í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, sem valda því að núv. ríkisstj. varð til, sem valda því að hæstv. utanrrh. hefur tekið að sér það litt öfundsverða hlutverk að framkvæma stefnu Sjálfstfl. og hægra arms framsóknar í herstöðvarmálinu.

Eins og ég áður sagði þurfti engum að koma það á óvart eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, þótt veruleg stefnubreyting yrði í sambandi við flugvöllinn og varnarliðið sem svo er kallað. En hitt vekur furðu, eins og ég hef nú rakið að nokkru, hve gagnger þessi stefnubreyting er. Ég hafði a.m.k. gert mér vonir um eða gert ráð fyrir því að hæstv. utanrrh., fyrst hann hélt áfram í því embætti í nýrri ríkisstj., legði á það áherslu að bandaríkjamenn stæðu a.m.k.við þær till. sem þeir gerðu sjálfir í nóv. í fyrra og fyrrv. ríkisstj. taldi að vísu allsendis ófullnægjandi. En ekki einu sinni þetta hefur gerst. Sá samningur, sem nú er gerður, er að ýmsu leyti og raunar flestu leyti lakari heldur en það sem bandaríkjamenn virtust tilbúnir til að fallast á í samningagerð á fyrra ári.

Ég ætla þá að víkja nokkuð að einstökum atriðum í samningi þeim um hin svonefndu varnarmál, sem undirritaður var hinn 22. okt. s.l. og hæstv. utanrrh. hefur nú gefið skýrslu um og birt.

Þegar samningsdrög þessi voru til umr. í utanrmn. gerði fulltrúi Alþb. að till. sinni að samkomulag þetta yrði lagt fyrir Alþ. áður en ríkisstj. staðfesti það. Till. um þessa málsmeðferð var felld í n. Hafði því þó áður verið marglýst yfir, bæði af hæstv. utanrrh. sog hæstv. dómsmrh., fyrrv. forsrh., að niðurstöður samkomulagstilrauna við bandaríkjamenn um herliðið og herstöðina yrðu lagðar fyrir Alþ. til ákvörðunar, hverjar sem þær yrðu. Nú virtist ekki lengur vera nein ástæða til þess að dómi þessara forustumanna. Hæstv. utanrrh. hefur sagt í viðtali við fjölmiðla að hann telji að ekki sé lagaskylda að bera samkomulag þetta undir Alþ., það hafi ekki verið það, þar sem þetta samkomulag sé gert á grundvelli og innan ramma herstöðvarsamningsins frá 1951. Vel má vera að þetta sé rétt að því er hina lagalegu hlið snertir. Hitt er óneitanlega einkennilegt, að hinn sami hæstv. ráðh. sem marglýsti því yfir í tíð fyrrv. ríkisstj. að ekkert yrði afráðið endanlega í þessum efnum fyrr en Alþ. hefði þar um fjallað, skuli nú hafa talið slíka málsmeðferð ástæðulausa og óþarfa. Ég fæ raunar ekki betur séð en hér sé á ferðinni eitt dæmi þess af nokkuð mörgum hverjir það eru sem ráða á þessu nýja stjórnarheimili, og það virðist raunar vera því líkast sem þeir sjálfstæðismenn leggi á það töluverða áherslu að framsóknarleiðtogarnir beygi sig nokkuð djúpt, einkum á sviði utanríkismála. Hinir síðarnefndu, það verð ég að segja, eru furðufljótir að söðla um, furðufljótir að hlýða, hvort sem um er að ræða að breyta stefnu eða starfsaðferðum.

Afstaða Alþb. til þess samkomulags, sem nú hefur verið gert, hefur komið fram við ýmis tækifæri, fyrst með bókun í utanrmn., þá með samþykkt framkvæmdastjórnar og loks á landsfundi flokksins nú fyrir skömmu.

