03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., sagði í ræðu sinni áðan, að í alþingiskosningunum í sumar hefði þjóðin hafnað öfgastefnum í herstöðvamálinu. Hann skýrði mál sitt og bætti við, að með því að tala um öfgastefnur ætti hann annars vegar við þá stefnu Alþb. að vilja, að bandaríski herinn færi burt frá Íslandi undanbragðalaust svo fljótt sem ákvæði samningsins frá 1951 leyfa, hins vegar ætti hann við stefnu Varins lands, og var að heyra á hv. þm., að hann fagnaði því, að þjóðin hefði hafnað þessum öfgastefnum í alþingiskosningunum. Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á það, að þingflokkur Alþfl. gerði um það sérstaka hátíðlega samþykkt á s.l. vetri að lýsa yfir stuðningi við stefnu Varins lands í herstöðvamálinu, og það er ánægjuefni, ef Alþfl. hefur nú skipt um skoðun í þessum efnum og telur það öfgastefnu, sem hann lýsti stuðningi við fyrir minna en ári.

Sú skýrsla, sem utanrrh. hefur flutt í dag og er til umr., er talandi vottur um þá algeru stefnu breytingu, sem átt hefur sér stað í utanríkismálum við stjórnarskiptin á þessu ári. Það hefur verið fallið frá ákvörðun vinstri stjórnarinnar um algera brottför alls erlends herliðs frá Íslandi á næstu tveimur árum, en þess í stað tekin ákvörðun um að efla starfsemina í herstöðinni og fela íslendingum að gegna störfum þeirra fáeinu bandaríkjamanna, liðlega 10% af liðinu, sem talað er um að Bandaríkjastjórn muni leitast við að kalla heim, eins og komist er að orði. Það er stefna ráðamanna Sjálfstfl., sem hér kemur fram í einu og öllu, þótt utanrrh. sé úr Framsfl. Hernum er ætlað að sitja sem fastast. Ráðgerðar eru stórframkvæmdir í herstöðinni, nýbygging íbúðarhúsnæðis, sem samsvarar því, að byggður væri frá grunni nýr kaupstaður hér á Íslandi með um 2000 íbúum, og einnig bjóða Bandaríkjamenn fram aðstoð sina við að fjármagna nýja flugstöðvarbyggingu, sem gert er ráð fyrir að kosta muni fulla 5 milljarða ísl. kr. Er kveðið á um það í þessu samkomulagi, að Bandaríkjastjórn muni leita eftir fjárveitingum á þingi bandaríkjamanna til þessarar flugstöðvarbyggingar hér á Íslandi. En það hefur ekkert verið rætt um slíka flugstöðvarbyggingu á Alþingi íslendinga. Við kunnum að eiga eftir að upplifa það, að á Bandaríkjaþingi verði íekið að veita fé til flugstöðvarbyggingar hér á Íslandi, á okkar alþjóðlega flugvelli, án þess að Alþ. hafi nokkuð um það mál fjallað.

Í heild nema fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli a.m.k.7 milljörðum ísl. kr., en það er um 16 sinnum hærri upphæð en fyrirhuguð hækkun á framlagi ríkisins til Byggðasjóðs samkv. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ. En sú hækkun til Byggðasjóðs hefur einmitt verið eitt helsta skrautblóm ríkisstj. Framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli, sem fyrirhugaðar eru, eru 16 sinnum meiri. Talað er um að byggja á Keflavíkurflugvelli um 470 nýjar íbúðir, en það er 240 íbúðum fleira en svarar til fjölda þeirra íbúða, sem nú eru taldar setnar af hermönnum og skylduliði þeirra utan herstöðvarinnar. Hér er greinilega ekki ráðgert að tjalda til einnar nætur, enda gerir samkomulagið ráð fyrir, að víss hluti framkvæmdanna standi yfir í full 10 ár.

