04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Þegar olíukreppan hófst á síðasta hausti og olía margfaldaðist í verði á skömmum tíma höfðu þeir atburðir veruleg áhrif á afkomu okkar og öryggi. Rekstrarkostnaður skipaflotans jókst stórlega, húshitun með olíu varð margfalt dýrari en áður og viðskiptakjör þjóðarbúsins versnuðu. Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar af þessum ástæðum og báru ýmsar með sér að þær hljóta að verða tímabundnar, og þær hafa að sjálfsögðu engan veginn leyst að fullu þann vanda sem að okkur hefur steðjað.

Víð íslendingar erum að því leyti margfalt betur settir en ýmsar þær þjóðir, sem fyrir olíukreppunni urðu, að við eigum í landinu orkulindir sem enn eru aðeins nýttar að nokkrum hundraðshlutum. Á ýmsum sviðum geta þessar orkulindir okkar komið í stað innfluttrar olíu og á það ekki síst við húshitun. Tæpur helmingur þjóðarinnar hitar enn híbýli sín með olíu og hefur það fólk orðið fyrir verulegum búsifjum af völdum olíuhækkunarinnar þrátt fyrir ráðstafanir til að jafna þann aðstöðumun. Íslendingar hafa lengi stefnt að því að nota innlenda orkugjafa til húshitunar og annarra hliðstæðra þarfa, en fram að olíukreppunni var talið að þau umskipti tækju alllangan tíma, þar sem hið lága verð á olíu gerði hana samkeppnisfæra, ekki síst við raforku. En með olíukreppunni urðu mjög snögg og stórfelld umskipti.

Hin eðlilegu viðbrögð við slíkum umskiptum hlutu að verða þau að kanna á hvern hátt nýta mætti sem mest hitaveitu og húshitun með raforku. Ég sneri mér því í nóv. í fyrra, meðan ég gegndi störfum iðnrh., til Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen og fól henni að kanna hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa til húshitunar og annarra þarfa í samvinnu við Orkustofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, Hitaveitu Reykjavíkur og aðra opinbera aðila.Í annan stað fór ég þess á leit við Seðlabankann að hafin yrði gerð fjármögnunaráætlunar sem stefndi að sama marki. Ég óskaði eftir því að verkinu yrði hraðað, svo að unnt yrði að leggja framvinduskýrslur um þessar athuganir fram á síðasta reglulegu þingi, og var það gert í fyrravor.

Meginniðurstöður voru þær að það væri mjög hagkvæmt þjóðhagslega að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar. Húshitun með raforku frá virkjun á borð við Sigöldu var talin verða 20–30% ódýrari en hitun með olíu, eftir því hvort um gömul eða ný hús væri að ræða. Talið var að hitaveitur utan Reykjavíkur gætu selt heitt vatn á verði sem gerði upphitun húsa 30–40% ódýrari en olíukyndingu. Talið var í skýrslunni að unnt væri að halda þannig á málum að jarðvarmaveitur yrðu að mestu komnar í full not um áramótin 1976–1977 og unnt yrði að tengja um 80% af fullum rafhitunarmarkaði í árslok 1981. Um rafhitun sagði síðan orðrétt svo í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæður til þess, að ekki er talið að unnt sé að hraða mettun markaðsins umfram þetta, er hin mikla fjárfesting og einnig mannaflaþörf við þessa vinnu, sem að stórum hluta krefst sérhæfðs vinnukrafts. Forsendur aukinnar rafhitunar eru að áfram verði haldið við virkjunarframkvæmdir og rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Einnig er nauðsynlegt að stefna að tengingu alls landsins í eitt kerfi og jafnframt auka öryggi hvers landshluta gagnvart bilunum í raforkukerfinu.“

Að öðru leyti mun ég ekki vitna frekar í þessa fróðlegu skýrslu. Hún er tiltæk þm. prentuð sem þskj. 562 á síðasta reglulegu þingi.