Alþb. er algerlega andvígt þessum samningi og fordæmir hann, fyrst og fremst vegna þess að með honum er gengið þvert á þá stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. markaði, að hinn erlendi her skyldi hverfa af landi brátt í áföngum á næstu árum. Með samningi þessum er aftur á móti ákveðið að ráðast í stórframkvæmdir á vegum hersins og er í raun og veru ekki hægt að skilja sum ákvæði þessa samkomulags og þeirrar bókunar, sem fylgir, á aðra lund en þá, að verið sé að búa í haginn fyrir langvarandi hersetu. Hér er gert ráð fyrir að herinn byggi hundruð íbúða fyrir sína menn, — íbúða úr varanlegu efni, — og talið er að slíkt muni kosta um 2 milljarða kr. a.m.k. Þá eru og ráðgerðar stórfelldar breytingar á flugvellinum og flugvallarrekstrinum og hefur í sambandi við þær framkvæmdir verið nefnd mjög há fjárupphæð — nokkrir milljarðar kr. Í slíkar stórframkvæmdir ráðast þeir einir sem hljóta að reikna með nokkuð varanlegri aðstöðu, hljóta að gera ráð fyrir nokkuð langri dvöl bandarísks herliðs á Miðnesheiði.

Í þeirri bókun, sem hinum nýja samningi fylgir, segir að varnarliðið muni fækka í liði sínu um 420 manns. En umsvif þessa svokallaða varnarliðs eiga þó ekki að minnka á einn eða neinn veg. Í stað þessara 420 bandarísku starfsmanna eiga að koma nákvæmlega jafnmargir íslenskir starfsmenn, að því er virðist til þess að taka við nákvæmlega sömu störfunum og hinir höfðu gegnt. Þeir eiga að koma og taka þarna við, þegar búið er að þjálfa þá og kenna þeim til verka, hvaða verk sem þetta kunna nú að vera. Mér skilst að þetta sé eitt þeirra samningsatriða sem hæstv. utanrrh. telji samningi þessum til töluverðs gildis.

En er það nú svo, að hér sé um að ræða ráðstöfun sem ástæða er til að státa verulega af? 420 Íslendingar, vafalaust á góðum starfsaldri, verða teknir út úr íslensku atvinnulífi og ráðnir í þjónustu bandaríkjahers, látnir taka þar við störfum þeirra 420 bandaríkjamanna sem þá eiga að hverfa heim. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem ekki vilja hafa hér erlendan her til frambúðar, hygg ég að það sé óneitanlega töluvert umhugsunarefni hvernig eigi að snúast við atriði eins og þessu, það sé í raun og veru töluvert umhugsunarefni og geti verið áhyggjuefni, ef íslendingar gerast atvinnulega og efnahagslega háðari herstöðinni en þó hefur verið nú um allmörg undanfarin ár.

Ég vík að því nokkru nánar hér á eftir, hvernig þetta atriði og önnur fyrirhuguð umsvif á Keflavíkurflugvelli koma til með að verka eða koma við sjávarútveg og fiskiðnað á Suðurnesjum, sem af ýmsum ástæðum berst í bökkum í dag og stendur raunar enn þá hallari fæti en sjávarútvegur og fiskiðnaður í öðrum landshlutum, og kemur þar ýmislegt til.

Það er afar einkennandi fyrir allt þetta samkomulag, sem hér hefur verið gert og er til umr., hversu óljóst og fljótandi orðalag er þar á fjölmörgum atriðum. Það er margendurtekið í samkomulaginu að Bandaríkjastjórn muni leitast við að gera hitt og þetta, að eitt og annað skuli gert innan hæfilegs tíma, eftir því sem fjárveitingar leyfa o.s.frv., o.s.frv. Segja má að í þessum samningi, ekki lengri en hann er, séu alveg ótrúlega margir fyrirvarar, margar hálfkveðnar vísur, og raunar er þarna miklu fremur um að ræða viljayfirlýsingu heldur en eiginlegan samning. Það má kalla þetta í rauninni lauslegan ramma og er því líkast sem samningsaðilar ætli svo að nota einhverja ókomna framtíð, sem ég veit ekki hversu löng á að vera, til þess að fylla út í þennan ramma, en það virðist auðsætt að það verði ekki gert nema á nokkuð löngum tíma, jafnvel allmörgum árum. Það er enn eitt einkenni þessa samkomulags að þar eru engar tímasetningar um eitt eða neitt, nema í 5. gr. segir að Bandaríkjastjórn lýsi því yfir að hún muni leitast við að láta í té tiltekinn búnað á Keflavíkurflugvelli, sem á 10 ára tímabili muni tryggja ákveðna aðstöðu eins og þar greinir.