Samkv. samningnum frá 1951 höfum við íslendingar hvenær sem er rétt til að óska eftir endurskoðun hans, sem taki eitt ár, og síðan að segja honum upp einhliða, ef samkomulag tekst ekki, og þá skal þetta ekki taka nema 11/2 ár í allt. Þar er viðurkenndur einhliða réttur okkar til að losa okkur við herstöðina á Keflavíkurflugvelli á 11/2 ári. Í þessu nýja samkomulagi er hins vegar gert ráð fyrir framkvæmdum, sem vari a.m.k. full 10 ár. Ég fullyrði ekki, að með þessu sé neinn réttur af okkur tekinn. En það leynir sér ekki að þeir, sem að þessu samkomulagi standa, ætla sér ekki að notfæra sér þann rétt sem íslendingar hafa samkv. samningnum frá 1951. Þeir taka á sig ákveðna siðferðilega skuldbindingu gagnvart bandaríkjamönnum að heimila þeim afnot af okkar landi í a.m.k.10 ár enn.

Í samkomulaginu er sérstakt ákvæði um aukna samvinnu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli við íslensku landhelgisgæsluna, við íslenskar almannavarnir og við íslenska flugmálastjórn. Segir svo í bókun, E-lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Báðar ríkisstjórnirnar munu athuga leiðir til þess að efla samvinnu milli varnarliðsins annars vegar og íslensku landhelgisgæslunnar, almannavarna og flugmálastjórnar hins vegar.“

Hv. þm. Gils Guðmundsson beindi áðan ákveðnum spurningum til hæstv. utanrrh. í sambandi við þessa bókun. Ég vona, að svör fáist við þeim spurningum. Með þessu ákvæði er svo að sjá sem að því sé stefnt að tengja herinn á Keflavíkurflugvelli enn fastar við okkar eigið þjóðfélag í því skyni að fá sem flesta til að trúa því að hann sé í rauninni ómissandi, hvort sem friðvænlega horfir í veröldinni eða ekki. Þýðir þetta e.t.v. það, að herinn á Keflavíkurflugvelli, sem gefið hefur sjálfum sér nafníð varnarlið Íslands, ætli nú að taka rögg á sig og hefja þátttöku í gæslu íslensku landhelginnar, vörnum gegn stórfelldum veiðiþjófnaði skipa frá annarri bandalagsþjóð okkar í NATO? Má e.t.v. vænta þess, að næsti þýski landhelgisbrjóturinn, sem færður verður til íslenskrar hafnar, verði færður þangað af ameríska hernum en ekki varðskipinu Ægi, og landhelgisbarátta okkar verði þá máske ekki eingöngu til að kalla viðskiptaþvinganir yfir okkur íslendinga af hálfu einstakra NATO-ríkja, heldur setji Vestur-Þjóðverjar þá væntanlega viðskiptabann á Bandaríkin sjálf? Eða er hitt e.t.v. meiningin, að samstarf ameríska hersins og íslensku landhelgisgæslunnar eigi að vera fólgið í því, að landhelgisgæsla okkar taki að sér sérstök störf fyrir hernaðarkerfi NATO og þar með m.a. hluta af sameiginlegri hernaðarstarfsemi NATO-þjóðanna, líka þeirra þjóða, sem við eigum í höggi við í landhelgisdeilunni og beitt hafa okkur ofríki á Íslandsmiðum? Á landhelgisgæsla okkar jafnhliða sínum löggæslustörfum á Íslandsmiðum að eiga sinn sérstaka hlut af vörnum Stóra-Bretlands og Vestur-Þýskalands í hjáverkum, allt að sjálfsögðu innan hernaðarkerfis Atlantshafsbandalagsins? Og hvað um samstarfið við íslenskar almannavarnir? Er ætlunin að víkja sér enn undan þeirri sjálfsögðu skyldu, að íslenska ríkið komi sér upp nauðsynlegum þyrlum og öðrum tækjum til sjúkraflutninga og björgunarstarfa, en við séum í þeim efnum gustukafólk hjá erlendu setuliði, svo að dýrðin af mannúðarverkunum lendi örugglega á réttum stað?

Það mun hafa verið sá ágæti lagaprófessor, Sigurður Líndal, sem komst svo að orði fyrir 1–2 árum, að skilja mætti málflutning vissra blaða á þann veg, að eiginlega ættu íslendingar að biðja bandaríkjamenn afsökunar á því að vera menn til að bjarga sér sjálfir. En nú á sem sagt að auka samstarf hersins við íslenskar almannavarnir, og þá má e.t.v. vænta þess, að herinn á Keflavíkurflugvelli sæki einn daginn um inngöngu í Slysavarnafélagið, svo sem til að sanna sakleysi sitt.