Í sambandi við þessa skýrslu lagði fyrrv. ríkisstj. til að Alþ. ákvæði með sérstakri ályktun að gerð yrði ítarleg framkvæmdaáætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Yrði áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdahraða og fæli í sér þau markmið sem skýrslan taldi raunsæ. Ætlun ríkisstj. var sú að lögð yrði fram á þessu þingi endanleg áætlun sem næði nokkur ár fram í tímann og fæli í sér jafnt verkþætti sem fjármögnun, þannig að þessi brýnu verkefni gætu haft algeran forgang meðan verið væri að leysa þau. Ég man ekki til þess að á þingi kæmi fram ágreiningur um þessa stefnumörkun, en því miður fór svo að till. var ekki afgreidd. Því olli, eins og allir muna, pólitísk sjálfhelda hér á þingi, auk þess sem þinghaldinu lauk með næsta skjótum hætti.

Eins og ég sagði áðan voru skýrslur þær, sem fram voru lagðar á síðasta þingi, aðeins framvinduskýrslur, og ætlun fyrrv. ríkisstj. var sú að unnið yrði kappsamlega áfram að þessu verkefni, eins og ég gat um áðan. En með myndun nýrrar ríkisstj. í sumar virðast þau viðhorf hafa gerbreyst þrátt fyrir fögur almenn orð í stefnuyfirlýsingu. Mér er kunnugt um að núv. hæstv. iðnrh. hefur ekki óskað eftir því að þessum störfum yrði baldið áfram. Síðan núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð hefur ekkert verið unnið að þeirri áætlunargerð, sem ég minntist á áðan, og verður vafalaust ekki gert nema Alþ. taki í taumana. Ég tel þetta mikið alvörumál fyrir þjóðarheildina og ekki síst fyrir þá landshluta sem hafa veríð og eru mjög afskiptir á sviði orkumála. Ég er sannfærður um að mikill meiri hluti þjóðarinnar og meiri hluti Alþ. er mér sammála um þessi viðhorf og þyrfti núv. hæstv. ríkisstj. sem fyrst að átta sig á þeim staðreyndum.

Fyrrv. ríkisstj. vann ekki aðeins að áætlunum í þessu skyni, heldur og að framkvæmdum sem miðuðu að því að tengja öll orkuveitusvæði saman, en það er forsenda fyrir því að landsmenn allir geti notið hagkvæmra stórvirkjana. Í tíð fyrrv. stjórnar voru orkuveitusvæðin á Norðurlandi tengd saman, og hygg ég að fáir gagnrýni nú þá framkvæmd þótt lengi væri reynt að hafa hana að spotti af forustuflokki núv. ríkisstj. Á síðasta reglulegu Alþ. var svo samþ. að verja fé til þess að tengja saman Suðurland og Norðurland, en ákvörðun um þá tengingu tók fyrrv. ríkisstj. um leið og hún ákvað að ráðast í Sigölduvirkjun, svo að sem flestir landsmenn ættu kost á orku frá henni. Eftir að Alþ. hafði heimilað fjáröflun um síðustu áramót var hafist handa um lokaundirbúning, gerð hagkvæm kaup á staurum og öðrum búnaði og safnað tilboðum. Allt var undirbúið til þess að hefjast handa um framkvæmdir þann 15. sept. í haust um línulögn frá Andakíl að Laxárvatni, og eins og veðurfar hefur verið í haust væri þessi lína nú trúlega komin langleiðina að Holtavörðuheiði. Hún hefði þá getað verið komin alla leiðina næsta haust og flutt til norðlendinga 10–12 mw. næsta vetur. Síðan átti svo að hækka spennuna til þess að hægt væri að flytja margfalt meira magn þegar Sigölduvirkjun tæki til starfa.

