03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði á s.l. vetri töluverð afskipti af stefnumótun í þessu máli og með tilliti til þess sýnist mér erfitt að sitja og gera ekki grein fyrir afstöðu minni til þess nú. Það er reyndar fljótgert, hún er óbreytt. En ég vildi einnig nota tækifærið og styðja við bakið á hæstv. utanrrh. og leggja áherslu á það, að afstaða Framsfl. til þessa máls er óbreytt. Mig langar jafnframt í örfáum orðum að gera grein fyrir afstöðu minni á breiðum grundvelli til þessa máls.

Ég eins og aðrir framsóknarmenn legg ríka áherslu á vinsamleg viðskipti við allar þjóðir. Við teljum það ekki á okkar færi eða okkar eðli að flokka þjóðir eftir þeim stjórnarháttum, sem þær kunna að hafa valið sér. Við leggjum hins vegar ríkasta áherslu á góð viðskipti við vestrænar þjóðir, teljum það eðlilegt vegna staðsetningar okkar á þeirra svæði vegna menningartengsla og mikilla viðskipta. Afstaða okkar til Atlantshafsbandalagsins er einnig ljós. Við teljum eðlilegt að eiga samleið með Atlantshafsbandalagsþjóðunum. Við teljum það af þeirri sömu ástæðu sem ég nefndi áðan. Ég vil einnig vekja athygli á því að Atlantshafsbandalagið hefur að verulegu leyti breytt um einkenni á undanförnum árum. Það hefur í vaxandi mæli hafið alls konar starfsemi, sem er ekki hernaðarlegs eðlis, og ég er sannfærður um að þátttaka okkar í þeirri starfsemi er okkur mikilvæg.

Afstaðan til varnarsáttmálans er hins vegar nokkuð breytileg, það skal viðurkennt. Hún er sannarlega mjög mismunandi í stjórnarflokkunum, sem nú ráða. Ég fyrir mitt leyti tel það ákvæði varnarsáttmálans mikilvægast, sem segir að hér skuli ekki vera her á friðartímum. Ég er þeirrar skoðunar og ég leyfi mér að fullyrða að mikill meiri hl. Framsfl. er þeirrar skoðunar, eins og glögglega hefur komið fram á margendurteknum samþykktum Framsfl, á flokksþingum, að varanleg herseta væri það krabbamein í íslenskum þjóðarlíkama, sem við fáum ekki búið við. E.t.v. segir einhver, eins og oft hefur heyrst nefnt: Hvað er við það að athuga, þótt nokkrir hermenn sitji suður á Miðnesheiði? Ég held, að ég lýsi afstöðu minni einna hest með því að vísa í ágætan leiðara Morgunblaðsins um sjónvarpsmálið í sumar, þar sem sagt var á ágætan máta: Það er skylda hverrar frjálsrar þjóðar að takmarka athafnafrelsi annarra þjóða innan sinna vébanda. — Ég held að íslensk æska megi ekki alast upp við það að varanleg herseta sé okkur nauðsynleg.

Þarna skilja leiðir. Við framsóknarmenn reyndum eins og við áttum frekast kost á s.l. árum að gera okkur grein fyrir því hvort friðartímar væru. Ég fyrir mitt leyti skoðaði ástandið eins og ég frekast mátti, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að það væru meiri friðartímar nú en hafa verið nokkru sinni frá því að við gengum í þetta bandalag. Hæstv. forsrh. ræddi hér áðan um skilgreiningu á friðartímum. Reyndar fékk ég ekki skilið hver sú skilgreining var. Og ég hygg satt að segja að það sé ákaflega erfitt að skilgreina friðartíma. Mér skildist, að það séu ekki friðartímar, þótt hvergi sé barist. Ég verð að viðurkenna að þetta er það lengsta sem ég get gengið. Mér sýnist það raunar eina skilgreiningin, sem okkur er stætt á. Þó er þar gengið nokkuð langt, því að fáir munu þeir tímar að ekki séu vopnaviðskipti einhversstaðar í okkar heimi. Þó hygg ég, að nú sé það næst þessu, jafnvel þótt langtum lengra sé leitað en til ársins 1949. Mín afstaða var því byggð á þeirri skoðun, sem ég gat best gert á ástandi í heiminum með tilliti til þessa ákvæðis varnarsáttmálans, að hér skuli ekki vera her á friðartímum. Og ég komst að þeirri niðurstöðu og ég er enn þeirrar skoðunar, að nú sé sannarlega sá tími kominn að þetta ákvæði varnarsáttmálans skuli koma til framkvæmda að nýju.

Ég verð að segja að afstaða bandalagsþjóða okkar olli mér sárum vonbrigðum, því að ég ætlast til meira af þeim. Þetta hefur sannarlega vakið ýmsar spurningar. Ætla þær ekki að standa við það ákvæði sem þær skrifuðu undir 1951, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum? Er þetta meiningarlaust ákvæði í þeirra huga? Og ég verð að segja það út af ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar áðan, að ég get vel skilið að sú spurning hljóti að vakna, hvort við íslendingar séum ekkert annað en lítið peð á taflborði stórveldanna. Ég undanskil þar engin stórveldi og engin veldi. Og þótt það sé raunar bannorð að blanda saman landhelgisdeilunni og varnarsáttmálanum, eru þó skyldar þjóðar sem eiga þar hlut að máli. Og ég fæ ekki séð annað en afstaða Vestur-Þjóðverja nú til okkar sýni mjög augljóslega að við erum ekkert annað en lítið peð á efnahagstaflborði þeirrar þjóðar. Þessu peði verður fórnað, ef það hentar hagsmunum hennar.