Ég leyfi mér að ítreka þá beiðni sem hv. þm. Gils Guðmundsson bar fram áðan til utanrrh. um, að hann gefi nánari skýringar á því, hvað í þessum ákvæðum felst í þeirri bókun, sem hér er til umr. Og ég spyr einnig hæstv. utanrrh.: Hvert er tilefni þess, að slíkt ákvæði er tekið í þennan samning? Er þetta gert samkv. ósk íslenskra stjórnvalda eða er frumkvæðið frá bandaríkjamönnum komið?

það hefur löngum verið opinber skýring stjórnmálamanna á Íslandi, sem tekið hafa ábyrgð á dvöl hersins hér, að hann dveldi hér af illri nauðsyn um stundarsakir vegna hættuástands í alþjóðamálum, eða svo var a.m.k. afsökuð koma bandaríska hersins til landsins á sínum tíma 1951. Þeir, sem í raun hafa trúað á þessa skýringu, hafa að sjálfsögðu jafnframt lagt á það þunga áherslu að varast bæri hvers konar aðild hins erlenda hers að þjóðfélagi okkar íslendinga sjálfra og áhrif frá hernum á okkar eigið þjóðlíf, þetta bæri að varast. Um nokkurt skeið hefur verið ljóst, að í hópi þeirra, sem vilja að herinn dveljist hér áfram, hefur verið uppi athyglisverður ágreiningur um það, hvort líta ætti á dvöl hersins á Suðurnesjum sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut í okkar íslenska þjóðfélagi, nánast sem fagnaðarefni, eða hvort skoða bæri veru hans sem tímabundna illa nauðsyn, sem umfram allt bæri að forðast að setti varanlegt mark á þjóðlíf og menningu okkar íslendinga. Deilan um sjónvarp hersins á Keflavíkurflugvelli og hvernig menn hafa þar skipst í hópa hefur verið mjög skýrt dæmi um þennan ágreining. Mér sýnist, að með ákvæðum þessa samnings, og á ég þá við það sem talað er um aukið samstarf við landhelgisgæslu okkar, almannavarnir o.s.frv., þau ákvæði, sem gera ráð fyrir auknu samstarfi hersins við ýmsar stofnanir íslenska ríkisins, þá sé verið að ganga erinda þeirra aðila, sem líta á hersetuna sem fagnaðarefni, en ekki sem tímabundna illa nauðsyn, og af þeim ástæðum m.a. tel ég, að þetta samkomulag þoki málum til hins verra, stuðli að því að gera hersetuna varanlega. Menn hljóta reyndar að spyrja: Má eiga von á því, að ríkisstj. hugsi til þess að ætla hernum að taka upp samstarf við fleiri opinberar innlendar stofnanir en þær, sem þarna er rætt um? Hvað kemur næst, og hvar eru takmörkin?

Ég vil taka það fram, að persónulega trúi ég því ekki, að hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, sé í hópi þeirra manna, sem líta á hersetuna sem fagnaðarefni og telja eðlilegt, að samstarf herliðsins við hinar ýmsu stofnanir íslenska ríkisins fari vaxandi. Miklu fremur vil ég trúa hinu, að það séu aðrir, sem hér marka stefnuna. Eitt er ég viss um, að vaxandi samstarf Bandaríkjahers við stofnanir íslenska ríkisins og gagnkvæm hluttaka þessara aðila í starfi hvors annars er í hrópandi andstöðu við vilja yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda Framsfl.

Vert er að hafa ríkt í huga, að bilið er ákaflega breitt milli þeirra annars vegar, sem líta á veru Bandaríkjahers hér á Íslandi sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut, jafnvel sem fagnaðarefni, og hins vegar hinna, sem í einlægni telja veru hersins nauðsynlega, en aðeins sem tímabundna illa nauðsyn. Ef grannt er skoðað mun þetta bil milli þessara tveggja hópa trúlega reynast breiðara en það sem skilur að okkur, sem erum andstæðingar hersetunnar, og ýmsa þá sem töldu sig beinlínis til neydda að taka ábyrgð á skammtímadvöl erlends hers í landinu vegna sannfæringar um yfirvofandi árásarhættu, sannfæringar sem að vísu reyndist ekki á rökum byggð.