Það fór eins um þessa framkvæmd og áætlunargerðina, ekkert hefur verið gert síðan núv. ríkisstj, tók við völdum. Staurar og annar búnaður liggja á hafnarbökkum. Mjög hagkvæm tilboð hafa verið látin falla úr gildi. Það hefur ekki einu sinni verið staðið í skilum við seljendur á búnaði. Þeir, sem rætt hafa við hæstv. iðnrh., hafa ekki fengið nein skýr svör um það hvort hann vilji hætta við þessa undirstöðuframkvæmd eða ætli að draga hana von úr viti. Það er a.m.k. sýnt að hjá honum er enginn áhugi á því að flýta svo sem unnt er nýtingu innlendra orkugjafa og undirbúa að sem flestir landsmenn eigi kost á orku frá Sigölduvirkjun um leið og hún kemur í gagnið.

Það hefur lengi verið ljóst að erfiðleikar landsmanna í raforkumálum stafa fyrst og fremst af því að fylgt hefur verið þeirri stefnu að hver landshluti ætti að búa að sínu, virkja í heimahéruðum án tengsla við heildarþróun. Þegar íslendingar réðust í fyrstu stórvirkjun sína, Búrfellsvirkjun, sem framleiddi raforku á mjög hagkvæmu verði, áttu landshlutar utan Suðvesturlands engan kost á þeirri orku. Í staðinn var 2/3 af afli Búrfellsvirkjunar ráðstafað til erlends fyrirtækis, Álbræðslunnar í Straumsvík, og samið um fast og afar lágt verð allt til ársins 1997. Þetta verð nemur nú um fjórðungi þess sem talið er eðlilegt rafmagnsverð til orkufreks iðnaðar um þessar mundir. En í krónum talið nemur sá mismunur nærri 1000 millj. kr. á ársgrundvelli. Ef þessi orka væri nú tiltæk landsmönnum á því meðalverði, sem Búrfellsvirkjun fær, væri ekki orkuskortur og ekkert álitamál að rafhitun húsa væri miklu hagkvæmari einstaklingum en húshitun með olíu. Af slíkri reynslu ber landsmönnum og stjórnarvöldum að læra.

Lengi hefur verið um það rætt að Landsvirkjun breytti gjaldskrá sinni til þess að ýta undir húshitun með raforku og auka þannig eðlilegan markað landsmanna fyrir Sigölduvirkjun. Slíkri lækkun var heitið fyrir réttu ári, en síðan hefur ekkert gerst og í síðustu viku heyrðu hv. alþm. hvernig hæstv. iðnrh, svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Ingólfi Jónssyni um verðlag á raforku til húshitunar. Þar var ekkert sagt sem hægt var að henda reiður á. Í stað hinnar fyrirheitnu lækkunar á raforku til húshitunar mun ná liggja fyrir ríkisstj. ný ósk frá Landsvirkjun um að hækka raforkuverð enn einu sinni um 25% frá næstu áramótum. Yrði þá heildsöluverð frá Landsvirkjun til íslenskra viðskiptavina sinna komið nokkuð á þriðju krónu fyrir kwst. eða nærri tífalt hærra en raforkan til Álbræðslunnar. Ástæðan fyrir þessum sífelldu hækkunum á raforkuverði Landsvirkjunar er sú að aukinn tilkostnaður fyrirtækisins, aukinn fjármunamyndun og arðsemi verður einhliða á kostnaði þeirra íslensku viðskiptavina sem fá aðeins þriðjunginn af aflinu. Hinn erlendi kaupandi býr við fast raforkuverð án tillits til aðstæðna hérlendis, án tillits til þarfa íslendinga. Það er ekki síst af þessum ástæðum sem verð á raforku til húshitunar er ekki í neinu samræmi við eðlilegan tilkostnað.

