29.10.1974
Sameinað þing: 1. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason):

Forseta hafa borist eftirtalin bréf:

„Forseti sameinaðs Alþingis.

Þar sem ég verð fjarverandi á næstunni í opinberum erindagjörðum, óska ég þess, að 1. varamaður Sjálfstfl. í Reykjavík, frú Geirþrúður Bernhöft, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.

Virðingarfyllst,

Jóhann Hafstein.“

Frá Samtökum frjálslyndra og vinstri manna: „Forseti sameinaðs Alþingis, Reykjavík.

Þar sem Magnús T. Ólafsson, 3. landsk. þm.. er staddur erlendis í opinberum erindum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og getur því ekki sinnt þingstörfum á næstu vikum, óska ég þess fyrir hönd þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, að varamaður hans, Ólafur Ragnar Grímsson, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans.“

„Til forseta sameinaðs Alþingis.

Samkvæmt beiðni Lárusar Jónssonar, 4. þm. Norðurl. e., sem nú er erlendis í opinberum erindum, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óska þess, að 1. varamaður hans, Halldór Blöndal kennari, taki á meðan sæti hans á Alþingi.

Virðingarfyllst,

Þorv. Garðar Kristjánsson,

ritari þingflokks Sjálfstfl.“

„Til forseta sameinaðs Alþingis.

Þar sem Jón Skaftason, 4. þm. Reykn., dvelst erlendis á þingi Sameinuðu þjóðanna og getur því ekki sinnt þingmannsstörfum næstu vikur, leyfi ég mér, samkvæmt beiðni hans, að fara fram á, að 1. varamaður Framsfl. í Reykn., Gunnar Sveinsson kaupfélagsstjóri í Keflavík, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans.

Jafnframt er þess óskað, að fram fari í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Formaður þingflokks Framsfl.,

Þórarinn Þórarinsson.“

„Til forseta sameinaðs Alþingis.

Þar sem Garðar Sigurðsson, 5. þm. Sunnl., dvelst nú erlendis á þingi Sameinuðu þjóðanna og getur því ekki sinnt þingstörfum næstu vikur, leyfi ég mér, samkvæmt beiðni hans, að fara fram á, að 1. varamaður Alþb. í Suðurl., Þór Vigfússon menntaskólakennari, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans.

Jafnframt er þess óskað, að fram fari í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Formaður þingflokks Alþb.,

Ragnar Arnalds.“

Ég vil leyfa mér að biðja kjörbréfanefnd að rannsaka kjörbréf þeirra þm., sem ekki hafa áður átt sæti á Alþingi, og verður gefinn frestur í 10–15 mínútur, meðan á rannsókn kjörbréfa stendur. — [Fundarhlé.]

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Ellert B. Schram, 11. þm. Reykv., og Jón Helgason, 4. þm. Sunnl.