03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal taka það til greina að eyða ekki tíma þm. meira en þörf er á. — Það er ósköp eðlilegt og ég gekk ekki að því gruflandi að það mundi verða mjög skiptar skoðanir um það samkomulag sem ég hef hér kynnt, og ég verð að segja það að umr. hafa verið málefnalegar um málið. Þess vegna mun ég ekki gera neitt til þess að kveikja neitt bál hér um þessi viðkvæmu og vandasömu mál, en ég vona að þm. fyrirgefi mér það þótt ég segi nokkur orð og víki að nokkrum þeim atriðum sem fram hafa komið m.a. vegna þess að til mín hefur verið beint fsp. sem ég tel mér skylt að svara.

Ég vík þá fyrst að máli hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundssonar, og ég hygg, að með því að svara nokkrum atriðum í ræðu hans geti ég kannske látið þar við sitja, því að mörg þau atriði, sem síðar komu fram, eru einmitt hluti af hans máli.

Hann hóf mál sitt á því að segja að stefna Framsfl. hafi veríð fyrir borð borin í stjórnarsamstarfinu að því er utanríkismálin varðar. Þetta er að nokkru leyti rétt. Eins og hv. 2. þm. Vestf. gat um er stefna Framsfl. sú, að varnarliðið eigi að fara burt héðan í áföngum, hefur verið það lengi og var áréttuð á nýafstöðnu flokksþingi. En engu að síður tel ég, að í samkomulaginu og í stefnuskrá ríkisstj. séu þó nokkur atriði sem framsóknarmenn geti mjög vel fellt sig við, enda kom það fram á því flokksþingi sem ég áður greindi frá, og það eru þau atriði, að nokkur hluti hersins fari. Að vísu taka íslendingar störfin að sér í staðinn, það er að aðskilnaður verði milli herflugs og farþegaflugs, og það er að varnarliðið verði einangrað og búi í eigin húsnæði á tilteknu svæði. Það er ekkert nýtt í því að í samstjórnum þurfi flokkar að sveigja stefnu sína nokkuð, eins og við höfum orðið að gera nú. Þess gat hv. þm. Gils Guðmundsson sjálfur, að Alþb. hefði 1971 orðíð að sveigja nokkuð af leið sinni til þess að ná samstarfi við þáv. samstarfsflokk. Ég segi það ekki honum til lasts, heldur til hróss. En þetta er svona, við lendum í þessu af og til ýmsir að geta ekki fengið fram allt sem við óskum.

Hv. þm. sagði, að það væri vitagagnslaust að spyrja hernaðarsérfæðinga um það, hvort hernaður væri nauðsynlegur, það væri eins og að spyrja landabruggara að því hvort ekki ætti að halda áfram að brugga. Þetta er út af fyrir sig snjöll samlíking og ég er ekki frá því að það megi finna henni nokkurn stað. En ég bendi bara á það í þessu sambandi, að samkv. ákvæðum varnarsáttmálans frá 1951 er það skylda þess ríkis, sem óskar endurskoðunar, að leita umsagnar NATO-ráðsins um þýðingu varnarstöðvarinnar, og það var eingöngu það sem við vorum að gera, en ekki kannske endilega að búast við því að við fengjum þau svör, að varnarstöðin væri óþörf og allt það, sem þessir menn eru að gera, væri nánast út í loftið.

Till. ríkisstj. frá í mars 1974, frá í mars í vor, voru að mínum dómi mjög góðar. Ég hefði gjarnan viljað halda áfram að reyna að vinna að framgangi þeirra. En staðreyndin er bara sú, eins og hér hefur verið bent á af ýmsum, að þær hlutu ekki náð fyrir augum kjósenda. Það var ekki þingfylgi fyrir því að framfylgja þeirri stefnu, sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar markaði. Og þá stóð Framsfl. frammi fyrir þeirri spurningu, hvað gera skyldi vegna annarra mála. Þetta hef ég áður sagt og er ekkert nýtt í þessu og ég ætla ekki að fara að kveikja upp neinar umr., þótt ég rifji þetta upp, sem ég hef oft sagt áður, að það var vegna annarra mála fyrst og fremst sem Framsfl. gekk til samstarfs við Sjálfstfl. og sveigði af leið í varnarmálum. Ég tel alveg ástæðulaust að draga neina dul yfir það og geri það ekki. Ég held hins vegar, að það hafi ekki verið rétt, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði, að af hálfu Framsfl. hafi aldrei verið léð máls á annarri ríkisstj. en þeirri, sem nú starfar með Sjálfstfl. Ég a.m.k. gekk til samningaviðræðna við Alþb., Alþfl. og SF í góðri trú og með góðan vilja um að slík stjórn gæti komist á. Hún komst ekki á, og ástæður þess mun ég ekki rifja upp hér, þar sem ég mun væntanlega halda síðustu ræðuna í þessu máli, en hins vegar væri mér það ekkert óljúft við annað tækifæri að fara um það nokkrum orðum.

