04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur lokið ræðu sinni um till. sem hann hefur flutt ásamt hv. 2. þm. Austf. varðandi nýtingu innlendrar orku. Hann vék að þessu máli og lét fram koma í ræðu sinni að hann harmaði mjög þá stefnubreytingu, sem átt hefði sér stað við myndun núv. ríkisstj. varðandi þennan málaflokk og að þessi till. væri nú fram komin til þess að reyna að fá þeirri stefnu breytt sem ríkisstj. hefði tekið í þessum málum. Það væri dálítið annað, sem nú ætti að gera í þessum hlutum, reyndar væri það nánast ekkert, sem ætti að gera, saman borið við það, sem sú ríkisstj., sem þessi hv. þm. sat í, gerði í þessum stóra málaflokki. Auk þess vék hann að því sérstaklega hver áhugi hans hefði verið á þessum málum og hvað hann hefði látíð gera til þess að enn væri hægt að auka á nýtingu innlendrar orku í landinu, og vék að því að hann hefði á síðasta þingi lagt fram skýrslu í þessu máli þar sem fram hefði komið áhugi hans á nýtingu innlendrar orku og hvað hann hefði aðhafst sem þáv. iðnrh.

Ég get ekki stillt mig um að rifja örlítið upp af þessu tilefni störf þessa hv. þm. sem iðnrh. í fyrri stjórn og „þann mikla áhuga“ hans á því að nýta innlenda orku. Ég verð að minna á að byggðarlögin hér í kringum Reykjavík hafa lengi horft til Reykjavíkur og forustu Reykjavíkur í þessum málum, og þau höfðu vissulega áhuga á því að fá innlenda orku til upphitunar híbýla sinna og gerðu þess vegna samninga við Hitaveitu Reykjavíkur til framkvæmda í Kópavogi, í Garðahreppi og í Hafnarfirði. Þing eftir þing, þegar þessi hv. þm. var iðnrh., urðu þm. þessa kjördæmis að koma hér á Alþ. með fsp. um hvernig þessum málum væri komið, hvað hæstv. iðnrh. hygðist gera til þess að kleift væri að ráðast í þessar framkvæmdir og hvort hann hygðist standa að þeim gjaldskrárhækkunum sem Hitaveita Reykjavíkur hafði farið fram á til þess að fullnægja skilyrðum í erlendum lánasamningum, en það var grundvöllurinn að því að hægt væri að ráðast í frekari stækkun Hitaveitu Reykjavíkur.

Ég sagði, að það var þing eftir þing sem þm. þessa kjördæmis komu hér upp. Þeir höfðu áhuga á því að nýta innlenda orkugjafa fyrir þau byggðarlög sem þeir voru fulltrúar fyrir, en þeir töluðu hér fyrir daufum eyrum. Hæstv. iðnrh. hafði þá ekki uppgötvað þá miklu hagsmuni, sem þar væru í húfi, enda þótt forustumenn þess byggðarlags, sem hann þá hafði búið í alllengi, hefðu uppgötvað það fyrir mörgum áratugum og íbúar Reykjavíkurborgar notið þess í ríkum mæli.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því þegar suðurnesjabúar lögðu fyrir ríkisstj, hugmyndir sínar um stofnun hitaveitufélags á Suðurnesjum og ræddu við hæstv. fyrrv. ríkisstj. um þau mál, þá strandaði málið, að ég hygg, hjá fyrrv. hæstv. iðnrh. vegna þess að frumkvæði þeirra þar syðra mátti ekki vera, heldur varð að koma til a.m.k. hlutur ríkissjóðs að helmingi, ef ríkissjóður ætti ekki að eiga þar stærri hlut. Það sýndi sig bar enn á ný hver raunverulegur áhugi þáv. hæstv. iðnrh. var í þessum efnum og þá var komið fram á seinasta árið sem hann gegndi embætti iðnrh.

