04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Flm. (Magnús Kjartansson):

Mér er það ljóst, hæstv. forseti, að ég á ekki rétt til að halda hér neina ræðu. Þegar þessar almennu umr. eru hafnar af fullum krafti, er ég búinn að nýta þann ræðutíma sem þingsköp skammta mér og ég skal ekki hafa hér mörg orð.

Það er staðreynd, sem enginn getur borið á móti, að það var ekki hafist handa um byggðalínuna þegar öll skilyrði voru til þess að hægt væri að hefja verkið, 15. sept. í haust. Síðan eru 21/2 mánuður liðinn. Ef unnið hefði verið að verkinu þá telja fróðustu menn að þessi lina væri komin frá Andakíl langleiðina norður á Holtavörðuheiði og að þá væri algjörlega öruggt að þessi lína gæti flutt orku norður fyrir næsta vetur. Það er ákaflega mikilvægt atriði fyrir Norðurland að þetta takist. En fyrst ekki var ráðist í þetta verkefni er mikil hætta á því að þetta geti ekki tekist. Þeir menn, sem komu í veg fyrir það að hafist væri handa, bera að sjálfsögðu þá ábyrgð.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að ég hafi ekki falið Rarik að sjá um framkvæmd verksins. Það var ég búinn að gera löngu áður en ég hætti störfum sem ráðh. Það er ekkert sem arftaki minn hefur þar gert.

Hann minntist á það að rannsóknir í sambandi við Kröflu hefðu gengið of hægt. Það má kannske segja það. Hins vegar er það staðreynd að fé til rannsókna og rannsóknir allar voru margfalt meiri í tíð fyrrv. ríkisstj. en þær voru í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Það tókst að afla miklu meiri fjármuna en áður og rannsóknir voru stundaðar að miklu meira kappi. Um leið og áætlanirnar um Kröflu lágu fyrir, flutti ég hér á þingi frv. um heimild til að virkja við Kröflu, og um leið og frv. hafði veríð gert að lögum skipaði ég sérstaka n. til að vinna að framkvæmd málsins. Þar er um að ræða algeran hámarkshraða. Ég kannast ekki við að unnið hafi verið á þennan hátt að öðrum hliðstæðum verkefnum. En það var að sjálfsögðu gert vegna þess að mér var ljóst að þessu verki þurfti að flýta eins og hægt væri.

Ég held að ég svari ekki hæstv. fjmrh. að öðru leyti en því sem hann stóð hér í þessum ræðustól og sagði um míg í sambandi við hitaveitu í Kópavogi og Hafnarfirði: Honum var ljóst að óðaverðbólga mundi eyðileggja þessi áform. Hann hagnýtti óðaverðbólguna til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að ráðast í þessar framkvæmdir. — Þessi hæstv. ráðh. heldur því þannig fram að ég hafi ekki viljað að lögð yrði hitaveita í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi. Hæstv. ráðh. veit að sjálfsögðu að þessu trúir ekki nokkur maður, engu frekar en menn mundu trúa því ef ég væri að bera eitthvað slíkt upp á ráðh. Við getum deilt um það hvort við beitum réttum eða skynsamlegum vinnubrögðum við verkefni okkar, en að halda því fram að menn geri sér vitandi vits leik að því að koma í veg fyrir þjóðnýtar framkvæmdir, það er svo mikil firra að það er ekki sæmandi hæstv. ráðh. að vera með málflutning af þessu tagi.