Þá vil ég víkja nokkuð að E-lið þeirrar bókunar, sem samkomulaginu fylgir og er raunverulega hluti af því. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Báðar ríkisstj. munu athuga leiðir til þess að efla samvinnu milli varnarliðsins annars vegar og íslensku landhelgisgæslunnar, almannavarna og flugmálastjórnarinnar hins vegar.“

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvað felist í raun og veru að baki þessa ákvæðis. Er það ætlun íslenskra stjórnvalda að semja um það, að bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli taki að sér einhverja ákveðna þætti þeirra málaflokka sem hér hafa verið nefndir, þ.e.a.s. málaflokka sem heyra undir landhelgisgæslu, almannavarnir og flugmálastjórn? Í hve ríkum mæli er ætlunin að auka þá samvinnu sem þarna er verið að nefna? Er að því stefnt að gera okkur á tilteknum mjög viðkvæmum sviðum sumum hverjum sem háðasta herstöðvarfólkinu? Getur það verið að sagan um herstöðvarsjónvarp kostað af bandaríkjamönnum handa íslendingum eigi eftir að endurtaka sig í dálítið breyttri mynd?

Ég vil leyfa mér að beina þeim varnaðarorðum til hæstv. utanrrh. að hann fari hér að með fullri gát. Ég vil treysta því að hann geri það. Ég minnist þess naumast að hafa séð eða lesið samning af svipaðri lengd og þennan, þar sem jafnmörg atriði eru óljós og fljótandi, atriði, sem augljóslega virðist vera hægt að teygja og toga á ýmsa vegu. Mér þykir líklegt að það eigi í rauninni ekki aðeins við um mig, eða okkur alþb.-menn, heldur einnig þá mörgu framsóknarmenn víðs vegar um land, sem héldu í 3 ár að hæstv. utanrrh. væri að vinna að framkvæmd mótaðrar stefnu flokksins í herstöðvarmálinu, að þeim þyki þessi samningagerð öll heldur slæm. Margir hefðum við viljað kjósa hæstv. utanrrh. önnur örlög en þau að framkvæma herstöðvarstefnu Sjálfstfl. og Varins lands. Við hernámsandstæðingar höfum oft og einatt staðhæft, að langvarandi hersetu fylgi margvísleg miður holl áhrif á íslenskt þjóðlíf, og við höfum stundum bent á einstök dæmi þessu til sönnunar. Engin umtalsverð félagsleg rannsókn á þessum efnum hefur farið fram, en þó hefði vissulega verið full ástæða til að það hefði verið gert. Þess vegna má með nokkrum rökum segja, að hver hljóti að hafa um þessi efni þær skoðanir á áhrifum af herstöðinni eða frá herstöðinni sem honum þykja trúlegastar.

Öðru hvoru gjósa þarna sunnan að sögusagnir um þjófnað, brask, smygl, sölu fíkniefna og annað af svipuðu tagi, og ósjaldan hygg ég að bæði íslendingar og bandaríkjamenn þarna á vellinum og í tengslum við völlinn, hafi orðið uppvísir að einu og öðru af slíku tagi. Þetta þarf í rauninni engum að koma á óvart og ég ætla ekki að fjölyrða um þetta atriði nú. Það er í rauninni hinn vísi fylgifiskur ástands, sem er óeðlilegt og óheilbrigt, að erlent herlið búi áratugum saman í sambýli við íslenska borgara, bæði innan vallar og utan.