Það, sem er merkilegast við þetta allt saman, er yfirlýsing ráðh. frá því á þinginu í vor þegar hann talaði fyrir till. þeirri sem ríkisstj. þá flutti í sambandi við skýrslu þá sem hún hafði gefið Alþ. Þá lýsti hann því yfir að þegar orkukreppan skall á hófst hann handa í þessu máli. Þá fyrst gerði hann sér grein fyrir því að það væri hagkvæmt að nýta innlenda orkugjafa, þegar olíukreppan var skollin á. Þessi hans eigin orð sýna betur en nokkuð annað að hér var um að ræða skilningsleysi hans sem ráðh. á þessum málum, enda til viðbótar þeim fsp., sem hér voru bornar fram á Alþ., eins og ég sagði áðan, þing eftir þing, höfðu þm. stjórnarandstöðunnar flutt till. á Alþ. öll þessi þrjú þing um að skora á ríkisstj. að vinna að þessum málum. Á þessar till. var ekki hlustað og þegar kom svo að lokum síðasta þings flutti hæstv. iðnrh. þá till., sem hann gat um hér áðan, um frekari nýtingu innlendra orkugjafa.

Þar sem ég hef nú rifjað upp er aðeins frammistaða hans í þessu máli. En mjög gjarnan vill hann í dag láta líta svo út sem mikið hafi verið um aðgerðir af hans hálfu í þessum málum er hann sat á stóli iðnrh., en núv. ríkisstjórn hafi tekið upp allt aðra stefnu. Og hann vék að því að núv. hæstv. iðnrh. hefði stöðvað aðgerðir í þessum málum sem hann hefði sjálfur sett í gang. Ég kannast ekki við að það hafi farið fram nein ákvörðunartaka um að stöðva með einum eða öðrum hætti framkvæmdir í þessum mikilvæga málaflokki, þ.e.a.s. um áframhaldandi og aukna nýtingu innlendra orkugjafa, heldur þvert á móti. Það hefur verið og verður allt gert til þess að koma á frekari nýtingu innlendra orkugjafa og vinna upp það sem niður hafði fallið í tíð fyrrv. ríkisstj.

Og þá vék hann sérstaklega að byggðalínunni og að nú væri það mál stöðvað, staurar látnir liggja og annað eftir því. En þar er enn fremur hægt að víkja að viðskilnaði þess hv. þm, þegar hann vék úr ráðherrastóli iðnrh. Þá var talið að um tæpar 200 millj. kr. þyrfti til framkvæmda á árinu 1974. Hann hafði aðeins tryggt 25 millj. til þeirra framkvæmda. Það hafði farið fram ákvörðunartaka um 40 millj. í viðbót án þess að til þess væri nokkur króna til. Þá skorti enn um 130 millj. til þess að hægt yrði að halda því verki áfram, eins og upprunalega var hugsað að standa að því af fyrrv. ríkisstj. Þannig var nú viðskilnaður þessa fyrrv. hæstv, iðnrh. í sambandi við byggðalínuna. Og þegar orkumálin eru skoðuð í heild með tilliti til veru hv. 3. þm. Reykv. sem iðnrh., þá held ég að það sé allt annað en meðmæli með hans verkum. Ég held að hv. þm. eigi miklu fremur að standa með í þeim aðgerðum, sem standa til, og þeim framkvæmdum, sem unnar verða í sambandi við nýtingu innlendra orkugjafa, en að koma hér í ræðustólinn til þess að reyna að fegra sína fortíð og reyna að telja mönnum trú um að sú ríkisstj., sem nú situr, muni ekkert hugsa sér að gera í þeim efnum.

Ég sagði áðan að eitt af þeim verkefnum, sem núv. ríkisstj. mun leggja höfuðáherslu á, er nýting innlendrar orku og það verður þess vegna að leggja meiri áherslu á þennan málaflokk vegna þess hvernig að honum var staðið í tíð fyrrv. iðnrh.