Deilan um sjónvarp hersins á Keflavíkurflugvelli og þar með um frelsi þessa sama hers til áhrifa á íslenskt menningarlíf hefur leitt ákaflega skýrt í ljós þá skiptingu, sem ég minntist á hér áðan, og þessi skipting kom fram við atkvgr. hér á Alþ. fyrir fáum dögum.

Við Alþb: menn og aðrir andstæðingar hersetunnar höfum fært fram býsna mörg rök gegn dvöl bandaríkjamanna hér á landi, bandaríska hersins, m.a. rök um þá hættu, sem tilvera herstöðvarinnar leiðir yfir okkur, ef til styrjaldar dregur. En mesta hættan, sem af veru hersins í landinu stafar, er hættan á því, sem kallað hefur verið hernám hugarfarsins, þ.e.a.s. að menn hætti að líta á dvöl hersins sem undantekningarástand, en vilji þess í stað veita hernum vaxandi hlutdeild í okkar eigin þjóðlífi, eins og gesti, sem sest hefur að fyrir fullt og allt. Menn hafa stundum viljað gera lítið úr þessari hættu, en ég hygg að hún blasi í dag við sérhverjum hugsandi manni, ekki síst eftir þá atburði, sem gerðust hér á Alþ. í síðustu viku í sambandi við atkvgr. um sjónvarpstill. hv. 12. þm. Reykv.

Við umr. um þá till. komst hæstv. menntmrh. að orði eitthvað á þá leið, að það mundi einsdæmi í veröldinni, að stjórnvöld fullvalda ríkis færu bónarveg að erlendum her, sem í landi þeirra dveldist, og bæðu ráðamann slíks hers að halda uppi sjónvarpsútsendingum eða annarri fjölmiðlun í þágu þegna sinna. Ummæli hæstv. menntmrh. um þetta voru orð að sönnu. Engu að síður greiddu tveir hæstv. ráðh. í íslensku ríkisstj. atkv. með þeirri till., sem ætlað var, að skuldbinda íslensk stjórnvöld til að ríða á vaðið hvað þetta snertir, verða fyrst til í heiminum öllum að bera fram slíka bænaskrá til erlends hers, sem í landi þeirra dvelst. Og hæstv. forsrh. landsins sat hjá við þessa atkvgr. Ég leyfi mér að biðja hv. alþm. að íhuga af fullri alvöru, hversu óendanlega fráleitt það hefði verið talið, þegar herinn var kallaður hingað að nýju fyrir tæpum aldarfjórðungi, að slíkt gæti gerst. Ekki síst hefðu þeir talið slíkt fráleitt, sem herinn kölluðu til landsins.

En hvað hefur þá breyst? Hefur þjóðinni farið svona mikið fram? Er hún orðin þetta mikið frjálslyndari og viðsýnni? Eða er hér stórkostleg hætta á ferðum, sem skylt er að bregðast við með samstilltu átaki, áður en það er um seinan? Svör manna við þessum spurningum eru ugglaust misjöfn, önnur hjá þeim, sem telja hersetuna fagnaðarefni, en hjá hinum, sem líta á hana sem illa tímabundna nauðsyn eða eru henni andvígir. En hvað sem því liður, þá getur enginn lokað augunum fyrir breytingunni, sem hefur gerst. Atkvgr. um sjónvarpstill. hér á Alþ. í síðustu viku var m.a. til marks um þá breytingu. Aðvörunarmerkin dyljast engum, sem ekki neitar að sjá og heyra.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að ef þeir alþm., sem árið 1951 féllust á að taka við Bandaríkjaher af ótta við yfirvofandi hernaðarárás, hefðu séð fyrir þá framvindu, sem orðin er síðan vegna dvalar hersins hér og berlegust varð í atkvgr. um sjónvarpstill., þá hefðu flestir þeirra ekki tekið í mál að veita hernum viðtöku. Spurningin um sjálfstæði smáþjóðar eins og okkar íslendinga, um fullveldi okkar sem þjóðríkis í lengd og bráð, er ekki fyrst og fremst spurning um yfirgang stórvelda í okkar garð, heldur spurningin um vilja okkar sjálfra, landsmanna allra í senn og hvers um sig og þá ekki síst þeirra, sem forusta hefur verið falin. Sé þessi vilji nógu stæltur, þá munum við þola hverja raun, líka yfirgang stórvelda. En dofni sá vilji að marki, þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Sú skýrsla, sem hér er til umr., greinir frá nýju samkomulagi hæstv. ríkisstj. við bandaríkjamenn, samkomulagi, sem á margan hátt felur það í sér að festa Bandaríkjaher í sessi á Íslandi, eins og ég vék að áðan. Hér kemur t.d. fyrir það orðalag aftur og aftur, þar sem talað er um það sem báðir aðilar geti sætt sig við. Ég minni á, að í samningnum frá 1951 er ákaflega skýrt tekið fram, að það erum við íslendingar, sem förum með úrslitavaldið einir þrátt fyrir allt, og mér finnst, svo að ekki sé meira sagt, ekki góður bragur á þessu orðalagi, sem hér er endurtekið hvað eftir annað: „sem báðir aðilar geta sætt sig við.“