Þá vil ég enn einu sinni neita því fyrir mitt leyti, að ég hafi svikið loforð um það, að samkomulag skyldi lagt fyrir Alþ. Þegar ég viðhafði þessi ummæli hafði ég ávallt í huga annaðhvort breytingu á varnarsamningnum frá 1951 eða uppsögn hans. Hvorugt hefur nú skeð, heldur hefur það gerst að samkomulag um tilteknar breytingar á fyrirkomulagi varnanna er gert innan ramma varnarsamningsins frá 1951. Þetta atriði tel ég að ekki þurfi að leggja fyrir Alþ. og hef aldrei talið, enda sýnir fortíðin, að aðrir hafa veri sömu skoðunar í því efni.

Ég get ekki fallist á þá skoðun að verið sé að búa í haginn fyrir langvarandi hersetu með þessu samkomulagi, og ég bendi á það alveg ákveðið enn þá einu sinni, að það eina, sem breyst hefur varðandi 7. gr. varnarsamningsins, er það, að til þess að koma henni aftur í gang þurfa að líða að nýju 6 mánuðir. Það er eini tíminn, sem íslendingar hafa tapað við þá samningsgerð eða samkomulagsgerð, sem hér um teflir. Ef aðstæður breyttust þannig hér, að meirihlutavilji væri fyrir því að segja samningnum upp eða flytja varnarliðið burt með samkomulagi, þá eru það 6 mánuðir, sem hér er um að ræða. Við höfum ekki bundið þjóðinni neina framtíðarbagga, og viðmiðun um 10 ára viðhald á Keflavíkurflugvelli á ekki við í þessu sambandi, þar sem ákvæði 7. gr. eru ótvíræð. Það er hins vegar gert ráð fyrir því og við hljótum að gera ráð fyrir því, að Keflavikurflugvöllur haldi áfram að vera til þó að varnarliðið fari, og í augum þeirra, sem vilja og eru hlynntir aðild að NATO, er eðlilegt, að Keflavíkurflugvöllur sé í góðu lagi og hann sé tiltækur fyrir NATO, eins og ráðgert var í upphaflega samkomulaginu frá 1949, þegar framlag Íslands átti að vera það að sjá fyrir aðstöðu á Íslandi ef þörf yrði fyrir hana. Það er þessi aðstaða, sem við erum að tala um, það er verið að tala um að halda Keflavíkurflugvelli í fyrsta flokks standi.

Það má segja, að ýmislegt orðalag í samkomulaginu sé með fyrirvörum. Það er alveg rétt, sem hv. þm. hafa bent á, það eru fyrirvarar. Fyrirvararnir eru þeir, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal, ef mig misminnir ekki, benti á, að framkvæmdavaldið í Bandaríkjunum er háð fjárveitingavaldinu og verður að sækja um fjárveitingar. Utanrrh. verður að sækja um fjárveitingar og varnarmálaráðuneytið verður að sækja um fjárveitingar til Bandaríkjaþings til þess að uppfylla þær skuldbindingar, sem það hefur undirgengist í þessu samkomulagi, og þeir vita sem er, að þeir hafa ekki meiri völd yfir fjárveitingavaldinu en svo að þeir verða að hafa þessa fyrirvara á. Ég tel hins vegar engan vafa á því að þessar fjárveitingar muni fást, — ég tel engan vafa á því. En fyrirvarinn er þarna, það er rétt.

