05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það er nokkuð umliðið síðan þessi fsp. var borin fram, og tilganginum með henni hefur í raun og veru verið náð. Það var haldinn fundur á Leirá í gær, — fundur sem heimamenn þar um slóðir höfðu lengi beðið eftir. Sá fundur var tvímælalaust sögulegasti fundur sem lengi hefur verið haldinn í Borgarfirði. Það, sem þarna gerðist, var það að formælendur málmblendiverksmiðju, tveir ráðh., seðlabankastjóri, forstjóri Heilbrigðiseftirlits ríkisins og tveir aðrir sérfræðingar fóru hinar herfilegustu hrakfarir fyrir andstæðingum verksmiðjunnar, heimamönnum og einnig þeim mönnum, sem voru komnir nokkuð langt að til þess að segja sina reynslu af fyrirtæki eins og þessu, tveimur ágætum mývetningum.

Ég held að það fari ekki á milli mála lengur að borgfirðingar frábiðja sér málmblendiverksmiðju. Það leikur ekki nokkur vafi á því eftir þennan fund. Ég vænti þess, að viðkomandi ráðherra hagi sér í samræmi við það, dragi réttar ályktanir af þessum fundi og hætti við þetta verksmiðjubrölt þar efra.