Alþb. er algerlega mótfallið þessu samkomulagi. Það vill nú sem fyrr brottför hersins úr landinu og uppsögn samningsins frá 1951, sem þetta nýja samkomulag er byggt á. Stefna Alþb. er jafnframt sú að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu og skipi sér á alþjóðavettvangi við hlið yfirgnæfandi meiri hluta þjóða heims, þeirra um 100 þjóða, sem standa utan hernaðarbandalaga risaveldanna. En engin þeirra, engin þessara um 100 þjóða hefur orðið að þola hernaðarárrás af þeim ástæðum, að hin standi utan þessara bandalaga risaveldanna, allan þann tíma, sem Atlantshafsbandalagið hefur verið við lýði. Það er ekkert dæmi um það, að ráðist hafi verið á einhverja þessara þjóða af utanaðkomandi herveldi og hún mátt sakna þess að eiga ekki aðild að hernaðarbandalagi.

Alþb. getur til samkomulags við aðra fallist á, að þessi þróun, brottför hersins og úrsögn úr NATO, eigi sér stað í áföngum á sama hátt og það skeði í áföngum, að Ísland var flækt inn í hernaðarkerfi Bandaríkjanna. Þess vegna stóð Alþb. heils hugar að málefnagrundvelli vinstri stjórnarinnar, sem gerði ráð fyrir brottför hersins í áföngum, og einnig að samkomulaginu frá 21. mars s.l., sem kvað á um brottför alls herliðs frá Íslandi á næstu tveimur árum.

Þegar íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið árið 1949, var því haldið fram af forsvarsmönnum inngöngunnar, ekki síst Bjarna heitnum Benediktssyni, að sáttmálinn um þátttöku Íslands í NATO væri sáttmáli, eins og komist var að orði og ég vitna hér í orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „sáttmáli um það, að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum“. Þetta var sú yfirlýsing, sem Bjarni Benediktsson flutti á sínum tíma Alþingi íslendinga frá þáv. utanrrh. Bandaríkjanna.

Nú, þegar gengið er frá nýju samkomulagi um áframhaldandi hersetu á Íslandi, munu ugglaust ýmsir halda því fram, að ekki séu nú friðartímar, og má það að sjálfsögðu til sanns vegar færa, ef menn leggja þann skilning í hugtakið, að friðartímar renni þá fyrst upp, þegar öllum vopnaviðskiptum linni í veröldina. En þá hafa heldur aldrei ríkt friðartímar í heiminum. Það fór hins vegar ekki á milli mála, að samkv. skilningi þeirra, sem mæltu fyrir inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949, ríktu þá, 1949, friðartímar að þeirra skilningi, og því var einmitt lögð svo rík áhersla á, að þátttökunni í NATO fylgdu engar kvaðir um hersetu. En hafi mátt kallast friðartímar árið 1949, þegar kalda stríðið var í hámarki og barist var viða um heim, þá eru svo sannarlega friðartímar nú. Ég minnist þess reyndar, að hæstv. utanrrh. vakti býsna oft athygli á einmitt þessum samanburði, meðan hann var utanrrh. í annarri og ég leyfi mér að segja betri ríkisstj.