Þá hafa hv. þm. Gils Guðmundsson, 3. þm. Reykn., og hv. 5. landsk. þm. talað um E-lið bókunarinnar, hvað í henni felist, hvað felist í því, að það á að vera samvinna við flugmálastjórn, landhelgisgæslu og almannavarnir, og spyrja að því, hvort Bandaríkin eigi að taka að sér einhverja þætti þessarar starfsemi. Svo er alls ekki. Það, sem við er átt, er fyrst og fremst að flugið verði í náinni samvinnu, flugafgreiðslan, flugstjórnin á Keflavíkurflugvelli, með hliðsjón af þeirri skiptingu farþegaflugs og hernaðarflugs sem ráðgerð er. Það geta verið margar spurningar og mörg úrlausnarefni, sem vakna við það, að þessi aðskilnaður á að fara fram, og þessi bókun er sett inn samkv. kröfu okkar íslendinga.

Um Landhelgisgæsluna er það að segja, að ég fyrir mitt leyti a.m.k. hef hug á því að Landhelgisgæslan taki að sér björgunar- og leitarflugíð, sem varnarliðið hefur nú með höndum, og það gæti orðið til mikillar aðstoðar við framkvæmd þess atriðis, ef gott og náið samkomulag og samstarf yrði við varnarliðið að þessu leyti. Og almannavarnir lúta að náttúruhamförum. Ég tel fyrir mitt leyti, — menn kann að geta greint á um það, — að það sé eðlilegt að nota sér slíka aðstöðu sem varnarliðið ræður yfir, þegar náttúruhamfarir ber að höndum, og ég hygg að það séu fáir íslendingar, sem vilja vanþakka t.d. framlag varnarliðsins þegar Vestmannaeyjagosíð stóð yfir.

Já, hv. þm. Gils Guðmundsson talaði um að það væri óæskileg samskipti hers og þjóðar. Ég er þessu algerlega sammála og að mínu mati stefnir samkomulagið að því að bæta úr því með því að einangra herinn og láta hann búa innan vallarsvæðisins. Það er að vísu nokkur eftirsjón að 420 mönnum frá fiskvinnslu til þess að fara að taka að sér störf sem herinn hefur rækt. Ég skal viðurkenna það, að ég vísa til þess sem forsrh. sagði um það atriði áðan, að það yrði reynt að haga þessari breytingu sem haganlegast, þannig að hún kæmi sem minnst við atvinnuvegina. Ég er þó ekki viss um að allt þetta fólk yrði tekið frá fiskvinnslunni, þótt það fengist, og ég minnist þess að í till. fyrrv. ríkisstj. var einnig gert ráð fyrir því að nokkrir íslendingar tækju við störfum af varnarliðinu, þar sem við buðumst til þess í því samkomulagi að taka að okkur rekstur radarstöðvanna í Grindavík og Höfn í Hornafirði. Þar er að vísu um fámennari hóp að ræða heldur en hér um teflir, en engu að síður var stefnan í svipaða átt.

Ég vil svo endurtaka það, að endurskoðun á varnarsamningnum og fyrirkomulagi varnanna á að vera viðvarandi. Það er aðeins endurskoðunin samkv. 7, gr., sem fallið er frá að þessu sinni, en samkomulag er um það, að fyrirkomulag varnanna sé í stöðugri endurskoðun. Ég vona að við getum haldið þannig á þeirri endurskoðun, að breytingarnar verði íslendingum til hagsbóta, og að því mun reynt að stefna.

Ég mótmæli því sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði, að samið hefði verið á nokkrum klukkustundum. Eins og hér hefur komið fram í mínu máli og endurtekið var af hv. 3. þm. Reykn. tók samningsgerðin ekki nokkrar klukkustundir, heldur nokkrar vikur. Það þykir kannske ekki langur tími, en það er ástæðulaust að segja það styttra en raun ber vitni.

Ég ætla ekki — og síst af því að formaður Alþfl. gekk úr salnum — að ræða meðferð Alþfl. á varnarmálum. Hann sagði, að þeir hefðu fækkað úr rúmlega 4 þús. í 2600 á einhverju tilteknu tímabili. Það má vel vera að það hafi einhvern tíma komist í 2600. En ég tók við utanríkismálunum og varnarmálunum af Alþfl. og þá vorn 3300 hermenn á Keflavíkurflugvelli.

Ég skal svo, herra forseti, láta þessi fáu orð nægja. Ég endurtek það að síðustu, sem ég hef áður sagt, að ég vona að þetta samkomulag verði íslendingum til hagsbóta, það verði spor — menn geta kallað það hænufet ef þeim sýnist svo — í þá átt að losna við herinn, en í þá átt stefnir það engu að síður.