Ég gat þess í upphafi að það væri mikil efnahagsleg nauðsyn að auka nýtingu innlendra orkugjafa í stað innfluttrar olíu. En þetta er einnig öryggismál og sjálfstæðismál. Við kynntumst því í olíukreppunni í fyrra hvernig hún var hagnýtt í pólitískum tilgangi, jafnt af olíuframleiðendum sem fjölþjóðlegum auðhringum. slíkar aðgerðir geta komið upp á nýjan leik í hinum fjölbreytilegustu myndum. því er okkur íslendingum það lífsnauðsyn á þessu sviði sem öðrum að verða sem sjálfstæðastir og óháðastir, geta sem mest búið að okkar eigin orkulindum í stað þess að eiga þarfir okkar meira en nauðsynlegt er undir viðhorfum og viðbrögðum annarra.

Síðast en ekki síst ber að nefna það grundvallaratriði að landsmenn allir njóti sömu réttinda og eigi sömu valkosti á sviði orkumála. Því marki verður aldrei náð nema með samtengingu allra orkuveitusvæða. Þá fyrst getur öllum orðið tiltæk sama orka á sama verði. Þá verður unnt að dreifa stórvirkjunum um landið, koma á samrekstri og hámarksnýtingu. Ég er þeirrar skoðunar að slíkar framkvæmdir séu óhjákvæmileg forsenda raunverulegrar byggðastefnu. Komi þær ekki til heldur misræmið áfram að magnast með öllum þeim afleiðingum sem af því hljótast. Núv. ríkisstj. segist fylgja byggðastefnu, en þau viðbrögð hennar að stöðva verk fyrrv.ríkisstj. á sviði áætlanagerðar og framkvæmda í orkumálum segja því miður allt aðra sögu. Ég vitnaði í upphafi til skýrslu þeirrar sem ég flutti á síðasta þingi um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu, en þar var m. a, komist svo að orði um framkvæmdahraða við rafhitun, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæður til þess að ekki er talið að unnt sé að hraða mettun markaðsins umfram þetta er hin mikla fjárfesting og einnig mannaflaþörf við þessa vinnu, sem að stórum hluta krefst sérhæfðs vinnukrafts.“

Okkur er öllum ljóst það stórfellda átak sem hér er um að ræða og það mun kosta mjög mikla fjármuni. Til þess þarf verulegan innlendan sparnað og erlendar lántökur. Þessi fjárfesting mun ekki skila arði fyrstu árin, en þeim mun mikilvægari verður arðsemi hennar, jafnt fjárhagslega sem félagsleg, þegar stundir líða fram. Enn fremur verðum við að beina til þessara framkvæmda miklu og sérhæfðu vinnuafli. Einmitt þess vegna er áætlanagerð óhjákvæmileg nauðsyn. Við þurfum að gera okkur nákvæma grein fyrir því hversu miklu fé við getum ráðstafað á hverju ári og hvernig við ætlum að afla þess. Á sama hátt verðum við að fjalla um vinnuaflið. Við þessa áætlunargerð verðum við að sjálfsögðu að taka mið af öðrum athöfnum okkar þannig að ekki verði árekstrar. Á sama hátt verðum við áð gera orkuspá sem gerir okkur kleift að tryggja það að orka verði jafnan tiltæk, eftir því sem markaður opnast, og hafi ekki verið ráðstafað til annarra þarfa, þannig að árekstrar hljótist af.

Við flm. erum þeirrar skoðunar að á sviði orkumála verði nýting innlendra orkugjafa í stað innfluttrar olíu hvarvetna um land að hafa algeran forgang og að önnur áform verði að bíða ef þau rekast á þessa brýnu nauðsyn. Þessi þáltill. er flutt til þess að kanna hvort allur þorri alþm. er ekki á sömu skoðun og freista þess að snúa við þeirri öfugþróun sem orðið hefur síðan núv. ríkisstj. tók við.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að till. verði að lokinni umr. nú vísað til hv. iðnn., sem mun að jafnaði fjalla um orkumál af þessu tagi.