Þeir, sem í dag segja, að herinn verði að dveljast hér uns betri friður hafi komist á í veröldinni, vita annaðhvort ekki hvað þeir meina eða þeir meina í raun og veru að herinn skuli dveljast hér um alla framtíð. Okkur hefur mjög oft verið sagt, að við megum alls ekki láta herinn fara vegna þess, að svo ófriðvænlega horfi í heiminum. En það hefur líka borið allmikið og ekki síst upp á síðkastið á allt öðrum málflutningi og í raun og veru algerlega gagnstæðum af hálfu þeirra, sem eru talsmenn dvalar Bandaríkjahers hér á Íslandi. Þá hefur verið sagt sem svo, að einmitt vegna þess, hve sambúðin sé góð milli stórveldanna og þá fyrst og fremst milli risaveldanna tveggja og þau að nálgast samkomulag sín í milli um gagnkvæman brottflutning herja úr öðrum löndum, niðurskurð herafla, af þessum ástæðum megum við alls ekki trufla hinn góða gang mála hjá risaveldunum með því að ætla okkur sjálfum eitthvert eigið frumkvæði varðandi það að láta Bandaríkjaher fara frá Íslandi. Það er hið margumtalaða valdajafnvægi, sem ekki má raska samkv. þessari kenningu, sem oft er gripið til. Risaveldin, jafnt Sovétríkin sem Bandaríkin, hafa óspart notað þetta töfraorð, valdajafnvægi, til að viðhalda óbreyttu ástandi á áhrifasvæðum sínum. Það var með rökum valdajafnvægisins, að Sovétríkin sendu skriðdreka sína inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, og það var líka m.a. í nafni valdajafnvægisins, að bandaríkjamenn kostuðu árum saman kapps um að sprengja Víetnam aftur á steinöld til að hindra, að kommúnistar næðu þar undirtökum. Sama réttlæting var vafalaust einnig að baki verka bandarísku leyniþjónustunnar við að kollvarpa lögmætri stjórn í Chile og efla þar fasista til valda. Það raskaði valdajafnvæginu í heiminum, að ríkisstj. andstæð Bandaríkjunum kæmist til valda og héldi völdum í Suður-Ameríku.

En spurningin er þessi: Eiga smáþjóðirnar og þ. á m. við íslendingar að hafa eigið frumkvæði, taka sínar eigin ákvarðanir út frá sínum forsendum og út frá sínu mati á aðstæðum eða eiga þær að lúta sameiginlegri kenningu risaveldanna um valdajafnvægið, sem í engu megi raska, og láta sér þannig nægja hlutverk peðsins, sem leikið er með í valdatafli risaveldanna? Það er ljóst, hvert hlutverk okkur íslendingum er ætlað samkv. hinu nýja samkomulagi, sem hér er rætt um. Við Alþb.- menn teljum, að hvað sem líður hinu svokallaða valdajafnvægi risaveldanna, þá beri okkur íslendingum að neita að láta hluta lands okkar í té undir herstöð. Allar aðrar norðurlandaþjóðir hafa staðfastlega neitað að láta erlendum stórveldum slíka aðstöðu í té og vaxið af þeirri afstöðu. Auðvitað skiptir það engu máli í þessu sambandi, þótt t.d. danir og norðmenn haldi uppi málamyndaher sjálfir, sem við gerum sem betur fer ekki. Varla dettur nokkrum í hug, að þeir, sem á annað borð vilja hafa hér bandarískan her eða telja það nauðsynlegt, teldu hans siður þörf, þótt hér væri til staðar svo sem 1–2 þús. manna íslenskt varnarlið búið vopnum, ef það væri hliðstætt við málamyndaher dana og norðmanna. Það er ákaflega athyglisvert líka, að bæði danir og norðmenn hafa á undanförnum árum skorið stórlega niður útgjöld sín til hermála og stytt herskyldutímann verulega, danir úr 18 mánuðum í 8 þrátt fyrir harðvítug mótmæli herforingjanna í NATO og ákall þeirra um röskun valdajafnvægis, sem af þessu leiddi, Útgjöld dana til hermála eru t.d. nú um helmingi lægri hluti af heildarútgjöldum fjárl. en þau voru fyrir 6–7 árum og niðurskurðurinn á hernaðarútgjöldum í Noregi hefur verið litlu minni. Þetta er að sjálfsögðu til marks um það, að stjórnvöld þessara ríkja taka í reynd ekkert mark á boðskapnum um að ekki megi raska valdajafnvæginu. Og það eigum við íslendingar ekki heldur að gera.