Ég held, að við íslendingar verðum að gera okkur glögga grein fyrir þessu og gera okkur grein fyrir því, hvar við stöndum, þótt við vegna stöðu okkar og afstöðu, viðskiptakjara, menningartengsla teljum eðlileg samskipti okkar við þær nágrannaþjóðir sem í kringum okkur eru og kallast vestrænar þjóðir. Ég held, að við megum ekki ganga blindir til þess leiks. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að við göngum sjáandi til þess samstarfs.

Afstaða bandalagsþjóðanna og m.a. bandaríkjamanna til ákvæða varnarsáttmálans frá 1949 vekur einnig upp þá spurningu í mínum huga, sem ég hef aldrei fengið svarað, hvort einhver sú afstaða hér á vellinum sé orðin þessum þjóðum svo mikilvæg nú að þær megi ekki missa hana. Oftast þegar á þetta er minnst heyrist hvíslað að það sé kafbátaeftirlitsstöðin, sem þar er komin upp, hana má víst alls ekki nefna. Hvernig komst þessi kafbátaeftirlitsstöð á fót? Ef það var ætlun okkar íslendinga að standa við ákvæði varnarsáttmálans frá 1951, af hverju leyfðum við að sú aðstaða skapaðist þar sem gerir þennan völl e.t.v. — ég veit það ekki — nálægt því ómissandi fyrir varnarkerfi vestrænna þjóða? Ef við meintum eitthvað með þessu ákvæði frá 1951, áttum við að gæta þess vandlega að ekki yrði sköpuð sú aðstaða sem ekki mætti tapast. Ég hef ekki fengið svar við þessari spurningu. En e.t.v. geta einhverjir, sem voru við völd á þeim tíma þegar þetta var gert, svarað henni.

Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta. Ég ætla að segja sem allra minnst um stjórnarsáttmálann að þessu leyti. Ég vil þó gjarnan taka það fram, að ég fyrir mitt leyti hefði heldur kosið að í stjórnarsáttmálanum hefði verið hreinlega tekið fram, að flokkarnir, sem að ríkisstj. standa, eru ekki sammála um varnarmálin, og ég hefði talið eðlilegast, að það hefði ekki verið látið kyrrt liggja. Þetta er staðreynd sem alþjóð má gjarnan vita og veit og hefur margsinnis verið ítrekað. En sú leið var valin fremur að reyna að ljúka þessu máli, a.m.k. að sinni, með þeim samningi sem nú hefur verið gerður.

Um samninginn sjálfan ætla ég ekki heldur mikið að segja. Mér sýnist hann vera ákaflega lítilfjörlegur satt að segja og skipta litlu máli. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh. áðan, að orðin, sem báðir aðilar geta sætt sig við breyti í engu 4. gr. varnarsáttmálans, sem er skýlaus að því leyti, að ákvörðunarvaldið sé hjá okkur íslendingum. Ég vona, að viðsemjendur okkar, bandaríkjamenn, skilji þetta einnig svo. Hér eru einnig önnur ákvæði, sem forvitnilegt væri að fá upplýsingar um, eins og t.d. um flugstöðvarbygginguna. Er það í raun og veru orðin ákvörðun að byggja slíkan — ég vil nefna það fílabeinsturn á Keflavíkurflugvelli í gerbreyttri aðstöðu millilandaflugs? Ég lenti fyrir nokkrum árum vegna óveðurs á Gander og þeir byggðu slíkan turn sem stendur svo til auður, en skrautlegur og fallegur og notast ekki. Hefur það í raun og veru verið skoðað, svo að viðunandi sé, hvort flugsamgöngur á Norður-Atlantshafi muni ekki þróast svo, að slík flugstöð sem kostar okkur þúsundir milljóna þegar allt er talið verði óþörf ?

Ég vil einnig segja það í sambandi við störf íslendinga á Keflavíkurflugvelli í auknum mæli, að ég fyrir mitt leyti er ekki hlynntur þeirri stefnu. Ég tel hana varhugaverða með tilliti til þess ákvæðis, sem ég hef oft nefnt, að við viljum að herinn fari brott svo fljótt sem unnt er. Það er alveg rétt, að Framsfl. hefur annað slagið ályktað svo. Hann gerði það 1967 á sínu flokksþingi, en að vísu felldi það út 1971 og aftur nú, þannig að afstaða til þessa hefur verið nokkuð á reiki.

Ég vil svo að lokum aðeins ítreka það enn einu sinni, að stefna okkar framsóknarmanna, a.m.k.mikils meiri hl. Framsfl., er óbreytt með tilliti til varnarsáttmálans. Þetta kemur mjög greinilega fram í samþykkt síðasta flokksþings, sem ítrekar og undirstrikar samþykkt flokksþingsins frá 1971 um það, að hér skuli ekki vera her á friðartímum og hann skuli hverfa brott í áföngum. Ég get aðeins sagt, að það er einlæg von mín, að það rofi til og við fáum losað okkur við þennan her á meðan ástandið í heiminum er þannig að það sé okkur kleift. Raunar var það athyglisvert sem kom hér fram áðan um afstöðu bandaríkjaþingmanna til þessara mála, því að staðreyndin er sú, að á Bandaríkjaþingi er vaxandi hópur nýrrar kynslóðar sem er mjög andvígur þeirri stefnu sem bandaríkjamenn hafa fylgt um erlendar herstöðvar. Það skyldi nú ekki fara svo að það rofi til þar fyrr en hjá okkur. Það er von mín að við verðum á undan.