Ég tel hitt í rauninni meira undrunarefni, hversu mikið enn er að finna af viðnámsþrótti, af þjóðlegri reisn hjá fólkinu í útgerðarstöðunum á Suðurnesjum og í byggðunum þar, hjá því fólki, sem hefur mátt búa við þetta óeðlilega hernaðarástand um tugi ára og sumt hvað hefur ekki kynnst neinu öðru alla sína ævi. Það er í rauninni ekki svo lítið þrekvirki, að þrátt fyrir alla samkeppnina og allan herstöðvarmóralinn skuli útgerðarbæirnir og þorpin suður á Reykjanesi hafa getað haldið höfði, ef svo má segja, að það skuli hafa tekist á liðnum árum og áratugum, að reka á þessum stöðum með töluverðum myndarbrag útgerð og annan innlendan atvinnurekstur. En það væri, held ég, synd að segja að nú sé verið að létta lífið eða auðvelda þeim baráttuna, sjómönnum, útgerðarmönnum og fiskiðnaðarfólki á Suðurnesjum, þessum mönnum sem af mikilli seiglu hafa háð baráttu sem ég leyfi mér að kalla „landvarnarbaráttu“, baráttu gegn því að sá Mólok, sem hreiðrað hefur um sig á Miðnesheiði, legði undir sig Reykjanesskagann sunnanverðan eins og hann leggur sig.

Sú var tíðin og er ekki ýkjalangt síðan, að þrátt fyrir nábýlið við herstöðina voru aflabrögð og umsvif sjómanna og útvegsmanna á Suðurnesjum með þeim hætti og útgerð þaðan svo þróttmikil að fólk utan af landsbyggðinni flykktist þangað á vertíð. Nú er þetta liðin tíð og veldur því margt. M.a. veldur þar um mikil og góð atvinna um allt land. Gífurleg aflarýrnun á Suðurnesjum á síðustu vertíð hefur gert ástandið sérstaklega alvarlegt nú, miklu meiri aflarýrnun en almennt hefur átt sér stað viðast hvar annars staðar við landið. Þá hafa og suðurnesjamenn og aðrir íbúar Reykjaneskjördæmis engan veginn setið við sama borð og aðrir landsmenn að því er tekur til lánafyrirgreiðslu, til þess að byggja upp fiskiflota sinn og endurnýja hann, enda sýna skýrslur að meðalaldur fiskibáta á Suðurnesjum er nú orðinn ískyggilega hár, einhver hinn hæsti sem þekkist á landinu. Þetta út af fyrir sig eru uggvænleg tíðindi, þegar þess er gætt að þarna búa þó ófáar þúsundir manna og hafa sitt lífsframfæri af því sem fæst úr sjónum.

Allt þetta veldur því, að útgerð á Suðurnesjum stendur afar höllum fæti um þessar mundir. Þegar svo við aðra erfiðleika þar bætist harðnandi samkeppni við Keflavíkurflugvöll og herstöðina um það vinnuafl, sem þarna kann að vera tiltækt, þá er ljóst, að mjög óvænlega horfir fyrir þeim atvinnurekstri, sem þrátt fyrir allt hefur um langan aldur verið undirstaða venjulegs og eðlilegs mannlífs á Suðurnesjum.

Herra forseti. Eins og ég hef nú gert nokkra grein fyrir og allir mega sjá, þeir sem lesa þann samning sem hér er til umr., er ótrúlega margt í honum sem er óljóst og hægt er að túlka á ýmsa vegu. Það er í rauninni einkenni samningsins að hann virðist auðvelda bandarískum yfirvöldum alla túlkun á því hvað eigi að framkvæma og hvernig og hvenær, setur þeim í rauninni allt að því sjálfdæmi um framkvæmd ýmissa samningsatriða. Um þetta skal ég ekki fara fleiri orðum, þótt vissulega hefði e.t.v. verið ástæða til. En tvennt er það sem er býsna ljóst í þessum samningi, og á það vil ég að lokum leggja áherslu.

Hið fyrra er það, að með honum er sú endurskoðun á herstöðvarsamningnum frá 1951, sem vinstri stjórnin krafðist og var að láta framkvæma, algjörlega úr sögunni. Það segir berum orðum í samkomulaginu, að sú endurskoðun sé úr sögunni.

Síðara atriðið, sem ég legg einnig áherslu á, stendur að vísu ekki berum orðum í samningnum, en það verður í rauninni lesið út úr samningsgerðinni allri eins og hún leggur sig. Í þessum samningi er augljóslega gert ráð fyrir því, að bandarískt herlið dveljist á Keflavíkurflugvelli um nokkuð langa hríð enn. Þar er ekki verið að tjalda til einnar nætur.

Af þessum ástæðum og þessum ástæðum fyrst og fremst telur Alþb. þessa samningsgerð fráleita og fordæmanlega.