Það eru reyndar fleiri en norðurlandamenn, sem hafna röksemdunum um nauðsyn valdajafnvægisina, sem eigi að ganga fyrir öllu öðru. Á síðasta ári var samþykkt í öldungadeild Bandaríkjaþings till. um að fækka bandarískum hermönnum erlendis um hvorki meira né minna en 40% á þremur árum, Öldungadeild Bandaríkjaþings féll að vísu aftur frá þessari samþykkt stuttu síðar, en meiri hlutinn fyrir þeirri afturköllun byggðist á örfáum atkv. Þetta sýnir svo ljóslega sem verða má, að meira að segja innan Bandaríkjanna sjálfra er fjöldi stjórnmálamanna, um helmingur þm. í Öldungadeild Bandaríkjaþings, sem neita með öllu að beygja sig undir formúlu valdajafnvægisins, þá formúlu, sem okkur íslendingum er ætlað að byggja á okkar utanríkisstefnu í bráð og lengd. Engum heilvita manni dettur í hug, að skýringin á afstöðu um 50% bandarískra öldungardeildarþm. hvað þetta varðar, sem voru þeirrar skoðunar að það væri rétt að fækka bandarískum hermönnum erlendis um hvorki meira né minna en 40% á stuttum tíma, skýringin á afstöðu þessara manna væri sú, að þeir gangi erinda annarra stórvelda, eins og stundum heyrist nefnt hér á Íslandi um þá, sem senda vilja bandaríska herinn heim. Risaveldin tvö eru ekki þeir andstæðingar í alþjóðastjórnmálum sem menn vildu vera láta þegar bandaríski herinn var kvaddur hingað. Þau kjósa bæði að viðhalda óbreyttu ástandi, þar sem stór um hluta heimsins er skipt í áhrifasvæði þeirra beggja og hvert risaveldið um sig á sér hóp auðsveipra fylgiríkja. Sameiginlega hafa þau búið sér til formúluna um valdajafnvægi í því skyni að halda þjóðunum áfram í sömu spennitreyjunni.

Það ætti að vera höfuðmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu að brjótast út úr þessari spennitreyju. Með því að senda bandaríska herinn heim, gæfum við ákveðið fordæmi og legðum með því lið öllum þeim öflum, hvar sem er í heiminum, sem berjast fyrir framgangi þeirrar meginreglu, að herir stórvelda hafi ekki bækistöðvar í öðrum löndum. Sjálfra okkar vegna og vegna skyldu okkar í hópi þjóðanna teljum við alþb.- menn, að þá stefnu beri okkur íslendingum að taka upp hið allra fyrsta. Við teljum vitavert, að samkomulagið, sem gert var við bandaríkjamenn í haust um herstöðvamálið, skyldi ekki vera lagt fyrir Alþ., áður en frá því var gengið, og við vörum alvarlega við hættunni á því að þetta samkomulag verði til að festa herinn í sessi til frambúðar í landi okkar. En samkomulagið er ekki aðeins í algerri andstöðu við stefnu okkar alþb.- manna, heldur gengur það þvert á markaða stefnu annars stjórnarflokkanna, eins og rakið hefur verið í þessu mumr.

Framsfl. hefur sem kunnugt er gert um það samþykktir á sínum flokksþingum hvað eftir annað á undanförnum árum að herinn skuli fara úr landinu. Svo furðulegt sem það er hafa hæstv. ráðh. Framsfl. nú hins vegar tekið að sér að framfylgja þveröfugri stefnu í þessu veigamikla máli, stefnu Sjálfstfl. um varanlega hersetu. Til þessa hafa þeir ekkert umboð kjósenda sinna. Meðan núv. ríkisstj. situr að völdum, er þess ekki að vænta, að snúið verði við af þeirri óheillabraut, sem farin er með þessu samkomulagi. Það er því fyrsta verkefni allra, sem vilja erlendan her burt frá Íslandi, að vinna að falli þessarar ríkisstj. Og Framsfl. þarf að læra þá lexíu, að hann sé sjálfum sér verstur, þegar hann tekur að sér að fylgja fram stefnu varanlegrar hersetu þvert gegn eigin samþykktum.